Reykingabann á skemmtistöðum er vond hugmynd

Frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur um bann við reykingum á kaffihúsum og veitingastöðum byggist á forræðishyggju og skerðingu á eignarréttinum. Reykingar eru lögleg iðja og því er ótækt að stjórnvöld hlutist til um hvort eigendur veitingastaða ákveði að leyfa eða banna reykingar í sínum fyrirtækjum.

Tillaga Sivjar Friðleifsdóttur um bann við reykingum á veitingahúsum, kaffihúsum og skemmtistöðum hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur. Fram hefur komið í máli þingmannsins að markmið frumvarpsins sé fyrst og fremst vinnuverndarlegt þar sem ekki sé upp á það bjóðandi að láta starfsmenn kaffihúsa starfa í reykbrælu.

Í þessu máli vegast á tvö sjónarmið. Annars vegar liggur það í augum uppi að reykingar og óbeinar reykingar eru bæði óhollar og óskynsamlegar. Hins vegar snýst málið um rétt manna til að taka ákvarðanir sem flestum þykja óskynsamlegar.

Stuðningsmenn banns við reykingum á veitingastöðum byggja málflutning sinn mjög á þeirri staðreynd að hinum stóra meirihluta Íslendinga sem ekki reykir finnst óþægilegt að vera í kringum sígarettureyk. Þeir sem mæla banninu bót gera það margir á þeim forsendum að þeir sjá fyrir sér að geta sótt kaffihús og skemmtistaði án þeirra óþæginda að vökna um augun af sviða undan sígarettureyk og þurfa ekki að fara með föt í hreinsun til að ná úr þeim brælunni. Í augum flestra snýst því málið ekki um vinnuvernd heldur um þægindi eða óþægindi.

Sjónarmið andstæðinga slíks banns eru því miður oftlega afgreidd í umræðunni sem „frjálshyggjuklisjur“ eða þær sagðar ´“útópiskar.“ Áhyggjur frjálshyggjumanna yfir sífellt aukinni forræðishyggju eru afgreiddar sem útúrsnúningar eða einmanaleg hróp í eyðimörkinni. Þegar mál virðast líkleg til vinsælda eru margir reiðubúnir að dæma einstaklngsfrelsið léttvægt. Rök frelsisins gegn málum á borð við reykingarbannið kunna að vera of hugmyndafræðileg til að afla fylgis. Almennt virðist fólk ekki tilbúið að trúa þeirri kenningu að vegurinn til glötunnar sé varðaður góðum ásetningi.

Það er hins vegar skoðun ritstjórnar Deiglunnar, í þessu máli eins og öðrum, að sjálfsákvörðunarréttur einstaklinganna og verndun eignaréttarins séu meðal mikilvægustu grunnstoða góðs samfélags.

Í þessu tilviki hefur Siv Friðleifsdóttir áhuga á því að banna einstaklingum að leyfa öðrum einstaklingum að stunda löglega iðju í þeirra eigin húsum. Rökin eru annars vegar þau að sum önnur lönd hafa gengið svo langt og hins vegar þau að með slíku banni yrði þægilegra og öruggara að vinna á kaffihúsum.

Fyrri rökin eru að mati Deiglunnar fráleit. Því miður virðist það vera einhvers konar tíska nú um stundir hjá íslenskum stjórnmálamönnum að raða saman ströngustu höftum sem finnast í löggjöf annarra þjóða og reyna svo að þrýsta þeim inn í lög hér á landi. Ekki þarf mikið hugmyndaflug eða þekkingu til þess að sjá í hvers kyns ógöngur þess háttar hugsunargangur getur leitt okkur.

Síðari rökin halda heldur ekki vatni. Starfsmennn veitingastaða velja að vinna í umhverfi sem fylgir ákveðin óþægindi eða áhætta. Þau eru fá störf sem ekki fylgja einhvers konar óþægindi. Enginn er nauðbeygður til að vinna á kaffihúsi og enginn er neyddur til að sækja þau.

Þess gætir einnig í umræðunni að menn telji sig hafa rétt til þess að sækja reyklaus kaffihús. Þetta er misskilningur. Enginn hefur rétt til þess að sækja kaffihús en menn geta hins vegar notið þeirrar gæfu að eiga þess kost hafi einhver annar tekið að sér að standa í slíkum rekstri. Menn hafa ekki sjálfstæðan rétt til að sækja kaffihús og ekki til að sækja reyklaus kaffihús – ekki frekar en menn hafa rétt til þess að boðið sé upp á ákveðna tegund af súkkulaðikökum á kaffihúsunum.

Stuðningsmenn frelsisins hafa einnig bent á að sú þróun á sér þegar stað að neytendur hafi kost á því að sækja reyklausa staði. Nokkur reyklaus kaffihús eru starfrækt í miðbæ Reykjavíkur, svo dæmi sé tekið, og á mörgum veitingahúsum eru engin reykborð. Eins og vænta má er markaðurinn kominn langt framúr Siv Friðleifsdóttur.

Lagafrumvarp og málflutningur Sivjar er ofstækisfrumvarp. Í því felst sú hættulega hugsun að stjórnmálamenn eigi að taka ákvarðanir fyrir einstaklingana. Þeir sem meta frelsið einhvers geta ekki annað en staðið gegn hinni þungu bylgju forræðishyggjunnar. Ekkert gefur tilefni til þess að ætla að eitt bann í viðbót muni seðja þorsta forræðishyggjumanna í að hafa vit fyrir fólki.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)