Stytta eða ekki stytta?

Stytting náms til stúdentsprófs hefur verið lengi í umræðunni. Fyrir nokkru síðan tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra þá ákvörðun að stytta nám í framhaldsskólum úr 4 í 3 ár og hefur að undanförnu heimsótt framhaldsskóla landsins. Undirritaður sat kynningarfund ráðherra fyrir starfslið Menntaskólans í Reykjavík. Ekki voru allir á einu máli um framkvæmd styttingarinnar.

Árið 1992 skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, nefnd sem fjallaði um starfshætti í grunn- og framhaldsskólum. Ein af tillögum þessarar nefndar, sem lauk störfum árið 1994, var að námstími til stúdentsprófs yrði styttur um eitt ár. Það er hins vegar rétt að gera skýran greinarmun á styttingu náms til stúdentsprófs og styttingu framhaldsskóla enda væri hægt að ná fram markmiðum um styttingu náms til stúdentsprófs með því að stytta nám í grunnskóla um eitt ár. Það er hins vegar forvitnilegt að í 70 blaðsíðna skýrslu menntamálaráðuneytisins um breytta námsskipan til stúdentsprófs er lítið sem ekkert fjallað um þá ákvörðun að stytta nám í framhaldsskólum frekar en í grunnskólum. Eins og ýmsir hafa bent á eru ýmsir vankantar á þeirri leið. Þeirra á meðal eru margir rektorar og skólameistarar stærstu framhaldsskóla landsins, t.d. Yngvi Pétursson rektor MR, Már Vilhjálmsson rektor MS, Kristín Arnalds skólameistari FB, Ólína Þorvarðardóttir skólameistari MÍ og Sölvi Sveinsson verðandi rektor Verslunarskóla Íslands.

Í skýrslu menntamálaráðuneytisins er líka ýmislegt gagnrýni vert. Til dæmis er beinlínis gert ráð fyrir að nemendur komi jafnvel ef ekki betur undirbúnir í háskóla með nýja fyrirkomulaginu en erfitt er að koma auga á nokkurn rökstuðning þessari fullyrðingu til stuðnings. Eins er t.d. fullyrt í skýrslunni: “Skörun er á viðfangsefnum í stærðfræði í grunn- og framhaldsskóla og ljóst þykir að ekki þurfi allir nemendur á þessari endurtekningu að halda.” Þetta er ekki allskostar rétt. Þrátt fyrir að ef til vill sé um smávægilega skörun á þessum skólastigum að ræða eru tökin á námsefninu allt önnur, allt önnur vinnubrögð og mikill munur á dýpt yfirferðar. Enda hafa stærðfræðikennarar í framhaldsskólum lítið kvartað yfir verkefnaleysi fyrsta árs nema hingað til.

Til að ná markmiðum um styttingu framhaldsskóla um heilt ár er meðal annars gert ráð fyrir að töluvert af námsefni þeirra færist til grunnskólanna. Þar kemur að atriði sem margir hafa gagnrýnt. Ef færa á námsefni af framhaldsskólastigi á grunnskólastig þykir mörgum eðlilegt að gera þurfi sömu menntunarkröfur til kennara á unglingastigi grunnskóla og nú er gert á framhaldsskólastigi. Bent er á að yfirgnæfandi meirihluti kennara í framhaldsskólum séu a.m.k. með BS eða BA próf á sínu sviði. Starfsmenn ráðuneytisins og menntamálaráðherra hafa svarað þessari gagnrýni þannig að einmitt eigi að leggja sérstaka áherslu á endurmenntun kennara. Það er þá sennilega ekki seinna vænna en að fara að spýta í lófana því kennt verður eftir nýju fyrirkomulagi í grunnskólum árið 2006. Nákvæmlega hvert fyrirkomulagið verður virðist hins vegar ekki vera alveg jafnljóst. Né heldur hefur komið fram hvernig endurmenntun kennara verður háttað, en samkvæmt framkvæmdaáætlun vegna styttingaráformana eiga námskeið fyrir kennara að hefjast í mars 2006.

Þorgerður Katrín hefur sýnt að hún hafði þor til að taka ákvörðun í máli sem hefur verið í umræðunni síðan 1992. Það er mikilvægt að hafa í huga að gagnrýni á útfærslu styttingar er ekki það sama og gagnrýni á styttingaráformin sem slík. Gagnrýnin snýst meðal annars um ómarkvissar og óljósar áætlanir og stuttan undirbúningstíma. Það er því vonandi að menntamálaráðherra hafi einnig þor til að endurskoða styttingaráformin ef stefnir í óefni.

Skýrsla um breytta námsskipan til stúdentsprófs

Latest posts by Óskar Hafnfjörð Auðunsson (see all)