Síðasta vígið

Það hlaut að koma að því að ráðist yrði á síðasta vígi reykingarmanna – kaffihúsin. Mikilvægt er í umræðu um nýtt lagafrumvarp að átta sig á því að hér er ekki spurning um að taka afstöðu með eða á móti reykingum heldur með eða á móti eignarréttinum.

Það hlaut að koma að því! Nú er í undirbúningi árás helgasta vígi reykingarmannsins – kaffihúsin. Undir forystu heilbrigðismógúlsins Sivjar Friðleifsdóttur hefur verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um tóbaksreykingar sem gera ráð fyrir því að tóbaksreykingar verði ekki leyfðar á veitinga og skemmtistöðum. Mikilvægt er að menn staldri við þetta frumvarp og athugi nánar forsendur þess og röksemdir án tillits til þess hvort mönnum sé almennt illa við reykingar eða ekki. Hér er um aðra mikilvægari grundvallarspurningu að ræða er varðar heimild ríkisvaldsins til takmörkunar á eignarétti einstaklinga.

Meginmarkmið frumvarpsins eins og fram kemur í frumvarpinu er “vinnuvernd starfsmanna og vernd almennings með vísan til hratt vaxandi fjölda vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum. Þegar þetta meginmarkmið er uppfyllt má búast við ýmiss konar öðrum ávinningi af reykbanninu, bæði fyrir samfélag og einstaklinga.” Athugum þessa röksemdarfærslu nánar.

Vinnuvernd

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að starfsmenn hafa val um það hvort þeir vinni á stað þar sem reykingar séu leyfðar. Með þá vitneskju í huga tekur umsækjandi meðvitaða ákvörðun um þá skaðsemi sem óbeinar reykingar í vinnuumhverfi hans geta haft í för með sér. Aðrar stéttir í þjófélaginu á sama hátt gera sér grein fyrir þeirr áhættu sem fyglt getur starfsvettvangi þeirra. Þannig gera slökkviliðsmenn, lögreglumenn og flugfreyjur (svo dæmi sé tekið) grein fyrir þeirri áhættu sem fylgt getur starfi sínu. Það skýtur því skökku við að stjórnvöld sjái sig knúin til þess að vernda ákveðna starfstétt umfram aðra gagnvart ytri áhættuþáttum í starfi.

Verndun þeirra sem ekki reykja

Önnur forsenda frumvarpsins byggir á verndun gesta sem ekki reykja gegn óbeinum reykinga annarra. Á sama hátt og starfsmenn hafa gestir val um hvort þeir sæki staði þar sem reykingar eru leyfar eða flytji viðskipti sín á aðra staði sem ekki leyfðar reykingar. Hér kristallast lausnin í lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn. Þ.e.a.s ef stór hluti veitingahúsagesta er það illa við reykingar að þeir kjósi reyklausa staði þá mun aðilar á markaði sjá sér hag í því að opna staði þar sem reykingar eru ekki leyfðar. Þannig knýr hugsun veitingahúsaeigandans um aukinn ávinning (af fleiri gestum sem vilja reyklaust umhverfi) á lausn á vandamálinu.

Rök um gesti sem hjálparlaus fórnarlömb duga skammt þar sem valið um reyk- eða reyklaust umhverfi er ávallt þeirra.

Börn

Ef verndunarsjónarmiðum er haldið upp er sjálfsagt að líta á fleiri þætti og spyrja sig hvort ekki ber að vernda önnur saklaus fórnarlömb gegn skaðsemi óbeinna reykinga. Börn, ólíkt gestum á veitingahúsum, hafa ekki val um annað umhverfi verði þeir fyrir óbeinum reykingum foreldra. Þannig hljóta börn að vera í verri stöðu hvað óbeinar reykingar varðar heldur er starfsmenn sem hafa val um starfsvettvang.

Með verndunarsjónarmiðum ætti því rökrétt framhald þessa lagafrumvarps að vera annað þar sem kveður á banni foreldra við reykingum í heimahúsum og bílum þegar börn viðkomandi eru annars vegar.

Flestir hljóta að vera sammála því að slík lagasetning væri út í hött. Af hverju ? Jú því þarna er ríkið að skerða stórlega rétt fólks til þess að ákveða gjörðir sínar á eigin heimilum. Með öðrum orðum þá er verið að ganga á eignar- og ráðstöfunarrétt þess fólks.

Á nákvæmlega sama hátt hafa eigendur veitingahúsa ráðstöfunarrétt yfir húsnæði sínu, sem og öðrum eignum og eiga því sjálfir að ákvarða um þær reglur sem gestum eru settar án afskipta ríkisvaldsins.

Heilbrigðisvandamál

Þau rök hafa heyrst að ríkisvaldi skuli beita öllum mögulegum ráðum til þess að sporna gegn reykingum vegna þess hve reykingar séu mikið heilbrigðisvandamál. Þannig séu reykingarmenn stór baggi á heilbrigðiskerfinu sem kostar hinn almenna skattborgara gríðarlegar fjárhæðir á ári hverju.

Eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál á Íslandi í dag er offita. Ætti ríkið þá ekki að beita sér með sama offorsi gegn ofáti og reykingum. Þannig má sjá fyrir sér löggjöf sem kveður á um að einungis skuli neyta kokteilsósu á laugardögum og rjómakökur megi einungis snæða á sunnudögum. Það sjá allir að slíkt er út í hött.

Hið opinbera hefur ekki umráðarétt yfir einkaeignum fólks, hefur ekki heimild til að banna reykingar á heimilum og gildir slíkt hið sama um veitingastaði.

Latest posts by Ýmir Örn Finnbogason (see all)