Hvort segja kýr mu eða mö?

Upp er komin skemmtileg umræða í sveitum landsins og víðar. Hún snýst um það hvort kýr bauli „mu“ eða „mö“, og sýnist sitt hverjum. Umræða þessi er angi af pælingum sem stundum hafa skotið upp í huga pistlahöfunds, þ.e. er hægt að yfirfæra dýrahljóð yfir á mannamál?

Upp er komin skemmtileg umræða í sveitum landsins og víðar. Hún snýst um það hvort kýr bauli „mu“ eða „mö“, og sýnist sitt hverjum. Umræða þessi er angi af pælingum sem stundum hafa skotið upp í huga pistlahöfunds, þ.e. er hægt að yfirfæra dýrahljóð yfir á mannamál?

Í samtali við Morgunblaðið um helgina sagði Þórólfur Sveinsson bóndi að Ferjubakka 2 að kýr bauluðu hvort tveggja „mö“ og „mu“, en taldi „mu“ vera algengara. Kollegi Þórólfs, Sigurlaug Sigurðardóttir, bóndi í Nesi í Höfðahverfi, tók í sama streng og sagði „mu“ algengara hljóðið. Ef kýrnar væru hins vegar reiðar þá væri „mö“ algengara.

Undirritaður hefur ekki vanið komur sínar í miklum mæli í fjós þessa lands, en hefur þó stungið inn nefi á stöku stað. Hann telur sig geta fullyrt eftir slíkar ferðir að hafa heyrt eitt afbrigði hljóða úr kúm sem ekki var getið í grein Morgunblaðsins. Það er hljóðið „mú“, eða meira svona „muuuuuúúúúúúú“, þ.e. u-hljóðið byrjar en svo breytist það úr u-hljóði og endar í ú-i.

Hún er reyndar sérstök sú árátta mannfólksins að reyna að hljóð- eða stafsetja dýrahljóð. Í prinsippinu verða dýrahljóð ekki hljóðsett svo auðveldlega. Til dæmis er alveg útilokað að kveða upp úr um það með fullri vissu hvað hundar segja. Íslendingar hafa löngum sagt hunda segja „voff“, en t.d. í Bretlandi er talað um að hundar segi „bark“. Hljóðið „voff“ er engin veginn líkt hljóðinu „bark“ en engu að síður eru bæði orðin notuð af mannfólkinu yfir hundahljóð. Þetta virðist fara frekar eftir tungumáli mannfólksins en hundanna. Við þetta má bæta að vart er rökrétt að miða við að allir hundar gefi frá sér sama eða svipað hljóð. Sumir hundar kunna að segja „voff“ en aðrir hundar segja eitthvað allt annað.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess sem pistlahöfundur uppgötvaði á ferðum sínum um Spán fyrir nokkrum árum. Þarlendir greindu honum þá frá því að kindur á Spáni segðu ekki „me“ heldur „be“. Þarna er þó ekki reginmunur á og líklegt að hvort tveggja gangi. Það er engin leið að fullyrða, þegar kind ætlar að tjá sig, hvort upphafshljóð er „m“ eða „b“, enda nokkuð lík hljóð, þ.e. hefjast með lokuðum vörum.

Pistill þessi hefði kannski mátt missa sín, enda fráleitt innlegg í fráleita umræðu. En umræðan er til að taka þátt í henni og það hefur undirritaður nú gert.

Góðar stundir!

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)