Að dæma sig til áhrifaleysis

Það virðast vera einhver álög á Margréti Sverrisdóttur. Alltaf er hún fórnarlamb í pólitískum refskákum. Hún sagði sig úr Frjálslynda flokknum eftir að hafa lotið í lægra haldi í varaformannskjöri fyrir nokkrum misserum og nú telur hún að Ólafur F.(-listi) Magnússon hafi svikið sig með því að ganga til meirihlutasamstarfs við sjálfstæðismenn í Reykjavík.

Það virðast vera einhver álög á Margréti Sverrisdóttur. Alltaf er hún fórnarlamb í pólitískum refskákum. Hún sagði sig úr Frjálslynda flokknum eftir að hafa lotið í lægra haldi í varaformannskjöri fyrir nokkrum misserum og nú telur hún að Ólafur F.(-listi) Magnússon hafi svikið sig með því að ganga til meirihlutasamstarfs við sjálfstæðismenn í Reykjavík.

Margrét Sverrisdóttir sat í 2. sæti á lista Frjálslynda flokksins og óháðra við kosningarnar 2006. Flokkurinn lagði upp með fjölda stefnumála og hefur nú tekist að koma sér í oddastöðu með því að leiða meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokk í Reykjavík. Þá er málefnaskrá nýs meirihluta í veigamiklum atriðum í takti við stefnuskrá F-listans fyrir síðustu kosningar. Allt að einu kýs Margrét að styðja ekki þetta meirihlutasamstarf. Það er meira en lítið sérstök ákvörðun.

Í stað þess að geta haft veruleg áhrif á stjórn borgarinnar með því að gegna nefndaformennsku og viðlíka embættum í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokki og koma þannig stefnumálum F-listans til leiðar, eftir því sem tilefni eru til, kýs margnefnd Margrét að sitja áhrifalaus, sem einstaklingur án flokks, utan meirihlutans og í einhverju óskiljanlegu minnihlutasamkrulli með þremur öðrum stjórnmálaflokkum sem lítið eiga sameiginlegt og hnífar standa í annarri hverri kú.

Fyrir hvað stendur Margrét annars í pólitík? Hún hefur flakkað á milli flokka og samstarfa – og virðist ekki þrífast nema í einhverjum góðvinahópi þar sem enginn kallar til hennar styggðaryrði. Stjórnmál eru grimm, og hafa alltaf verið það, og einhvern veginn eiga sjálfskipuð „fórnarlömb“ þess sem gerist á þeim vettvangi erfitt uppdráttar. Þegar tækifærin gefast í stjórnmálum er rétt að grípa þau – sérstaklega ef lagt er í samstarf þar sem stefnumið sem viðkomandi sjálfur stóð fyrir þegar hún gaf kost á sér til kjörs hafa verið sett í framsætið. Þegar svo háttar til er meira en lítið einkennilegt að dæma sig til áhrifaleysis eins og Margrét Sverrisdóttir gerir. Af hverju gengur hún ekki bara í Samfylkinguna?

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)