Eignarréttur að saur í salernum

Í landyfirréttardómi frá 1913 bls. 155 var fullyrt að salernasaur yrði tæplega talinn með eignum þeim, er féllu undir þáverandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sú fullyrðing er og var fræðilega röng.

Í landyfirréttardómi frá 1913 bls. 155 var fullyrt að salernasaur yrði tæplega talinn með eignum þeim, er féllu undir þáverandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sú fullyrðing er og var fræðilega röng.

Málatvik voru þau að maður nokkur var krafinn um salernishreinsunargjald fyrir árið 1912 af húsi hans við Hverfisgötu. Með lögum nr. 42 frá 11. júlí 1911 um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík hafði bæjarstjórn Reykjavíkur verið heimilað að taka að sér salernishreinsun í öllum bænum eða nokkrum hluta hans. Til þess að standa straum af kostnaði þeim, sem af þessu leiddi, mátti leggja gjald á hús þau, sem hreinsuð var fyrir. Maðurinn neitaði að greiða gjaldið, var því þess krafist að gjaldið væri tekið lögtaki. Fyrir fógetarétti Reykjavíkur var kveðinn upp úrskurður í þá átt, að hið umbeðna lögtak skyldi fara fram. Upp í lögtakið var tekið stofuborð mannsins. Að fengnu konunglegu leyfisbréfi skaut maðurinn dómnum til Landsyfirréttar.

Í dómi Landsyfirréttar segir: „Áfrýjandi hefir ekki vefengt það, að hreinsunin hafi verið framkvæmd hjá honum, en hann heldur því fram, að hreinsunarfyrirkomulagið, eins og það er framkvæmt, byggist á ólöglegum grundvelli, þeim sé, að áburðurinn (saurinn úr salernunum) er tekinn frá eigendum leyfislaust og endurgjaldslaust og afhentur öðrum til eignar. Þetta fari enda í bága við 50. gr. stjórnarskrárinnar [nánast samhljóða 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar í dag], og að sjálfsögðu verði áfrýjandi eigi krafinn um gjaldið fyrir burtflutning áburðarins (saursins). En á þetta verður eigi fallist; vegna heilbrigðisástandsins í bæjarfélagi, sem Reykjavík er, má álíta það nauðsynlegt, að ráðstafanir séu til þess gerðar, að göturusl, óþverri og saur sé flutt úr bænum, svo að það spilli eigi heilsu almennings; þetta er og viðurkennt með lögunum nr. 42, 11. júlí 1911, eða það verður svo að líta á, að ákvæði þeirra byggi á þessari skoðun. Það þykir ekki vera neitt vafamál, að bæjarstjórnin hafi samkvæmt þessu lagaboði heimild til þess að láta hreinsa salerni bæjarbúa, og þá að sjálfsögðu jafnframt til þess, að láta taka saurinn og flytja hann burt, og það verður eigi á það fallist, að þetta komi að neinu leyti í bága við 50. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem líta verður svo á, eftir framansögðu, að almenningsþörf heimti áminstar hreinsunarráðstafanir, en salernasaur verður tæplega talinn með eignum þeim, er falla undir nefnda grein, en væri svo, þá leiddi það aðeins til þess, að áfrýjandi gæti heimtað endurgjald fyrir saurinn, en eigi til hins, að hann gæti skotið sér undan að greiða hreinsunargjaldið.“ Var tómthúsmaðurinn dæmdur til að greiða gjaldið auk málskostnaðar.

Fullyrðingin um að saur verði tæplega talinn með eignum þeim er falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er röng. Það hefur verið talið megineinkenni fjárréttinda og fjármunaréttinda að þau hafi fjárhagslegt gildi, þ.e. þau verði metinn til fjár á peningalegum mælikvarða, og að þau séu færanleg frá einum aðila til annars, þ.e. aðilaskipti geti orðið að þeim. Í þessu tilfelli var augljóslega um eign að ræða sem hafði fjárhagslegt gildi, þ.e. áburður sem bera átti á tún, auk þess sem aðilaskipti gátu orðið á áburðinum.

Ef þessi fullyrðing er skoðuð einangruð, þ.e. að saur verði tæplega talinn með eignum þeim er falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þá stenst hún ekki nánari skoðun. Hvað ef einhver aðili á salernissaur Elvis Presley eða John Lennon. Ég er nokkuð viss um að einhver brjálaður aðdáandi myndi vilja fjárfesta í honum.

Saur hlýtur því að vera verndaður af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hvort sem það var árið 1913 af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 eða frá arinu 1944 með breytingunum sem gerðar voru árið 1995.