Heilræði í umferð

Hefur þú gefið séns í dag?Umferðarmenning á Íslandi hefur ekki verið mjög fyrirferðamikil í umræðunni, nema ef vera skildi fyrir atbeina útvarps umferðarráðs (umferðarstofu). Hins vegar er full ástæða til þess að ræða þessi mál, sérstaklega í ljósi þess að umferðarmenningi á Íslandi er að mörgu leyti mjög slæm.

Hefur þú gefið séns í dag?Almennt séð má bæta umferðarmenninguna á Íslandi mikið og ekki vanþörf á því að reyna að breyta mörgum viðhorfum og (ó)siðum sem ríkja. Eitt af einkennum þess að keyra á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er að allir virðast vera í keppni við manneskjur í nálægum bílum um það að komast fyrst á leiðarenda. Næsti maður er alltaf að reyna að komast fram fyrir þig, taka fram úr þér, troða sér inn á milli þín og næsta bíls og annað þaðan af verra. Með öðrum orðum allt sem gerist í umferðinni er persónulega beint gegn þér og í því augnamiði að tefja þig á þinni mikilvægu leið á leiðarenda.

Það væri mikil bót í máli ef fólk gæti sameinast um það að líta á umferðina sem eðlilegan hluta af því að komast á milli staða en ekki hindrun. Flestir kannast við það í mikilli umferð þegar einhver “frekja” treður sér inn á milli bíla, eða skiptir þvert yfir tvær akreinar til þess að ná inn á afrein. Flestir kannast líka við það að hafa gleymt sér og/eða ruglast á leið sinni milli staða og að hafa þurft að grípa til álíka aðgerða til að missa ekki af afreininni. Hver er munurinn á þessum tilfellum? Í flestum tilfellum enginn. Vissulega eru til ökufantar og níðingar sem stunda það að troðast, en í mörgum tilfellum er fólk einungis að reyna að komast leiðar sinnar. Þegar við sjálf lendum í vandræðum í umferðinni eða gerum mistök, þá er okkur hollt að minnast þess næst þegar einhverjum öðrum verður á í messunni, en ekki dæma þann hinn sama fyrir ökuníðingshátt.

Það er mín tilfinning að meðal annars vegna þess hversu persónuleg umferðin á Íslandi er þá treystir fólk því ekki að næsti bíll muni hjálpa til þegar það þarf á að halda, eins og við akreinaskipti. Fólk notar því ekki stefnuljós sem vera skyldi, reynir að skipta um akgrein og bölsóttast svo yfir því að hafa ekki fengið sénsinn. Það er ekki nokkur leið fyrir aðra að vita hvað þú ætlar að gera næst í umferðinni nema þú gefir það til kynna með þar tilgerðum búnaði.

Umferð í kringum afreinar og aðreinar er í sérstaklega slöppum málum á landinu. Í sárafáum tilfellum víkja bílar á aðalbraut til hliðar til þess að gefa bílum á aðrein aðgengi inn á götuna. Sömuleiðis er mjög algent að sjá bíla sem eru aftar í röðinni á aðrein fara fyrr út á aðalbraut og loka svo á þá sem á undan eru. Allt er þetta mjög vel til þess fallið að auka verulega hættu á aftankeyrslum og öðrum óhöppum sem og til þess að hægja á öllu flæði í umferðinni.

En nóg af predikunum. Reglulega kemur upp í umræðunni hvort leyfa eigi hægri beygjur á rauðu ljósi. Þessi regla er að mörgu leyti góðra gjalda verð og til þess fallin að flýta fyrir umferð. Þetta er vel þekkt í Bandaríkjunum meðal annars og hefur reynst ágætlega. Andstæðingar þess að taka um þessa reglu á Íslandi benda meðal annars á aukna slysahættu þessu samfara og minni “virðingu” fyrir rauða ljósinu. Hins vegar er það svo að ekki er nauðsynlegt að leyfa þetta á öllum gatnamótum. Á gatnamótum þar sem umferðarþungi og hraði er mikill er einfaldlega hægt að banna hægri beygju, auk þess sem flest stærri gatnamót eru hönnuð þannig að hægri beygjur eru ekki teknar á ljósunum heldur í gegnum afrein.

Annað fyrirkomulag sem gæti verið athugandi að taka upp í umferðinni á Íslandi (og er einnig þekkt í Bandaríkjunum) væri að fella út gula ljósið þegar það kemur á eftir rauðu ljósi. Með öðrum orðum þegar bíll stendur á rauðu ljósi þá birtist honum strax grænt ljós án þess að það gula birtist inn á milli. Það er því ekkert viðbúinn tilbúinn nú”, heldur bara nú! Gula ljósið heldur sér aftur á móti á eftir græna ljósinu í þeim tilgangi að gefa bílum tíma til að stoppa. Þessi breyting gæti verið til þess fallin að nýta örlítið betur tímann á hverri akstursstefnu. Að lokum mætti gjarnan lengja gula ljósið þegar verið er að stoppa umferð.

Til þess að forðast misskilning þá telur undirritaður sig engan veginn óskeikulan þegar kemur að því taka þátt í umferð hvort sem það er heima eða erlendis. Hins vegar er hann áhugamaður um bætta umferðarmenningu og því að reyna að bæta sig á þeim vígstöðvum. Hluti af þeirri baráttu er svo að nöldra í ykkur hinum. Ég legg svo til í lokinn að þú gefir að minnsta kosti einum bíl „séns“ á dag í þessari viku. Hefur þú gefið séns í dag?

Umferðarráð Deiglunnar

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)