Allir njóta góðs af traustri stjórn ríkisfjármála

Stöðug hækkun á lánshæfismati ríkisins sýnir með áþreifanlegum hætti hvernig stefna og fjármálastjórn núverandi ríkisstjórnar hefur í för með sér ábata fyrir alla landsmenn.

Sá áþreifanlegi ábati sem fylgir hærra lánshæfismati ríkisins er vonandi áminning um mikilvægi þess að ekki verði horfið frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í ríkisfjármálum undanfarinn áratug.

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s greindi frá því síðastliðinn fimmtudag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat ríkissjóðs vegna langtímaskuldbindinga í erlendri mynt í AA- úr A+. Í tilkynningu sinni segir Standard & Poor’s að þessi ákvörðun endurspegli verulegar og viðvarandi framfarir í aðlögunarhæfni og uppbyggingu íslenska bankakerfisins ásamt því að opinber fjármál á Íslandi standi áfram traustum fótum.

Lánshæfismat ríkisins hefur á síðustu árum hækkað jafnt og þétt. Tilkynningar um slíkar hækkanir eru raunar orðnar nánast að föstum lið. Þessi öra hækkun á lánshæfismatinu hefur leitt til verulegs ábata fyrir landsmenn í formi lægri vaxtakostnaðar ríkisins. Sá ábati er hins vegar aðeins lítið brot af heildarábatandum sem hækkandi lánshæfismat ríkisins hefur í för með sér.

Þegar lánshæfismat ríkisins hækkar, þá hækkar einnig lánshæfismat ríkisstofnanna eins og Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs. Hærra lánshæfismat lækkar því vaxtakostnað þessara stofnana. Öllu mikilvægara er þó að þar sem íslensk fyrirtæki geta ekki fengið hærra lánshæfismat en íslenska ríkið leiðir hærra lánshæfismat til þess að unnt er að hækka lánshæfismat stöndugustu fyrirtækja landsins. Samkeppnishæfni þeirra batnar því þegar lánshæfismat ríkisins hækkar.

Hingað til hefur aðalástæðan sem alþjóðleg matsfyrirtæki hafa gefið fyrir hækkun lánshæfismats ríkisins verið bætt fjármálastjórn og sú mikla lækkun á skuldum ríkisins sem átt hefur sér stað síðasta áratuginn. Það er athyglisvert að Standard & Poor’s skuli að þessu sinni nefna breytingarnar sem orðið hafa á íslenska bankakerfinu sem aðalástæðu hækkunarinnar.

Forsenda þeirra gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á íslenska bankakerfinu á undanförnum misserum er vitaskuld sú stefna ríkisins að draga sig út úr rekstri banka á Íslandi og einbeita sér þess í stað að því að búa til trausta umgjörð um slíka starfsemi hér á landi. Þessi hækkun á lánshæfismati ríkisins sýnir með áþreifanlegum hætti hvernig þessi stefna núverandi ríkisstjórnar hefur í för með sér ábata fyrir alla landsmenn.

Stjórnamálaumræðan vill oft snúast að stærstum hluta um hin ýmsu mál sem talið er mikilvægt að ríkið auki fjárframlög til. Allir sjá í hendi sér ábatann af því að verja meira fé til dæmis til heilbrigðismála eða vegamála. Ábatinn af traustri fjármálastjórn er því miður ekki jafn augljós og virðist því oft gleymast.

Núverandi ríkisstjórn á mikið hrós skilið fyrir að hafa ekki freistast til þess að gefa traustri fjármálastjórn minna vægi en mikilvægi hennar leiðir af sér að hún eigi að hafa. Fyrri ríkisstjórnir Íslands höfðu allt of oft fallið í slíka freistni með slæmum afleiðingum fyrir velsæld landsmanna. Sá áþreifanlegi ábati sem fylgir hærra lánshæfismati ríkisins er vonandi áminning um mikilvægi þess að ekki verði horfið frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í ríkisfjármálum undanfarinn áratug.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)