…að vera eða vera ekki herloftfar…

Undirritaður hefur fylgst með umræðum um hollenska fyrirtækið E.C.A. Program og fyrirætlanir þess á Miðnesheiði. Sú umræða hefur farið í kunnuglegan farveg. Í þessum pistli verður í stuttu máli fjallað um herloftfarahugtakið að þjóðarétti og skoðað hvernig það kemur við sögu í þessu máli.

Undirritaður hefur fylgst með umræðum um hollenska fyrirtækið E.C.A. Program og fyrirætlanir þess á Miðnesheiði. Sú umræða hefur farið í kunnuglegan farveg. Í þessum pistli verður í stuttu máli fjallað um herloftfarahugtakið að þjóðarétti og skoðað hvernig það kemur við sögu í þessu máli.

Skráning loftfara hefur töluverð réttaráhrif. Ein af þessum áhrifum eru að réttarreglur ríkisins sem loftfarið er skráð í gildir um farið. Sérreglur gilda um herskip og herloftför í þjóðarétti þar sem litið er á þau sem hernaðarlega og pólitíska einingu fullvalda ríkis. Réttaráhrifin við að flokka loftfar sem herloftfar eru miklar í stríðsrétti. Það á einkum við á ófriðartímum. Í samþykkt um alþjóðaflugmál frá 1947 (e. Convention on International Civil Aviation), er gerður greinarmunur á loftförum til kaupferða og ríkiskaupförum. Í a-lið 3. gr. samþykktarinnar segir að hún skuli eingöngu gilda um flugför til kaupferða en ekki ríkisflugfara. Hugtakið ríkisloftför er afmarkað nánar í b-lið greinarinnar sem kveður á um að flugvélar til herþjónustu, toll- eða löggæslu skuli álitnar ríkisflugför. Ekki er að finna skilgreiningu á flugvélum til herþjónustu í samþykktinni eða hvaða sérstöku réttarreglur gildi um slík för. Í lögfræðihandbók bandaríska sjóhersins er að finna skilgreiningu á herloftförum sem stundum er vitnað til. Samkvæmt henni eru slík loftför skilgreind í þjóðarétti sem öll loftför sem starfrækt eru af herliði ríkis og bera hin ytri merki til að auðkenna slík loftför af þjóðerni þess, eru undir stjórn einstaklings sem tilheyrir herliði ríkisins og er með áhöfn undir venjulegum heraga.

Eins og sjá má þarf loftfar að uppfylla fjögur skilyrði til að flokkast sem herloftfar. (1) Það þarf að vera starfrækt af herliði ríkis; (2) bera hin ytri merki til að auðkenna slík loftför af þjóðerni þess; (3) vera undir stjórn einstaklings sem tilheyrir herliði ríkisins; (4) og vera með áhöfn undir venjulegum heraga. Öll skilyrðin þurfa að vera uppfyllt. Af fréttum að dæma virðist E.C.A. Program vilja skrá flugvélar sínar á Íslandi. Slík skráning hefur í för með sér að flugvélarnar lúta íslenskum lögum og reglum. Í íslenskum lögum og reglum er hvergi gert ráð fyrir herliði enda starfrækir Ísland ekki her og enginn vilji virðist vera til staðar að stofna her. Af þessu leiðir að ef flugvélar E.C.A. Program væru skráðar hérlendis gætu þær ekki talist herloftför og myndu þ.a.l. ekki njóta réttarstöðu slíkra fara.

Af fréttum að dæma virðist sem flugvélar E.C.A. Program eigi fyrst og fremst að leika hlutverk óvinarins á heræfingum herja NATO-ríkja og bandamanna þeirra. Í þessu samhengi má benda á þá vel þekktu staðreynd að Ísland er eitt aðildarríkja NATO. Auk þess er vert að benda á að heræfingar eru ekki bannaðar að þjóðarétti. Það er meira segja hægt að líta á þær sem æskilegt fyrirbæri til að tryggja frið og öryggi í heiminum. Í tilviki E.C.A. Program mætti jafnvel halda því fram að fyrirætlanir fyrirtækisins þjóni íslenskum öryggis- og varnarhagsmunum svo ekki sé minnst á þá efnahagslegu.

Góðar stundir