Skandinavíska velferðin í fyrirrúmi

Hver sá sem á leið um Kaupmannahöfn þessa dagana kemst ekki hjá því að sjá að kosningar eru í landinu þann 8. febrúar nk. Hvert sem litið er blasa við auglýsingaskilti stjórnmálaflokkanna. Það er áhugavert að fylgjast með þeim áherslum sem flokkarnir hafa og þau gildi sem í þeim felast, enda eru þau að mörgu leyti ólík þeim sem við eigum að þekkja.

Hver sá sem á leið um Kaupmannahöfn þessa dagana kemst ekki hjá því að sjá að kosningar eru í landinu þann 8. febrúar næstkomandi. Hvert sem litið er blasa við auglýsingaskilti stjórnmálaflokkanna, en alls tíu flokkar bjóða fram til þings. Þá eru fjölmiðlar uppfullir af fréttum af baráttu flokkanna og Danir ræða fátt annað. Nýjustu kannanir sýna að Venstre, flokkur Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, haldi forskotinu með 31,3% atkvæða, en Sósíaldemókratar, með Mogens Lykketoft í fararbroddi, fylgja fast á eftir með 27,4% atkvæða.

Nokkuð áhugavert er að velta fyrir sér inntaki auglýsinga flokkanna, kosningaloforðum og þeim málefnum sem efst eru á baugi. Allir nefna þeir fjölskyldu- og skólamál og aukin áhersla virðist einnig lögð á umhverfismál. Málefni innflytjenda og atvinnumál virðast hins vegar vera ofarlega í hugum kjósenda.

Venstre hrósar árangri í innflytjendamálum, en veiting dvalarleyfis til þeirra er sótt hafa um pólitískt hæli hefur fallið frá 6.300 niður í 2.400. Á síðusta ári sóttu 3.222 um pólitískt hæli í Danmörku, en fyrir fimm árum var sambærileg tala 12.100. Bertel Haarder, ráðherra innflytjendamála, segir að ástæður þessarar gífurlegu lækkunnar séu þó fyrst og fremst að meiri friður ríki nú um stundir í heiminum. Á heimasíðu Venstre kemur einnig fram að á stefnuskránni sé að auka menntun ungra innflytjenda. Það sé nauðsynlegt í ljósi þess að Danmörk skeri sig frá öðrum löndum, því önnur kynslóð innflytjenda í landinu hafi minni menntun en sú fyrsta. Flestir hinna flokkanna leggja til vægari stefnu með áherslu á að aðlaga hina nýju Dani betur að samfélaginu.

Einn flokkur sker sig þó algerlega úr, en það er Danski þjóðarflokkurinn sem skapaði harðar deilur í síðustu viku með því að leggja það til að sett yrðu lög til varnar danskri tungu. Þar með yrðu til dæmis allar upplýsingar hjá stofnunum og fyrirtækjum eingöngu birtar á dönsku. Var þessu slegið upp á forsíðu dagblaðsins Politiken í vikunni og þar meðal annars nefndar í dæmaskyni tvær þjóðir, er gera mikið til að varðveita tungumál sitt, það er Ísland og Frakkland. Margir hafa gagnrýnt þessa hugmynd flokksins og hefur á það verið bent í fjölmiðlum að það geti verið lífsspursmál að sjúklingar til að mynda geti lesið og skilið leiðbeiningar um lyfin sín og svo mætti lengi telja. Í Politiken var jafnframt sagt frá því að Danski þjóðarflokkurinn vilji endurskoða eða láta af aðild sinni að flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Þá vill flokkurinn lækka sakhæfisaldurinn niður í tólf ár og loka landamærunum til Svíþjóðar til þess að stöðva straum innflytjenda til landsins. Einhverjir virðast sammála þessari hörðu stefnu flokksins, því samkvæmt könnun helgarinnar er birtist í títtnefndu Politiken hefur flokkurinn 10,8% fylgi eða það þriðja mesta.

Sósíaldemókratarnir setja atvinnumálin á oddinn og ætla sér stóra hluti í þeim efnum. Þeir hafa sett fram atvinnuáætlun til næstu tíu ára undir því frumlega heiti ,,Made in Denmark”. Ætlunin er að útvega 50 þúsund ný störf á kjörtímabilinu og 100 þúsund á næstu tíu árum með ýmsum aðgerðum, svo sem aukinni menntun.

Venstre hyggst fjárfesta í framtíðinni og verða menntun og frumkvöðlastarfsemi í hávegum höfð á þeim bænum. Meðal þess sem flokkurinn vill gera er að breyta dýrasta almenningsskólakerfi í heimi yfir í það besta. Þá er flokknum einnig mikið í mun að varðveita ,,skattastoppið” (en þeirra helsta loforð felst í að hækka ekki skatta) og ber því mikið á slagorðum á borð við ,,Fasthold skattestoppet”.

Það er áhugavert að fylgjast með þeim áherslum sem flokkarnir hafa og þau gildi sem í þeim felast, enda eru þau að mörgu leyti ólík þeim sem við eigum að þekkja. Venstre eru húðskammaðir af mótframbjóðendum fyrir sitt skattastopp, enda á að veita meiri peningum í almannasamgöngur, heilbrigðiskerfi og skólakerfi. Þá þarf ríkisvaldið að skapa fleiri störf innan Danmerkur. Hugtök eins og einkaframkvæmd og skattalækkanir eru dönskum ,,frændum” okkar fjarri. Skandinavíska velferðin er í fyrirrúmi.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)