Besta vika í heimi

Á sjónvarpstöðinni VH1 er á dagskrá þátturinn “Best week ever”. Þar er fjallað um hvaða einstaklingur eða hópur hefur átt sína lífsins bestu viku í undanfarinni viku. Þar sem lögsaga VH1 nær ekki yfir Ísland þá hef ég tekið að mér það verkefni að fara yfir vikuna og tilnefna nokkra kandídata. Til að bregða út af vananum ætla ég þó að nálgast þetta bæði út frá verstu og bestu viku viðkomandi aðila.

Á sjónvarpstöðinni VH1 er á dagskrá þátturinn “Best week ever”. Þar er fjallað um hvaða einstaklingur eða hópur hefur átt sína lífsins bestu viku í undanfarinni viku. Þar sem lögsaga VH1 nær ekki yfir Ísland þá hef ég tekið að mér það verkefni að fara yfir vikuna og tilnefna nokkra kandídata. Til að bregða út af vananum ætla ég þó að nálgast þetta bæði út frá verstu og bestu viku viðkomandi aðila.

Tilnefning 1 – Handboltalandsliðið (versta):

Það er sjálfsagt við hæfi að hefja leikinn á hinu tilfallandi þjóðarstolti okkar Íslendinga, handboltalandsliðinu. Miðað við hvernig leikar hafa þróast fram að þessu í heimsmeistaramótinu, þá lítur allt út fyrir að þátttöku okkar á mótinu ljúki eftir leiki dagsins. Vonir okkar eru bundnar við að olíufurstarnir frá Kúveit/Kúvæt dragi upp úr ranni sínum áður óþekkt tilþrif og sigri Tékka og um leið að okkar menn rísi upp og sigri Alsíringa. Það er þó engin ástæða fyrir okkur árangursþyrsta landsmenn að leggjast í eymd og volæði þó svo að landsliðinu hafi gengið illa að þessu sinni. Töluverð endurnýjun er í gangi í hópnum og það má segja Viggó til hróss að hann hefur heilmikið rúttað til í áskrifendahópi landsliðsins og við getum verið ágætlega vongóð um árangur á komandi mótum. Þrátt fyrir að leikur landsliðsins hafi hvorki þótt nægilega stöðugur né öflugur, þá getum við þó sennilega flest verið sammála um að landsliðsþjálfarinn átti mjög jafna og góða leiki þegar kom að samskiptum við dómarana. Mér er til efs að nokkur þjálfari í heiminum hafi farið jafnilla út úr samskiptum sínum við dómara og Viggó. Að sama skapi hljóta þjálfarar andstæðinga Íslands að gleðjast þegar þeir sjá Viggó á bekknum, enda “næsta víst” að þeir munu hafa dómarana með sér í þeim leik.

Tilnefning 2 – Kyndararnir í handboltahöllunum í Túnis (versta):

Frost í Afríku. Það var óneitanlega kímlegt að fylgjast með fréttum frá áðurnefndu heimsmeistaramóti þegar fram kom að hiti í sumum höllum í Túnis hafi verið nálægt frostmarki þegar leikir og æfingar fóru fram. Leikmenn liðanna voru hreinlega að héla á bekkjunum og það fraus í gatorade brúsunum. “Fimbulkuldar” á þessum svæðum eru sjálfsagt sjaldgæf fyrirbæri og má leiða líkum að því að þeir sem sjá um kyndinguna í höllunum hafi átt erfiða daga upp á síðkastið við að reyna að finna hitastillingarsnúðinn á stjórnborðunum. Þegar íslenska landsliðið þarf að fresta æfingu vegna kulda, þá hlýtur að vera kominn grundvöllur fyrir því að kæra úrslit mótsins vegna slæmra aðstæðna. Í leiknum gegn Rússum í gær þurfti meira að segja að gera hlé vegna hálku á gólfinu…

Tilnefning 3 – Fréttastofa Stöðvar 2 (versta):

Ekki nóg með að fréttastofan þyrfti að draga til baka eina stærstu frétt sína varðandi ríkisvaldið í langan tíma, heldur sagði einn af starfsmönnum fréttastofunnar af sér í kjölfarið. Það virðist ríka mikill órói á þessum dögum í fréttabúðum Stöðvar 2 og nú er svo komið að Páll Magnússon er kominn í annað hvert starf á stöðinni. Auk þessa reyndu fréttamenn stöðvarinnar að leggja orkuboltann og athafnatröllið Árna Johnsen að velli með því að gera atlögu að títtnefndri kostnaðarmatsskýrslu vegna jarðgangna til Vestmannaeyja. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu í þetta skiptið máttu hörfa til baka eftir nokkrar tilraunir.

Tilnefning 4 – Árni Johnsen og áhugamenn um göng til Eyja (besta):

Hinn þrautreyndi brekkusöngvari átti mun betri viku en afleysingarmaður hans á fréttastofu Stöðvar 2. Kostnaðarmatið sem Árni lagði fram frá verktakafyrirtækinu NCC hefur gefið Eyjamönnum og öðrum áhugamönnum um veggöng til Eyja aukinn baráttuþrótt og bætt bjartsýni á brúsa þeirra. Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort og hversu áreiðanlegt mat þetta er, en það er þó ljóst að Árni hefur á síðustu dögum komið af miklu krafti aftur inn í umræðuna í íslensku þjóðlífi. Eins og nefnt var hér að framan var nokkuð ljóst að nokkrir fréttamenn Stöðvar 2 ætluðu sér að endurtaka leikinn frá Þjóðleikhússmálinu og tækla trúverðugleika Árna, en í þetta skiptið hafði Árni betur. Það verður forvitnilegt að fylgjast með karlinum á næstu mánuðum en með atburðarrás undanfarinna ára í huga, þá gæti verið að Árni hafi í vikunni átt sína bestu viku “ever”.

Það er vissulega af mörgu öðru að taka úr þessari viku, en það er nóg komið að sinni. Áfram Ísland og áfram Kúvæt.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)