Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur

Nokkur umfjöllun var um byggðavandann í vikunni sem er að líða. Ríkisstjórnin samþykkti að skipa vinnuhóp til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Vestfirðingar hafa fært fram tillögur til úrbóta og þeir krefjast aðgerða strax. En eru sértækar aðgerðir rétta leiðin til lausnar vandanum?

Nokkur umfjöllun var um byggðavandann í vikunni sem er að líða. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu forsætisráðherra um að skipa vinnuhóp til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Var það gert í beinu framhaldi af fjölmennum fundi um atvinnumál Vestfirðinga á Ísafirði á sunnudag. Vaxandi óánægju hefur gætt á Vestfjörðum vegna atvinnumála, meðal annars í kjölfar ákvörðunar Marels um að loka starfsstöð sinni á Ísafirði frá og með september næstkomandi. Rúmlega 20 starfsmenn starfa á starfsstöð fyrirtækisins.

Vestfirðingar hafa fært fram tillögur til úrbóta og lúta þær meðal annars að bættum samgöngum, háskóla á Ísafjörð, úrbótum í fjarskiptum, jöfnun flutningskostnaðar með strandsiglingum, flutning opinberra starfa á svæðið og leiðréttingu á tekjustofnum sveitarfélaganna. Og Vestfirðingar krefjast aðgerða strax.

Vestfirðingar eiga að sjálfsögðu að njóta jafnræðis á við aðra hvað varðar almenna aðstöðu og uppbyggingu innviða sem ríkisvaldið hefur tekið að sér. Þannig eiga þeir kröfu á vegakerfi og að opinber þjónusta sé til staðar líkt og annars staðar á landinu. Spurningin sem hins vegar óhjákvæmilega vaknar eftir umræðu síðustu viku er hvort íbúar ákveðinna landshluta eigi kröfu á opinbera aðstoð eða niðurgreiðslu af þeirri ástæðu einni að hluti íbúanna sjái sér ekki lengur hag í að búa þar.

Rótin að vanda Vestfjarða er ekki sá að það vanti opinber störf, vegi, eða háskóla. Vandamálið er að skapast hafa arðbær störf í öðrum landshlutum sem fólk sækir í. Þjóðfélagið hefur breyst og að sama skapi dreifing íbúa. Ástæða þess að kaupstaðir urðu til á Vestfjörðum var einmitt sú að þar var á sínum tíma fleiri arðbær störf að finna en í sveitunum.

Þeir sem kjósa sér að búa á fámennari stöðum verða að búa bæði við þá kosti og þá galla sem því fylgja. Opinberir styrkir og aðstoð munu ekki leysa vanda Vestfirðinga, hvað sem stjórnmálamenn í atkvæðaleit kunna að segja. En þar sem kosningabaráttan er að komast á flug hafa stjórnmálamennirnir það ekki í sér að segja þetta við Vestfirðinga heldur er skipaður enn einn vinnuhópurinn. Nú er bara að bíða og sjá hvort ekki verði búið að færa fjölda opinberra starfa og hefja jarðgangaframkvæmdir fyrir kosningar.

Það verður þó að teljast næsta líklegt að niðurstöður vinnuhóps og sértækar aðgerðir sem fylgja í kjölfarið eiga engan vanda eftir að leysa. Byggð mun rísa og færast til þeirra staða þar sem landsmenn finna sér störf við hæfi, hvort sem það er á Vestfjörðum, á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis. Byggðamálum á ekki að handstýra af sögulegum ástæðum.

– FRÞ

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)