Mótum okkar eigin stefnu í málefnum útlendinga

Ætli raunin sé sú að alþjóðavæðingin, sem átti að vera lykillinn að friði milli landa, sé að hleypa lífi í nýjar óeirðir, milli borgaranna sjálfra? Ætli versnandi viðhorf og auknir fólksflutningar hingað til lands sé í raun timbur og steinn sem nuddast saman, og það þurfi aðeins einn neista til að hleypa óeirðunum af stað?

Fyrir nokkrum árum var mannlífið á Íslandi annað en það er í dag. Sem lítil stúlka lagði ég oft leið mína í Kolaportið um helgar til upplifa suðupott mannlífsins. Þarna fannst mér ég upplifa Ísland í sinni réttu mynd. Sjómennirnir frá Vestfjörðum voru mættir til að selja harðfisk og hákarl. Gamla konan úr sveitinni seldi skonsur og flatkökur auk þess sem uppáhaldið mitt, lakkrískonan, var á sínum stað. Ekki spillti fyrir að boðið var upp á ókeypis smakk og oftar en ekki kom ég til baka ilmandi af harðfiski, hárkarli og lakkrís í bland, móður minni til misjafnar gleði. Í minningunni endurspeglar Kolaportið tíðarandann og var í raun mósaík íslensks mannlífs.

Kolaportið er enn á sínum stað. Það er enn seldur harðfiskur og hákarl og enn nappa ég bita frá lakkrís sölukonunni þegar hún sér ekki til. Alltaf að græða.

Það sem hefur breyst er að núna eru seldar þar vörur frá Austurlöndum fjær, vörur sem ég vissi ekki einusinni að voru til þegar ég var lítil stúlka. Í dag standa við hlið vestfirðinganna fólk af öllum þjóðernum. Alsír, Angóla, Eþíópía, Gambía, Ghana, Kenýa, Líbanon, Mongólía, Namibía, Nígería, Pakistan, Pólland, Rússland, Senegal, Sierra Leone, Sri Lanka, Sýrland, Túnis, Trinidad og Tobago og Úganda.

Suðupotturinn er á sínum stað og endurspeglar breytta þjóðmynd Íslands. Við höfum færst frá því að vera einangruð eyja í norðurhöfum í það að vera fjölmenningarsamfélag þar sem hákarlinn er seldur við hlið framandi matvara og litlar stúlkur labba við hlið vinkvenna sinna að erlendum uppruna og saman upplifa þær sína menningarheima, staddar á Íslandi.

Þessari þróun hefur þó ekki verið tekið af öllum með opnum örmum. Með auknum straumi innflytjenda hingað til lands hafa brúnir landans sigið. Hvað vill þetta fólk hingað? Ætli þetta sé eitt allsherjar “plott”, einungis til þess fallið að ræna frá okkur vinnunni, tungumálinu, menningunni og stækka röðina í Bónus á föstudögum?

Í fréttatilkynningu sem send var frá dómsmálaáðuneytinu núna á dögunum kom fram að á síðasta ári var 637 útlendingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur.

Í könnunum sem gerðar hafa verið er það staðfest að viðhorf almennings til innflytjenda á Íslandi er að versna. Ef bornar eru saman kannanir sem gerðar voru árið 1997, 2000 og svo síðast 2004 kemur í ljós að í öllum tilvikum voru fleiri neikvæðir gagnvart útlendingum árið 2004 en árið 2000 og 1997. Ljóst að eitthvað er að fara úrskeiðis í innflytjendamálum.

Fjöldinn allur af skýrslum hefur verið ritaðar um þessa þróun sem hafa bent á yfirborðskenndan hátt á það að lausnin að þessu versnandi viðhorfi sé aukin fræðsla, aukin samskipti, aukin aðlögun og svo framvegis. Stafshópar hafa verið skipaðir til að fylgja þessum skýrslum eftir, og já, fræðsla aukin, Alþjóðahús sett á laggirnar, fjölmenningarsetur, alþjóðahátíðir. En þrátt fyrir það er ekkert að batna! Íslendingar halda áfram í þá skoðun sína að aukinn innflytjendastraumur sé ekki af hinu góða. Getur það verið að þessar skýrslur séu fullar af rausi sem eigi ekkert skylt við raunveruleikann. Getur verið að þessir starfshópar hafi í raun ekki lausnina að vandanum? Vandinn er sá að hingað kemur á hverju ári fjöldi manns sem er ekki boðinn velkominn af stórum hluta þjóðarinnar, það síðan endurspeglast í því að fólkið fær lakari vinnu og einangrast frá öðrum íbúum landsins. Það liggur í augum uppi að ef þetta heldur áfram á þennan veg er um að ræða snjóbolta sem vindur upp á sig. Fólkinu fjölgar og viðhorfið versnar.

Lítum í nágrannalöndin þar sem saga þeirra af fólksflutningum er lengri en okkar. Þar logar allt í kynþáttaóeirðum og kynþáttamismunun svo á stundum virðist sem við séum komin aftur á byrjunarreit. Ætli raunin sé sú að alþjóðavæðingin, sem átti að vera lykillinn að friði milli landa, sé að hleypa lífi í nýjar óeirðir, milli borgaranna sjálfra? Ætli versnandi viðhorf og auknir fólksflutningar hingað til lands sé í raun timbur og steinn sem nuddast saman, og það þurfi aðeins einn neista til að hleypa óeirðunum af stað?

Eitthvað þarf að gera, við vitum öll að ekki er hægt að stöðva fólksflutningana, því við Íslendingar viljum hafa frelsi líkt og aðrir til að geta fluttst milli landa, kynnst nýrri menningu og nýjum þjóðum og vera boðin þar velkomin. Ég hef því miður ekki lausnina, en vonandi munu Íslendingar ekki enda, líkt og staðan er í mörgum evrópuríkjum, með rakað höfuðið, hrópandi slagorð sem síðast heyrðust í síðari heimstyrjöldinni. Við vitum betur, leitum að betri lausn á málefnum innflytjenda en að horfa sífellt til stefnumótunar og lagasetningar í löndunum í kringum okkur. Mótum okkar eigin stefnu, sem gæti hugsanlega gert öllum kleift að lifa í meiri sátt og samlyndi í þessu landi en stefnir í.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.