Lent á Títan

Þann 13. janúar síðastliðinn lenti geimfarið Huygens á stærsta tungli Satúrnusar, Títan. Erfitt er fyrir leikmanninn að átta sig á hversu merkilegar hinar og þessar geimferðir eru, enda af mörgu að taka. Það er þó óhætt að fullyrða að lendingin á Títan verður skráð á spjöld sögunnar sem einn af stærri viðburðunum í sögu geimferða.

Huygens svífur niður í gegnum lofthjúp Títan. Satúrnus í baksýn og móðurskipið Cassini hægra megin.

Þegar fjallað er um geimferðir er lykilatriði að láta áhugaverðar myndskreytingar fylgja með umfjölluninni. Þessar myndskreytingar, oft teiknaðar af listamönnum eða tölvuunnar, gefa mönnum góða hugmynd um hvernig vísindamenn telja vera umhorfs á þeim himintunglum sem eru til skoðunar. Myndin hér til hliðar er engin undantekning – hún er „byggð á sönnum atburðum“ eins og sagt er í Hollywood en er þó ekki sönn.

Slíkar myndir eru oft mjög raunverulegar að sjá og valda því að margir hafa á tilfinningunni að mannkynið sé með lítil ljósmyndastúdíó á þeytingi út um allt sólkerfið að eltast við reikistjörnurnar, rétt eins og paparazzi-ljósmyndar eltast við annars konar stjörnur.

Slíkar hugmyndir eiga þó ekki fyllilega við rök að styðjast því þau geimför sem farið hafa lengra en til næstu nágranna okkar (Mars og Venusar) eru sárafá, raunar svo fá að telja má þau á fingrum sér. Geimfarið Cassini-Huygens er aðeins fjórða geimfarið frá upphafi sem komið hefur í námunda við Satúrnus og aðeins eitt geimfar hefur farið lengra. Ekkert geimfar hefur nokkurntíma flogið framhjá Plútó, fjærstu reikistjörnunni, og allar myndir sem hafa birst af þeirri reikistjörnu eru hugarsmíð ein.

Mynd af Satúrnus sem Cassini tók þegar hann nálgaðist plánetuna. Tunglið Títan sést sem hvítur depill í fjarska, efst til vinstri á myndinni.

Svo það var vissulega mjög merkilegur viðburður þegar Cassini-Huygens kom til Satúrnusar og byrjaði að senda til baka myndir af reikistjörnunni og tunglum hennar. Eina þeirra má sjá hér til hliðar, og þetta er vel að merkja raunveruleg mynd. Eftir að geimfarið hafði komist á sporbaug skipti það sér í tvo hluta: Cassini er nokkurs konar móðurfar, það verður á sporbaug alla ferðina og sér um samskipti við stjórnstöð á jörðinni. Huygens var aftur á móti hannað til að lenda á stærsta tungli Satúrnusar, Títan.

Það voru því stórtíðindi þegar boð bárust til jarðarinnar um að Huygens væri lentur, heill á húfi. Ekkert geimfar hefur lent svo fjarri jörðinni, og það án nokkurra vandkvæða sem heitið geta. Að vísu virkuðu samskipti fyrir eitt tiltekið mælitæki ekki sem skyldi (eins og hefur komið fram hér á Deiglunni). Nú lítur þó út fyrir að gögnin hafi engu að síður skilað sér að mestu leyti og að hægt verði að vinna niðurstöður mælinganna þrátt fyrir allt.

En mun merkilegra en það sem fór úrskeiðis er það sem gekk upp. Af myndum og efnagreiningu frá Huygens má sjá að á Títan hafa verið ár og lækir, sem sorfið hafa jarðveginn. Vegna kuldans á Títan eru þó „vatnsföll“ allt annars eðlis en á jörðinni, því þau eru í rauninni „metanföll“. Vökvinn sem rignir úr skýjunum og flæðir um árnar og lækina er fljótandi metan, efni sem er á gasformi á jörðinni. Og „jarðvegurinn“ er í raun „vatnsvegur“, því yfirborð Títan er úr gaddfreðnu íshröngli.

Ekkert líf fannst á Títan í þessari ferð. Þótt enginn hafi sérstaklega búist við því að finna slíkt hefði það að sjálfsögðu verið ansi svalt. Engu að síður er óhætt að fullyrða að lendingin á Títan verður skráð á spjöld sögunnar sem einn af stærri viðburðunum í sögu geimferða.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)