Ég á vinkonu sem á Tarotspil. Stundum kíkir hún í heimsókn til mín, við opnum rauðvínsflösku, dimmum ljósin og setjum á rólega tónlist. Það eru sérstök kvöld þegar hún mætir með spilin. Þegar hún segir fallega glottandi „ég er með spilin“ verð ég oft bæði spennt og stressuð. Ég er sérstaklega pragmatísk manneskja og trúi fáu sem er ekki fyrir framan mig. Ég trúi ekki á neina guði eða að ég vinni í lottói eða að ég þurfi að passa mig sérstaklega á svörtum köttum. Svo hef aldrei farið í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. En þegar vinkona mín galdrakonan mætir með spilin þá verð ég spennt og stressuð . Eitthvað í mér trúir því að það sem hún muni segja mér þá kvöldstundina séu skilaboð sem mark sé takandi á.
Síðasta sumar þá lagði hún fyrir mig spil, þetta var fallegur sumardagur á Akureyri, Covid var í sumarfríi og við vorum nýkomnar úr sjósundi á Hjalteyri. Við sátum fyrir utan Te og kaffi og þar tjáði hún mér, með blik í augum, að við værum í fullkomnu ástandi til að leggja spil. Ég stokkaði spilin og vinkona mín tók andköf þegar þau voru lögð. Í miðjunni var djöfullinn og á vinstri hönd var King of Cups og á þá hægri Queen of Cups. Vinkona mín horfði á mig og sagði alvarleg: Þetta eru rosaleg spil Helga og sagði mér síðan hvað hún héldi að spilin væru að segja. Ég veit enn ekki hvað þessi spil þýddu í handbókinni um Tarot. Ég tók hins vegar spádómi vinkonu minnar bókstaflega. Þessi kaffibolli með tarotspilunum fyrir utan Te og Kaffi á Akureyri markaði þannig nýjan upphafspunkt á þessu annars ágæta lífi.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað felst í því að búa yfir spádómsgáfum. Kannski eru raunverulegir töfrar í þessum plastlagða prentaða pappír. Hins vegar held ég að í mörgum tilfellum séu einstaklingarnir á bakvið spilin einstakir. Þeir búa í mörgum tilfellum yfir þeim hæfileikum að geta lesið í karaktereinkenni einstaklinga, hreyfingar og svipbrigði auk þess að átta sig á því að lífið sé aðeins flóknara en slönguspilið. Við erum einnig misgóð í því að taka við ósíuðum skilaboðum frá slíku fólki um líf okkar. Það er sérstaklega aðkallandi að slíkt fólk geti skýlt sér og stutt sig við fallega spilastokka þegar það er sérstaklega aðkallandi að koma skilaboðum og áleiðis.
Ég er svo glöð að hún eigi þessi spil og nenni reglulega að leggja þau fyrir mig. Því í staðinn fær ég hjá henni svo góð ráð að mér finnst ég geta sigrað heiminn. Hún þakkar spilunum en ég þakka henni. Því hvað gerum við án ráða frá þeim djúpvitru.
- Galdrakonan og spilin - 5. mars 2021
- Bless (í bili?) - 20. janúar 2021
- Skötuboðið - 22. desember 2020