Litlir limir geta lengst

Þar sem ekkert er óviðkomandi dyggum lesendahópi tækni- og vísindapistla Deiglunnar er pistill dagsins tileinkaður mjög sérstökum framförum í skurðlæknisfræði. Er hér um að ræða meðferðarúrræði til handa tiltölulega litlum hópi manna, þ.e. þeirra sem flokkast undir að hafa micro-lim (micro-penis). Eða er þetta kannski ekki svo lítill hópur?

Í framþróun læknavísindanna kennir margra grasa sem endranær. Einhvern veginn hefur maður þó tilhneigingu til að höggva aðeins eftir þeim uppgötvunum og vísindasigrum sem annað hvort tengjast mjög algengum sjúkdómum eða því sem snertir manns nánasta umhverfi. Þar sem ekkert er óviðkomandi dyggum lesendahópi tækni- og vísindapistla Deiglunnar er pistill dagsins tileinkaður mjög sérstökum framförum í skurðlæknisfræði. Er hér um að ræða meðferðarúrræði til handa tiltölulega litlum hópi manna, þ.e. þeirra sem flokkast undir að hafa micro-lim (micro-penis).

,Micro-limur’ er skilgreining á óvenjulega stuttum limi, þ.e. þeim limum sem eru styttri en 7 cm í fullri reisn. Er þá miðað við að vísitölulimurinn sé ca. 12.5 cm við sömu kringumstæður. Talið er að u.þ.b. einn af hverjum 200 karlmönnum eigi við þetta vandamál að stríða, þá annað hvort af völdum fæðingargalla eða vegna krabbameinsmeðferðar. Ef við heimfærum þessar tölur á íslensku þjóðina má reikna með því að yfir 700 íslenskir karlmenn glími við þetta vandamál. Við nánari athugun er þetta því ekki svo lítill hópur sem verður fyrir miklum óþægindum, enda er af þessum mönnum haft að geta haft kynmök og þvaglát á eðlilegan hátt.

Í desembermánuði nýliðins árs var kynnt á læknaráðstefnu í London ný skurðaðgerð sem gefur þessum hópi von til þess að geta framkvæmt fyrrnefndar athafnir, sem að öðrum finnast eðlilega mjög sjálfsagðar og lífsnauðsynlegar. Skurðaðgerðin felur í megindráttum í sér að skinn af framhandlegg er fjarlægt og notað til endurbyggingarinnar, þ.e. lengingarinnar. Áður hafði þessi aðferð verið notuð til að byggja upp lim frá grunni, t.d. í kynskiptiaðgerðum. Í nýju aðferðinni er framhandleggsskinnið hinsvegar tengt við það litla sem fyrir er, en þó búið svo um hnútana að ekki sé aðeins verið að bæta við einhverjum massa, heldur einnig tryggt að kynnæmnin tapist ekki.

Í hópi þeirra sem tilraunaskurðaðgerðir voru gerðar á var t.d. að finna menn með fæðingargalla, einstaklinga með kynbundin einkenni beggja kynja (hermaphrodites) og menn sem gengist höfðu undir krabbameinsmeðferðir sem ungabörn. Var þá fjarlægður 12.5 cm strimill af framhandlegg og hann vafinn í nokkurs konar ,pylsu’, og í miðju hennar sett leiðsla eða rör. Þá var saumaður saman annar endinn en hinn þræddur upp á liminn. Til að varðveita kynnæmnina var reðurhúfan fjarlægð áður án þess þó að rjúfa æðar og taugar, og hún svo saumuð framan á áðurnefnda ,pylsu’. Einnig voru æðar og taugar úr grindarholi tengdar þar við. Til að tryggja fulla virkni þurfti einnig að koma fyrir sérstökum búnaði n.t.t sílíkonhólki, sem þá klæðir ,pylsuna’ að innan. Hólkurinn er síðan tengdur ,sílíkonbelg´ sem komið er fyrir í kviði. Þá er nóg að ýta á ,hnapp’ sem staðsettur er undir pungnum til að vökvi flæði fram og stuðli að stinningu.

Þetta hljómar allt frekar ótrúlega, og sumum virðist ef til vill mikið á sig lagt að gangast undir svona nokkuð. En ekki þarf að velta því lengi fyrir sér hvort skurðaðgerðin sé þess virði, því í ljós hefur komið að hún hefur gert mönnum með fyrrnefnt vandamál kleift að njóta kynlífs til fulls og hafa þvaglát standandi. Nokkuð sem þeir hafa í flestum tilfellum aldrei reynt áður. Nokkuð sem enginn, sem telur þessa hluti eðlilegan part af lífinu, vildi nokkurn tíma missa.

Heimildir:

New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.