„Ég bara get ekki sofnað“

Höllin í Vestmannaeyjum er samkomuhús sem byggt var í Eyjum fyrir nokkrum árum. Það er glæsilega staðsett með frábært útsýni yfir Heimaklett og stutt frá flugvellinum og niður í bæ. Öll aðstaða til skemmtana og ráðstefnuhalds er til fyrirmyndar og eftirbreytni. Síðan Höllin var opnuð hafa verið haldnar þar ráðstefnur og fundir, Idol áheyrnarpróf, diskótek og stórdansleikir.

Höllin í Vestmannaeyjum (C) Eyjafrettir.is

Höllin í Vestmannaeyjum er samkomuhús sem byggt var í Eyjum fyrir nokkrum árum. Það er glæsilega staðsett með frábært útsýni yfir Heimaklett og stutt frá flugvellinum og niður í bæ. Öll aðstaða til skemmtana og ráðstefnuhalds er til fyrirmyndar og eftirbreytni. Síðan Höllin var opnuð hafa verið haldnar þar ráðstefnur og fundir, Idol áheyrnarpróf, diskótek og stórdansleikir.

Í húsinu er einnig til húsa matvinnslufyrirtæki Gríms Gíslasonar sem framleitt hefur ljúffengar fiskbollur fyrir landann og þeir eru væntanlega sárafáir, ef einhverjir, lesendur Deiglunnar sem ekki hafa sporðrennt eins og þremur bollum yfir Kastljósinu. En það er annað mál.

Nú ætlar Heilbrigðiseftirlitið að setja Höllinni stólinn fyrir dyrnar. Höllin má hér eftir ekki vera með dansleiki eftir eitt á nóttunni. Og vegna þessa sér það hver heilvita maður að lítið verður úr dansleikjahaldi í Höllinni ef þetta verður raunin. En afhverju vill Heilbrigðiseftirlitið loka Höllinni á nóttunni?

Þeir segja að vegna hávaðamengunar geti þeir ekki leyft dansleiki eftir eitt á nóttunni því Höllin er nefninlega staðsett í nágrenni við íbúðarhús. Íbúar sumra þessara húsa hafa kvartað, frá opnun Hallarinnar, yfir hávaða sem berst í hús þeirra. Nágrannarnir hafa reyndar einnig kvartað yfir lyktinni sem berst frá fiskibolluframleiðslu Gríms kokks. (Ég myndi nú bara þakka fyrir að hafa fiskibollulyktina í mínu húsi en þar finn ég bara loðnubræðslulyktina) Og nú er þessum fáu nágrönnum loks að verða eitthvað ágengt.

Aðstandendur Hallarinnar hafa reynt allt sem í þeirra valdi stendur til að hljóðeinangra húsið. Þeir hafa sett upp hljóðdempara og einhverja hljóðvaka en allt kemur fyrir ekki, það er bara allt of mikill hávaði (skv. Heilbrigðiseftirliti Suðurlands). Og aðstandendur hússins eru ekki sáttir við þessa ákvörðun. Þeir segjast vera með bókaða dansleiki fram á haust og lítið verði úr þeim, breyti HE ekki ákvörðun sinni.

En nú heyrast einnig aðrar raddir í bænum um málið og mikið hefur verið ritað og rætt á vefmiðla Eyjamanna, eyjafrettir.is og eyjar.net. Þar hafa skipst á skoðunum, nágrannar Hallarinnar og þeir sem vilja halda vinnustaðnum gangandi því hann sjái jú nokkrum tugum starfsmanna fyrir atvinnu, ýmist fullri eða hluta.

Það verður spennandi að sjá hvor sjónarmiðin víki. Hvort eigendum Hallarinnar verði gert að fara að lögum og minnka hávaða frá dansleikjum sínum, ella loka kl. eitt. Eða hvort sjónarmið um atvinnu tuga Eyjamanna ráði og þeir haldi vinnunni en nágrannarnir fúlu verði að sofna undir ljúfum tónum Sálarinnar: “

Hvar er draumurinn?

Hvar ertu lífið sem ég þrái?

Oh, oh eilífðin,

—hvar eru gleði mín og sorg?

Hvar er draumurinn?

Heimildir: eyjafrettir.is – annall.is/olafur

Latest posts by Jón Helgi Erlendsson (see all)