Aðeins um nýjustu geisladiskana

Við notum geisladiska á hverjum degi. Setjumst upp í bílinn á morgnana og skellum Kanye West í spilarann, förum í vinnuna og installerum forriti af geisladiski inn á tölvuna. Skrifum svo gögn á skrifanlegan geisladisk til þess að geta unnið heima. Svo kíkjum við út á leigu og náum okkur í DVD disk til að horfa á áður en við sofnum. Til hvers þurfum við Blu-ray eða HD DVD diska. Við höfum það svo gott með CD og DVD.

Blu-ray diskur

19. nóvember 2003 var ákveðið á fundi DVD ráðsins (e. DVD Forum) að HD DVD diskurinn ætti að taka við af DVD disknum sem aðal staðall í geymslu bíómynda. Ástæða þess að uppfæra þarf DVD diskinn er sú að nú er að riðja sér til rúms sk. háupplausnar staðall í sjónvarpi (e. High Definition TV) og miðast hann við 1920×1080 punkta. Til samanburðar er algeng upplausn á tölvuskjám 1024×768 punktar. Til þess að koma bíómyndum í svo hárri upplausn fyrir á geisladiski þarf hann að geta geymt gífurlegt magn af gögnum en það gerir HD DVD diskurinn einmitt. U.þ.b. 4 klst. af efni í þessari háupplausn taka um 25 gb af geymsluplássi.

Allir geisladiskar virka í grófum dráttum þannig að geisla er beint að disknum til þess að skrifa og lesa af honum. Venjulegir CD og DVD diskar nota rauðan og innrauðan geisla til þessa en Blu-ray notar, eins og nafnið gefur til kynna, bláfjólubláan geisla eins og reyndar HD DVD. Þessi blái geisli er með styttri bylgjulengd en sá rauði sem gerir það að verkum að hægt er að skrifa á þá með mun meiri nákvæmni og þannig gera holurnar sem geislinn skrifar á diskinn mun þéttari. Það gerir það að verkum að fleiri holur rúmast á sama flatarmáli og þ.a.l. meiri gögn. Þessar holur eru svo settar á lög í disknum en diskarnir eru oft gerðir úr fleiri en einu lagi.

Þannig getur HD DVD geymt 15 gb af gögnum á einu lagi, 30 gb á tveimur og jafnvel 45 gb á þriggja laga diskum, sem reyndar eru enn í þróun. Blu-ray diskurinn getur hins vegar geymt allt að 27 gb á eins laga diski og 54 gb á tveggja laga diski. TDK hefur frumsýnt fjögurra laga Blu-ray disk sem geymt getur 100 gb en enn sem komið er eru diskar með fleiri en 2 lögum ekki komnir á markað. Ástæða þess að Blu-ray diskurinn getur geymt meira magn en HD DVD á einu lagi er sú að blái geislinn sem notaður er fyrir Blu-ray er nákvæmari en HD DVD geislinn og getur þ.a.l. skrifað gögnin enn þéttar en HD DVD. Hann verður fyrir vikið dýrari í framleiðslu og skiptar skoðanir eru um það hvort eigi að vera ofan á þegar ákvörðun er tekin um notkun á þessum stöðlum, gagnamagn eða framleiðslukostnaður.

Diskurinn, sem á svo að taka við af þeim fyrrgreindra diska sem nær að verða staðall, er í þróun núna og heitir heilmyndardiskur (e. holographic versatile disk) eða HVD. Hann notast við tvo laser geisla sem lesa af disknum á sama tíma, bara af mismunandi lögum á honum. Annar er rauður og hinn blágrænn og fara þeir þannig mismunandi djúpt í lög disksins. Þessir HVD diskar eiga að taka allt að 3900 gb og vera með gagnaflutningsgetu upp á 1 Gbit/s. Til gamans má geta þess að texti allra bóka í einu stærsta bókasafni í heimi, Bókasafni Bandaríkjaþings, gæti komist fyrir á u.þ.b. 6 svona diskum. Gagnahraðinn á þessum diskum er einnig mikill og til þess að gera sér grein fyrir því hve mikill hann er þá tekur það 4.7 sek. að færa 600 mb skjal af disknum.

Heimildir: Wikipedia.com

Latest posts by Jón Helgi Erlendsson (see all)