Töfraeplið

Allir þekkja fyrirtækið Apple og þær glæsilegu vörur sem það framleiðir. Um tíma virtist Apple fara út tísku en er nú á óstöðvandi siglingu.

Árið 1984 birtist fyrsta tölvan frá Apple með vingjarnlegu gluggakerfi eins og við þekkjum í dag. Þetta markaði tímamót í tölvuheiminum og síðan þá hefur Apple jafnan verið fremst í flokki varðandi frábæran vélbúnað og hugbúnað. Það kann þó að vera að mörgum líki Windows umhverfið betur og vissulega er það margfalt útbreiddara en Apple. Flestir eru þó líklega sammála um að það sem frá Apple kemur sé almennt betra, en á endanum er þetta auðvitað spurning um smekk.

Einn aðal hugsuðurinn á bakvið Apple, sérstaklega þekktar vörur þess á borð við iMac og iPod, er annar stofnenda þess, Steve Jobs. Árið 1976 ákváðu þeir Steve Wozniak að stofna Apple og gáfu út tölvuna Apple I. Samstarf þeirra var farsælt allt til ársins 1985 þegar Wozniak ákvað að snúa aftur í háskóla og Jobs neyddist til þess að hætta vegna deilna við John Scully, sem varð síðar forstjóri fyrirtækisins.

Jobs sneri þó aftur til Apple árið 1996 og segja má að þá hafi fyrirtækið vaknað til lífsins á ný. Apple hóf þá að gefa út nýjar og spennandi vörur sem flestar má rekja beint til snilli Steve Jobs. Fyrst kom iMac árið 1998 og var algjör bylting. Hið hefðbundna snúruflóð sem fylgir borðtölvum hafði verið minnkað til muna og allt einfaldað. Í kjölfarið fylgdu svo nýjar útgáfur af iMac og sá nýjasti notar Bluetooth staðalinn til þess að tengjast lyklaborði og mús og öll tölvan er innbyggð í skjáinn. Sömuleiðis komu glænýjar tölvur á borð við ofurtölvuna G5, sem og nýjar útgáfur af iBook og PowerBook.

Til þess að koma til móts við aukna eftirspurn tók Apple upp á því að opna verslanir til þess að selja eingöngu eigin vörur. Fyrsta verslunin opnaði árið 2001 í Palo Alto í Kaliforníu og eru þær nú orðnar níu talsins. Þetta eru afar glæsilegar verslanir enda selja þær eingöngu glæsilegar vörur.

En eitt af því besta sem Apple hefur gert undanfarin ár er þó tvímælalaust iPod, sem hefur selst í gríðarlegu magni um allan heim. Þessi tónlistarspilari er sá vinsælasti í dag og er nánast enginn maður með mönnum án þess að eiga slíkt tæki. Í gær kom svo nýjasti útgáfa spilarans, iPod shuffle. Hann er á stærð við tyggjópakka, geymir 240 lög og kostar aðeins 99 dali.

Velgengni Apple undanfarin ár hefur ekki bara skilað heiminum fallegum tölvum heldur hafa fjárfestar líkið fengið sinn skerf. Undanfarið ár hafa hlutabréf í Apple hækkað um 180% og virði félagsins er nú um 25 milljarðar dala. Á sama tíma hafa bréf í flestum öðrum tæknifyrirtækjum staðið í stað eða hækkað rólega (nema reyndar Google).

Þrátt fyrir að höfundur hafi lengi verið frekar hlynntur Windows hefur afstaðan nokkuð breyst og ákveðið hefur verið að næst verið fjárfest í tölvu frá Apple. Vonandi heldur því Apple áfram að vaxa dafna og um ókomin ár.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)