Tækniárið 2004

Í síðustu viku var hér á Deiglunni fjallað um helstu afrekin á sviði vísindanna á síðasta ári. Eins er áhugavert að velta fyrir sér helstu afrekum á sviði tækninnar. Ekki verður annað sagt en að eitt tækniafrek hafi yfirskyggt öll önnur á liðnu ári, nefnilega flug fyrstu einkareknu geimferjunnar.

Geimflaugin SpaceShipOne á leið inn til lendingar, stjörnum prýdd að hætti Bandaríkjamanna

Í síðustu viku var hér á Deiglunni fjallað um helstu afrekin á sviði vísindanna á síðasta ári. Eins er áhugavert að velta fyrir sér helstu afrekum á sviði tækninnar. Ekki verður annað sagt en að eitt tækniafrek hafi yfirskyggt öll önnur á liðnu ári, nefnilega flug fyrstu einkareknu geimferjunnar.

Það var þann 21. júní 2004 sem Mike Melvill flaug geimflauginni SpaceShipOne í fyrsta skipti út fyrir lofthjúp jarðar, sem almennt er talað um að nái upp í 100 km hæð. Markmiðið með smíði þessarar geimflaugar var að vinna hin svokölluðu Ansari X verðlaun. Verðlaununum, tíu milljónum Bandaríkjadala, var heitið hverjum þeim sem gæti flogið út fyrir lofthjúp jarðar, tvisvar sinnum með minna en tveggja vikna millibili, í geimfari sem gæti tekið flugmann og tvo farþega.

Eftir fyrsta flugið voru gerðar minni háttar betrumbætur á geimflauginni og verðlaunaflugin tvö voru svo farin 29. september og 4. október. Farþegar hafa reyndar ekki farið í þær þrjár ferðir sem SpaceShipOne hefur farið í hingað til, heldur hafa farþegasætin verið fyllt af myndavélum og öðrum varningi. Það breytir ekki því með smíðinni hefur sannast að einkaaðilar, ekki bara ríkisstjórnir, geta smíðað geimför.

Enn merkilegra er þó að í framhaldinu hefur Richard Branson og fyrirtæki í hans eigu, Virgin Galactic, gert samning við hönnuði SpaceShipOne um að nota tæknina til að bjóða almenningi upp á skemmri geimferðir. Áætlað er að fyrsta geimferðin með borgandi farþega verði farin innan þriggja ára og kosti um 200.000 Bandaríkjadali, eða ekki nema rétt rúmar tólf milljónir króna á núverandi gengi.

Af öðrum merkilegum atburðum ársins ber helst að nefna aðra keppni, sem haldin var af rannsóknarþjónustu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, DARPA. Þessi keppni, DARPA Grand Challenge, er tilraun stofnunarinnar til að virkja einkaframtakið í þágu vélmennasmíðar. Verðlaunin í þessari keppni eru nokkru lægri en Ansari X verðlaunin, eða ein milljón Bandaríkjadala. Þau eru veitt þeim sem getur smíðað alsjálfvirkt vélmenni sem getur komist yfir náttúrulega þrautabraut í Nevada eyðimörkinni. Brautin var yfir 200 km löng og því miður komst enginn þáttakenda alla leið. Keppnin staðfesti hversu erfitt náttúrulegt umhverfi er fyrir vélmenni, mun erfiðara en flestar manngerðar þrautabrautir, en engu að síður stuðlaði keppnin að talsverðri framþróun á sviði vélmennatækni.

Aðrar tækninýjungar voru helst á sviði neytendatækni. Flatir skjáir, svo sem LCD skjáir og plasma skjáir, eru sífellt að verða ódýrari og á árinu var smíðað íslenskt nýyrði yfir sjónvarpstæki af þeirri gerð: Veggsjónvörp. Merkilegra er þó að á síðari hluta ársins fór sala á LCD skjám í fyrsta skipti upp fyrir sölu á hefðbundnum skjám (CRT skjám).

Myndgæði í þessum nýju skjám eru líka sífellt að batna og upplausnin í slíkum skjám er orðin mun meiri en í hefðbundum sjónvarpstækjum. Aukin myndgæði kalla á betri afspilunartækni og á liðnu ári börðust tvær fylkingar hatrammri baráttu um arftaka DVD tækninnar. Sony er helsti kyndilberi svokallaðrar Blu-Ray tækni, en samkeppnisaðilar styðja margir svokallaða HD-DVD tækni. Útlit er fyrir að á árinu 2005 verði baráttan milli þessara tveggja fylkinga enn harðari og líkja margir þessum slag við ágreininginn um VHS og BetaMax staðlana á síðustu öld.

Ekki er hægt að enda tæknisamantekt liðins árs öðru vísi en að minnast stuttlega á stafrænar myndavélar. Slíkar myndavélar verða sífellt ódýrari og þægilegri í notkun. Aukið framboð á stafrænni framköllun gerir líka hinum almenna neytanda auðveldara að taka í notkun slíkar vélar. Enda eykst salan stöðugt og á síðustu mánuðum ársins 2004 fór sala á slíkum vélum fram úr sölu á filmumyndavélum á heimsvísu.

Margt er framundan á árinu 2005, svo sem á sviði þráðlausra netkerfa, sjálfvirkni og örtækni. Það verður því spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)