Nafnleynd egg- og sæðisgjafa

Í gjafafári jólanna hefur umræðan um eggjagjafir undanfarna daga borið aðra gjafaumræðu ofurliði. Siðferðislegar spurningar um bein viðskipti með slíkar frumur hafa verið í kastljósinu. En hvað um nafnleyndir slíkra gjafa. Eiga þeir einstaklingar sem fæðast í þennan heim með hjálp tæknifrjóvgana ekki að eiga skýlausan rétt á að þekkja uppruna sinn?

Nafnleynd eggja- og sæðisgjafa

Í gjafafári jólanna hefur umræðan um eggjagjafir undanfarna daga borið aðra gjafaumræðu ofurliði. Í kjölfar fréttar um að tæknifrjóvgunarstofan ART Medica óskaði eftir eggjum frá konum gegn greiðslu hafa miklar umræður sprottið um réttmæti slíkra viðskipta.

Hins vegar staðfhæfa forsvarsmenn ART Medica að sú greiðsla sem stofan muni aðeins hafa milligöngu um sé til þess fallin að greiða þann kostnað sem fallið getur til á því tímabili sem að egggjafinn er í meðferð. Er þá átt við vinnutap, ferðakostnað og ámáta. Er þetta fyrirkomulag nokkuð sem er þekkt erlendis frá.

Alls eru um 300 tæknifrjóvgunarmeðferðir gerðar hérlendis árlega, og af þeim fjölda er metið að það séu um 30-40 pör á ári sem bíði eftir gjafaeggi til að eygja von til þess að slík meðferð geti heppnast. Í þessum tilfellum hefur parið ekki átt möguleika á því að leita ásjár ættingja eða vina, en töluvert algengt er að vinkona, móðir eða systir gefi ófrjórri konu egg. Að sjálfsögðu getur dæmið verið á hinn veginn, og þá þörf á gjafasæði sem hefur reynst auðveldara að útvega.

Öllum slíkum gjöfum, egg og sæðisgjöfum, hefur fylgt mikil siðferðisumræða. M.a. vegna hreinna og beinna viðskipta með þessar frumur, sem í sumum tilfellum eru meira að segja skilyrt m.t.t. til vænlegra gena, hvað varðar útlit og gáfur. Erlendis hafa birst auglýsingar í skólablöðum háskóla þar sem boðin er væn fúlga fjár fyrir egg heilbrigðrar stúlku, sem þarf þó að auki að vera yfir 170 cm að hæð og hafa skorað ákveðið hátt á stöðluðu inntökuprófi í skóla.

Annar vinkill þessarar umræðu lítur að nafnleynd þess sem gefur. Þetta þykir undirritaðri vera atriði sem mætti gefa mun meiri gaum, nú þegar siðferðislegar pælingar um tæknifrjóvganir liggja heitar á borðum landsmanna. ART Medica starfar í þessu tilliti í samræmi við íslenska löggjöf, en hér á landi ráða sæðis- og eggjagjafar hvort þeir óski nafnleyndar eður ei.

Erlendis frá hafa borist fregnir af óánægjuröddum vegna nafnleyndar sæðisgjafa, og siðferðislegt réttmæti hennar dregið í efa. Í danskri rannsókn hefur verið sýnt fram á að sé möguleikinn á nafnleynd brottnuminn þá hverfi sæðisgjafarnir vitanlega, þar sem að þeir gefi að jafnaði sæði í vissu um að afkvæmi þeirra komi aldrei til með að banka á dyrnar hjá þeim. Þessi staðreynd hefur verið lögð fram af þeim sem á móti mæla, máli sínu til stuðnings.

Undirrituð er mjög sterkt þeirrar skoðunar að það ætti hreinlega að vera í lög leitt, að skylda þá sem gefa egg eða sæði til að gera það undir nafni. Þrátt fyrir að geta vart verið jákvæðari í garð hvers kyns tæknifrjóvgunarmeðferða, er engu að síður beinlínis rangt að einstaklingurinn sem síðan fæðist inn í þennan heim, eigi þess ekki kost að þekkja réttan uppruna sinn. Í slíkum tilvikum ætti jafnframt að skylda foreldra til þess að vera fyrir ákveðinn aldur þeirra, búin að upplýsa börn sín um tilurð þeirra og að þeim sé þannig gefinn kostur á því að kanna uppruna sinn ef sú þörf er til staðar.

Hver manneskja ber ábyrgð á sjálfri sér og gjörðum sínum. Af hverju ætti hún ekki að bera ábyrgð á erfðaefni sínu, sem hún leggur af mörkum til þess eins að búa til nýjan einstakling?

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.