Óvænt klókindi Össurar

Össur Skarphéðinsson er snjall stjórnmálamaður, eflaust mun snjallari en margur hyggur. Þótt beiðni hans um utandagskrárumræður um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga, sem fram eiga að fara á Alþingi í dag, láti ekki mikið yfir sér, þá er hér um að ræða afar klókan leik af hálfu Össurar.

Össur Skarphéðinsson er sannkallaður úlfur í sauðagæru þegar pólitík er annars vegar.

Össur Skarphéðinsson er snjall stjórnmálamaður, eflaust mun snjallari en margur hyggur. Þótt beiðni hans um utandagskrárumræður um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga, sem fram eiga að fara á Alþingi í dag, láti ekki mikið yfir sér, þá er hér um að ræða afar klókan leik af hálfu Össurar.

Yfirskin Össurar með umræðunni er að fá svör hjá félagsmálaráðherra um hvort ríkisstjórnin hyggist færa sveitarfélögunum meira fjármagn, eða með öðrum orðum hvort ríkið vilji ekki hækka útsvar sveitarfélaganna sem nemur skattalækkun ríkisins. Árni Magnússon verður til svara en það skiptir engu máli. Fyrir Össuri vakir annað og meira en að fá fram svör félagsmálaráðherra.

Össur er vitaskuld með þessu að fá fram umræðu um útsvarshækkun R-listans í Reykjavík, sem þýðir það að kjarabót Reykvíkinga af skattalækkun ríkisstjórnarinnar verður minni en annarra Íslendinga. Og af hverju er Össur að vekja athygli á útsvarshækkun R-listans?

Innan skamms mun Össur eiga í höggi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi borgarstjóra, um formannsembættið í Samfylkingunni. Það er Össuri eðlilega mikið kappsmál að umræða skapist um útsvarshækkun R-listans vegna þess að sú umræða mun beina athygli manna að fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og fjármálastjórnun borgarinnar undir stjórn R-listans.

Össur veit sem er að álagt útsvar Reykjavíkurborgar hefur vaxið um ríflega 70 prósent á síðustu fimm árum, eða úr 15 milljörðum króna í 26 milljarða. Ólíkt því sem margir halda þá veit Össur ýmislegt um fjármál. Hann veit og skilur að ömurleg fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar nú stafar ekki af of litlum tekjum, því þær hafa vaxið langt umfram þau verkefni sem borgin hefur tekið á sig. Össur veit að um er að kenna óstjórn R-listans á fjármálum Reykvíkinga. Milljarðar hafa gufað upp í misheppnuðu gróðabralli R-lista manna, yfirstjórnin hefur þanist út og kerfiskostnaðurinn margfaldast.

Nái Össur að beina athygli fjölmiðla og almennings í landinu að fjármálaóstjórn R-listans, mun honum takast að varpa skugga á borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar, sem var borgarstjóri þar til snemma árs í fyrra. Össur Skarphéðinsson er því ekki allur þar sem hann er séður. Undir yfirborðinu býr kænn og klókur stjórnmálamaður sem stefnir ákveðið að því að sigra svilkonu sína í formannskjöri í Samfylkingunni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.