Lán í erlendri mynt II

Er skynsamlegt að taka lán í erlendri mynt? Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim gríðarmiklu sveiflum sem eiga sér stað í gengi gjaldmiðla. Einungis þeir sem hafa taugar til þess að bíða af sér slíkar sveiflur geta vænst þess að hagnast á því að skulda í erlendri mynt.

Eins og ég fjallaði um í pistli mínum síðastliðinn mánudag eru nokkur atriði sem læra má af reynslu síðustu 10 ára varðandi það hvort skynsamlegt sé fyrir einstaklinga að taka lán í erlendri mynt: 1) Þegar til lengri tíma er litið eru miklar líkur á því að það sé hagstæðara að skulda í erlendri mynt. 2) Lánum í erlendri mynt fylgir talsverð áhætta, sérstaklega til skemmri tíma. 3) Stórar gengissveiflur eiga það til að ganga til baka.

Þeir sem eru að velta fyrir sér að taka lán í erlendri mynt standa því frammi fyrir þeim klassíska vanda að hærri ávöxtun og aukin áhætta haldast í hendur. En það er ýmislegt sem er sérstakt við gengi gjaldmiðla sem mikilvægt er að fólk hafi í huga þegar það tekur ákvörðun um það hvort það eigi að taka lán í íslenskum krónum eða erlendri mynt.

Í fyrsta lagi er mikilvægt fyrir þá sem ætla að taka lán í erlendri mynt að gera sér grein fyrir því að gengi gjaldmiðla sveiflast ótrúlega mikið. Gengi krónunnar lækkaði um 40% á árinum 2000 og 2001. Það hefur síðan hækkað um rúm 20%. Þetta þýðir að höfuðstóll og afborganir þeirra sem skulduðu í erlendri mynt á þessum tíma hækkuðu fyrst um 40% og lækkuðu síðan aftur um 20%. Sveiflur af þessari stærðargráðu eru alls ekki óalgengar þegar litið er til annarra gjaldmiðla. Þeir sem taka lán í erlendri mynt mega því allt eins eiga von á sveiflum af þessari stærðargráðu yfir nokkurra ára skeið.

Ef krónan lækkar verulega eitthvert árið munu afborganir af erlendum lánum hækka verulega. Það sem meira er þá mun höfuðstóllinn einnig hækka hlutfallslega sem nemur lækkun krónunnar. Sú staða getur því auðveldlega komið upp að afborganir af erlenda láninu séu á einhverju árabili talsvert hærri en afborganir af jafnstóru láni í íslenskum krónum sem tekið var á sama tíma. Og þar sem höfuðstóll erlenda lánsins hefur þá hækkað verulega mun erlenda lánið líta alveg sérstaklega illa út.

Það er hætt við því að þeir sem taki erlend lán hugleiði helst að breyta lánum sínum aftur yfir í íslenskar krónur þegar þegar svo stendur á. En þetta er einmitt versti tími til þess að færa sig aftur yfir í lán í íslenskum krónum þar sem þetta er sá tími þegar mestar líkur eru á því að krónan hækki.

Þeir sem ætla sér að taka lán í erlendri mynt þurfa að vera vissir um að þeir hafi taugar, þolinmæði og fjárhagslegt svigrúm til þess að sigla rólega í gegnum tímabil þegar krónan tekur dýfu. Ef þeir missa kjarkinn og breyta skuldum sínum yfir í krónur þegar krónan hefur lækkað mikið er hætt við því að þeir tapi stórum fjárhæðum á því að fara út í erlendar lántökur. Ef þeir hins vegar bíða rólegir geta þeir átt von á því að lækkunin gangi að stórum hluta til baka og að á endanum hagnist þeir á því að skulda í erlendri mynt.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.