Af hverju öryggisráðið?

Hvers vegna sækist íslenska ríkið eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Er það vegna ástar íslenskra ráðamanna á velferð mannkyns eða vegna einhvers annars?

Hvers vegna sækist íslenska ríkið eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Er það vegna ástar íslenskra ráðamanna á velferð mannkyns eða vegna einhvers annars?

Um daginn hélt Hjálmar W. Hannesson sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum ræðu á allsherjarþinginu þar sem hann upplýsti um framlag Íslands í þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna á sviði hafréttar. Umrætt framlag íslenska ríkisins er væntanlega liður í að auka þróunarhjálp íslendinga svo að Ísland nálgist takmark Sameinuðu þjóðanna um að ríki heims láti af hendi rakna 0,7% af þjóðartekjum til þróunaraðstoðar.

Auðséð er að aukin framlög Íslands til þróunaraðstoðar snúast fyrst og fremst um að láta íslenska ríkið líta betur út í augum umheimsins, þó aðallega þriðja heimsins, í þeirri viðleitni ráðamanna að tryggja nógu mörg atkvæði til að bera sigur af hólmi í kosningum til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kjörtímabilið 2009–2010.

En til hvers vill Ísland í öryggisráðið? Ráðamenn hafa lýst því yfir að nauðsynlegt sé að Ísland axli ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Vissulega er það af hinu jákvæða að vilja axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og láta gott af sér leiða. En af hverju að axla þá ábyrgð í ráði sem hefur öryggismál á sinni könnu og af hverju núna?

Mín kenning er sú að til að átta sig á því er ekki hægt að líta einangrað á framboðið. Líta verður til þess sem hefur verið að gerast í varnarmálum Íslands undanfarin ár. Hvert einasta mannsbarn veit að bandaríski herinn hefur minnkað umsvif sín hérlendis og vill minnka þau enn meir. Eitt frumlegasta útspil íslendinga til að sporna við þeirri þróun eða mæta henni er að bjóða sig fram til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Með því að bjóða sig fram hafa íslendingar eitthvað bitastætt til að bjóða Bandaríkjunum, þ.e. atkvæði sitt hjá öryggisráðinu, gegn áframhaldandi veru bandaríska hersins hérlendis í einhvern tíma. Íslenskum ráðamönnum hlýtur hins vegar að vera ljóst að það er engin endanleg lausn. Ef Ísland kemst í öryggisráðið þá fá íslenskir embættismenn dýrmæta þjálfun í varnar- og öryggismálapólitík sem getur nýst þeim þegar íslenska ríkið byrjar að taka aukin þátt í vörnum landsins eða jafnvel stýra þeim alfarið.

Gallinn á þessari kenningu er sá að það eru Alþingiskosningar árið 2007. Afleiðing þeirra getur verið að núverandi valdhafar missi völd sín og ný ríkisstjórn mynduð með aðra áherslu í varnar- og öryggismálum. Annar galli á kenningunni er að Ísland gæti tapað kosningunni til öryggisráðsins.

Kenningunni til stuðnings má hins vegar benda á að ýmislegt hefur verið á seyði á undanförnum árum í öryggismálum íslendinga, t.d. hafa framlög til sérsveitar ríkislögreglustjóra verið stóraukin, íslendingar hafa eins og frægt er tekið þátt í friðargæslu og hugsanlegt er að íslensk leyniþjónusta komist á laggirnar.

Vel má vera að ég sé úti að aka með þessari kenningu minni og sé orðinn tæpur á geði í svartasta skammdeginu, hvað sem andlegri heilsu minni í skammdeginu líður þá er eitthvað einkennilegt við þetta framboð.