Betri skóla

Nú þegar verkfall grunnskólanema er afstaðið þarf fólk að líta til baka og velta fyrir sér stöðu grunnskóla á Íslandi, en ljóst er að taka þarf málefni þeirra til gagngerrar endurskoðunar. Auka þarf einkarekstur í grunnskólakerfinu og þannig draga úr miðstýringu.

Nú þegar verkfall grunnskólanema er afstaðið þarf fólk að líta til baka og velta fyrir sér stöðu grunnskóla á Íslandi, en ljóst er að taka þarf málefni þeirra til gagngerrar endurskoðunar. Eins og bent var á í ritstjórnarpistli hér á Deiglunni í gær þá hefur núverandi kerfi alið af sér mjög óheppilegt andrúmsloft í grunnskólakerfinu. Í flestum rekstri hafa atvinnurekendur og launþegar beinan hag af því að sinna grunnskyldum sínum með sem bestum hætti.

Helsta vandamál íslensku grunnskólanna er hin gríðarlega miðstýring sem kennaraforystan ber töluverða sök á,en þar hefur hræðsla við nýjungar þvælst fyrir fólki. Óvenjulega lágt hlutfall íslenskra barna stundar nám í einkaskóla. Í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er meðaltalið um 10% en hér á landi ganga um 0,8% barna í einkaskóla og þeim fer fækkandi Þetta er ákveðin öfugþróun miðað við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar en þar hefur valfrelsi og fjölbreytni í rekstrarformi grunnskóla haft jákvæð áhrif á skólakerfið í heild sinni

Undirritaður hefur nokkrum sinnum bent á það í pistlum hér á Deiglunni hversu góð lausn einkarekstur við hlið ríkisrekstrar væri til þess að leysa að hluta til vanda heilbrigðiskerfisins. Auðvitað gilda sömu lögmál um menntakerfið, hina meginstoð samfélagsþjónustunar, og hefur lítillega örlað á því á öllum skólaþrepum.

Með fjölbreyttara rekstrarformi í grunnskólum, þar sem bæði einkaaðilar og hið opinbera koma að skólamálum, þá eykst valfrelsi foreldra sem getur einnig leitt til þess að nám verði einstaklingsmiðaðra. Reynslan frá nágrannalöndum okkar sýnir að það er langt frá því að vera eitthvert náttúrulögmál að eingöngu hið opinbera sjái um að veita þessa þjónustu. En það er óskandi að þeir sem stjórna sveitarfélögum veiti þessari fjölbreytni tækifæri, en allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað nú um myndir. Skýrt er tekið fram í grunnskólalögum að einkaskólar eigi ekki kröfu til styrks af almannafé og er því sveitarfélögunum alveg í sjálfsvald sett með hvaða hætti þau hyggjast styrkja eða styrkja ekki starfsemi einkaskóla.

Foreldrar þeirra barna sem ganga í einkareknaskóla í Reykjavík hljóta að spyrja hvers vegna Reykjavíkurborg greiði aðeins um 300 þúsund krónur til menntunar barna þeirra, en 500-640 þúsund með hverjum nemanda í sambærilegum skólum sem borgin rekur sjálf. Öllum börnum er tryggt fjárframlag til grunnskólanáms með stjórnarskrá og lögum og hafa þessir foreldrar borgað útsvarið sitt eins og foreldrar barna í skólum borgarinnar.

Þess vegna hefur hin gamalgróni skóli Ísaks Jónssonar hefur átt við fjárhagsvandræði að stríða undanfarinn ár og er það ekki furða þegar á það er horft að fjárframlög hins opinbera með hverjum nemanda eru u.þ.b. helmingi lægri en til annara skóla. Aftur á móti sýnir það styrk Ísaksskóla, og þar með einkarekstrarins, að hann er enn starfandi.

Það er ekki verið að tala um að gera einkareknum skólum hærra undir höfði. Það þarf einfaldlega að láta þau börn sem sækja þá skóla standa jafnfætis gagnvart hinu opinbera varðandi fjárframlög. Réttarstaðan þarf að vera sú sama og það má ekki verða háð pólitískum duttlungum hverju sinni hvort einkareknir skólar hafi möguleika til að lifa af.

Kennarforystan og margir stjórnmálamenn þurfa að láta af forpokaðri afstöðu sinni gagnvart nýungum og fjölbreytni þar sem miðstýring er að drepa niður íslenskt skólastarf. Margir metnaðarfullir kennarar sjá þau tækifæri sem felast í þessari hugsun og eru tilbúnir að láta á þetta reyna, enda sýna atburðir síðustu misseri að uppstokkun skólakerfisins er algjörlega nauðsynleg. Við þurfum betri skóla.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.