Löngu tímabær lög

Halldór Ásgrímsson hafði hárrétt fyrir sér þegar hann sagði í framsöguræðu sinni að frumvarpi ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin gæti ekki lengur „setið aðgerðarlaus á meðan 45 þúsund skólabörn fá ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber” og að „ríkir almannahagsmunir standi til þess að starf í grunnskólum landsins geti hafist að nýju svo fljótt sem auðið er.”

Það var orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin setti lög til þess að binda enda á verkfall grunnskólakennara. Halldór Ásgrímsson hafði hárrétt fyrir sér þegar hann sagði í framsöguræðu sinni að frumvarpi ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin gæti ekki lengur „setið aðgerðarlaus á meðan 45 þúsund skólabörn fá ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber” og að „ríkir almannahagsmunir standi til þess að starf í grunnskólum landsins geti hafist að nýju svo fljótt sem auðið er.”

Í þeim deilum sem þjóðin hefur orðið vitni að á síðustu mánuðum hefur þó einnig orðið ljóst að það eru ekki síður ríkir almannahagsmunir fyrir því að taka málefni grunnskólanna til gagngerrar endurskoðunar. Það er eitthvað mikið að í skólakerfinu þegar kjaradeilur verða svo bitrar og hatrammar eins og raunin er með kennaraverkfallið. Enn ljósara varð það á mánudagsmorguninn þegar stór hópur kennara ákvað, að því er virðist í skipulagðri aðgerð, að mæta ekki til vinnu. Aðgerð sem bitnar á börnunum. Sanngjarnara og eðlilegra hefði verið að kennarar sýndu fram á óánægju sína t.a.m. með hópuppsögnum.

Það er ljóst að kennurum er það mikið áfall að ekki hafi tekist að ná samningum .Í framhaldi af aðgerðum þeirra síðustu tvo daga er það vafalaust líka mikið áfall fyrir þá að finna að samúð fyrir málstað þeirra hefur farið þverrandi í samfélaginu. Líklegt er að margir kennarar séu uggandi og sárir yfir þeirri reiði sem ríkir í þeirra garð í samfélaginu. Með hópskrópi sínu í gær gerðu þeir illt verra en sú aðgerð verður ekki aftur tekin og það stoðar lítt að dvelja við hana. Því má heldur ekki neita að stór hluti þjóðarinnar virðist styðja aðgerðir kennara heilshugar jafnvel þó þær hafi bitnað á varnarlitlum þolanda. Mikilvægast er þó að líta fram á veginn og læra af þeirri bitru reynslu sem kennarar, nemendur og foreldrar hafa gengið í gegnum á undanförnum mánuðum.

Stærsta vandamálið í grunnskólakerfinu felst í mikilli miðstýringu. Þar á kennaraforystan stóra sök ekki síður en ríkið og sveitafélögin. Svo virðist sem kennaraforystan berjist hvað harðast gegn breytingum sem auka svigrúm skólastjórnenda til þess að verðlauna sérstaklega fyrir vel unnin störf. Öll samkeppni innan stéttarinnar og milli skóla er litin miklum tortryggnisaugum af forystu kennara og veikburða sveitarfélög óttast af sama skapi samkeppnina og leggja því áherslu á sameiginlega kjarasamninga.

Kerfið eins og það er nú byggt upp hefur alið af sér mjög óheppilegt andrúmsloft í grunnskólakerfinu. Í flestum rekstri hafa atvinnurekendur og launþegar beinan hag af því að sinna grunnskyldum sínum með sem bestum hætti. Þannig er augljóst mál að í verksmiðju er forsenda velferðar bæði starfsmanna og vinnuveitenda að gæði vörunnar falli neytendum í geð. Án þeirrar forsendu versna lífskjör beggja aðila. Af þessum sökum þykir það mikilvægt í rekstri fyrirtækja að starfsmenn séu allir meðvitaðir um helstu grundvallarmarkmið fyrirtækisins.

Í kennslu er þetta auðvitað miklu flóknara. Það er erfiðara að mæla getu kennara og hinn raunverulega árangur. Markmiðið er hins vegar mjög einfalt. Það er að stuðla að menntun og þroska barnanna. Þetta markmið virðist hins vegar ekki hafa ratað inn á samningaborð kennaraforystunnar og launanefndar sveitarfélaganna. Á þeim vettvangi virðist frekar vera rifist um hversu oft menn eigi að gæta barna í frímínútum, hvort borga eigi sérstaklega fyrir setu á þessum fundi eða hinum, hversu lengi menn eru að undirbúa sig fyrir hina stöðluðu kennslustund fyrir hinn staðlaða bekk – og hvernig reikna megi út undantekningar frá þeim stöðlum.

Hins vegar virðist oft sem aðferðarfræðin, og starfið í grunnskólum, beri þess því miður, merki að hagsmunir nemendanna séu ekki alltaf hafðir að leiðarljósi. Það má ekki gleymast að skólarnir eru fyrir nemendur en ekki kennara og það er velferð barnanna – ekki kennaranna – sem mikilvægast er að vernda.

Deiglan hefur mikla samúð með því góða fólki sem kýs að gera kennslu að ævistarfi sínu. Í mörgum tilvikum eiga kennarar skilið mun ríkari umbun fyrir sitt framlag en nú er raunin. Það þýðir vitaskuld ekki að hægt sé að fallast á að kennarar sýni af sér jafnslæmt fordæmi og þeir hafa gert í gær og í fyrradag og það þýðir svo sannarlega ekki að Deiglan telji að forysta kennara sé á réttri leið í sinni kröfugerð eða baráttuaðferðum. Þvert á móti er deginum ljósara að núverandi forysta kennara er dragbítur á framfarir í menntakerfinu. Kennarar þurfa að trúa því og skilja að þeir njóta mikillar virðingar í samfélaginu, bæði hjá börnum og foreldrum, svo lengi sem fólk trúir því að þeir hafi hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Þetta kennaraverkfall hefur sýnt að núverandi kerfi er úr sér gengið. Allsherjarendurskoðunar er þörf og taka þarf tillit til þátta eins og aukins sjálfstæðis skólanna og einföldunar launakerfis kennara. Það er allavega ljóst að það þarf að leysa þessa deilu í eitt skipti fyrir öll. Vandanum verður, miðað við núverandi ástand, skotið á frest þar til endurskipulagningarvinnu lýkur. Það eru því viss vonbrigði að ríkisstjórnin hafi ekki séð sér leik á borði og farið fram á að slík vinna myndi hefjast ekki seinna en strax í kjölfar lagasetningarinnar.

Þessi kjaradeila hefur kallað fram hið versta í mörgum. Það getur tekið tíma að vinna bug á þeim skaða sem orðinn er og það verður ekki gert nema að grundvallarbreyting verði á hugarfari í forystu kennara. Kennarar þurfa á framsýnum leiðtogum að halda sem nærast á bjartsýni og sjálfsöryggi en ekki bölmóði og óöryggi. Kennarastéttin á að vera óhrædd við breytingar í átt til meiri samkeppni – í því felst lykillinn að betri starfskjörum, metnaðarfyllra skólastarfi og – það sem skiptir mestu máli – árangursríkari skólum fyrir nemendur.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)