Sigur á ekkert skylt við viðtengingarhátt

KR varð um helgina Íslandsmeistari í knattspyrnu. DEIGLUNNI leiðist allt tal um hverjir eigi þetta eða hitt skilið í íþróttum. Þeir bestu vinna – það felst í hugtakinu sigur.

KR varð um helgina Íslandsmeistari í knattspyrnu. DEIGLUNNI leiðist allt tal um hverjir eigi þetta eða hitt skilið í íþróttum. Þeir bestu vinna – það felst í hugtakinu sigur. Hvorki leikir né titlar hafa nokkurn tímann unnist í viðtengingarhætti og svo verður vart um fyrirsjáanlega framtíð. Því má vissulega halda fram að Fylkir úr Árbæ hafi sett svip sinn á mótið og gert það skemmtilegra en ella hefði orðið. Því mætti jafnvel líka halda fram að Fylkir hafi sýnt skemmtilegustu knattspyrnuna og verið heilsteyptasta liðið í sumar. Þá mætti ganga enn lengra og segja að Fylkismenn hafi verið klaufar að vinna ekki titilinn.

En ólíkt mörgum öðrum sviðum mannlífsins, þá gengur knattspyrna út á niðurstöðu – ekki vangaveltur. KR-ingar áttu skilið að verja Íslandsmeistaratitilinn af því að þeir unnu flesta leiki á Íslandsmótinu. Góðvinur DEIGLUNNAR, sem hefur áratugalanga reynslu af íþróttaumfjöllun, spáði því snemma í sumar að KR-ingar myndu verja titilinn, en þeir myndu hins vegar ekki gera það með neinum sérstökum glæsibrag. Þessi spá hefur að mestu gengið eftir. Aðalmálið er að niðurstaða Íslandsmótsins er sú að KR vann – með glæsibrag eða ekki.

Það Íslandsmót sem nú er lokið var ekki gott ef horft er til gæða knattspyrnunnar frá faglegum sjónarhóli. Sigursteinn Gíslason, leikmaður KR, hitti naglann á höfuðið í útvarpsviðtali á Rás 2 eftir að siðasta leik KR er hann sagði: „Menn tala um að KR-ingar hafi verið að leika illa í sumar. Við erum meistarar – en hvernig eru þá hin liðin?!“ Íslandsmótið var hins vegar skemmtilegt og þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það mestu máli. Er þá komið enn og aftur að kjarna málsins. Það sem gerði Íslandsmótið skemmtilegt að þessu sinni var fyrst og fremst óvissan um lyktir þess og spennan sem henni fylgdi. Allt ber að sama brunni – hvernig fór leikurinn? – fótbolti snýst um niðurstöðu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.