Þeirra villtustu draumar

Íslenskir kennarar hafa nú opinberað sína villtustu drauma og innstu langanir í viðhorfskönnun á vegum Kennarasambands Íslands.

Íslenskir kennarar hafa nú opinberað sína villtustu drauma og innstu langanir í viðhorfskönnun á vegum Kennarasambands Íslands. Þessari viðhorfskönnun var ætlað að kanna hug kennara fyrir komandi kjarasamninga og í henni voru þeir beðnir um að viðra hugmyndir um hver laun íslenskra kennara ættu að vera. Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna kennara fyrir heimtufrekju vegna niðurstöðunnar en DEIGLAN er algjörlega á öndverðri skoðun.

Eiginlega kom það DEIGLUNNI á óvart hversu hógværar og látlausar hugmyndir kennnara eru. Þegar fólk fær tækifæri að til að láta hugarflugið marka kaupum sínum og kjörum skorður, þá er undarlegt að hugmyndirnar skuli ekki vera háleitari. En þessi viðhorfskönnun er skemmtileg nýbreytni og nauðsynlegt væri að koma henni við þegar aðrir hópar launamanna semja næst. Fróðlegt væri að sjá hvaða hæðum hugarflug fiskverkunarfólks, verslunarmanna og óbreyttra verkamanna næði. Hvaða augum líta þessir hópar verðmæti vinnu sinnar? Vituskuld yrði niðurstaða þeirrar könnunar upphafsreitur næstu almennu kjarasamninga – rétt eins og kennarar láta í veðri vaka með niðurstöðu sinnar könnunar.

Kjarabætur íslenskra kennara hafa á síðustu árum hlaupið á tugum prósenta, jafnvel þótt eingöngu sé miðað við taxtahækkanir. Margir aðrir hafa þurft að gera sér að góðu örfárra prósentustiga hækkanir. Harmakvein kennaraforystunnar um örbirgð íslenskra kennara lætur ömurlega í eyrum og að auki er það nokkuð innantómt í ljósi þess að villtustu launadraumar íslenskra kennara eru ekki langt frá launakjörum þeirra nú. DEIGLAN er þeirrar skoðunar að fleira komi til en launakjör sem ástæða þess að kennarastarfið er minna eftirsótt nú en áður. Ímynd starfsins sem slík hefur beðið mikinn hnekki vegna framgöngu forystumanna kennara á síðustu árum. Getur ekki verið meira en líklegt að metnaðarfullt fólk vilji ekki í starfa núverandi umhverfi kennarastarfsins, burtséð frá launakröfum?

Á það skal bent að taxtalaun nýútskrifaðra kennara eru litlu lægri en taxtalaun nýútskrifaðra lögfræðínga. Sú vinnumenning sem náð hefur festa sig í sessi hjá kennarastéttinni á allra síðustu áratugum er hins vegar ekki spennandi fyrir ungt og metnaðarfullt fólk – sem vill koma einhverju til leiðar. Staðnað og metnaðarlaust kennarastarfið höfðar einfaldlega ekki lengur til þess. Reyndar eru margir kennarar ánægðir með starf sitt. Kunningi DEIGLUNNAR er íþróttakennari við grunnskóla úti á landi en auk þess lærður iðnaðarmaður. Er hann var inntur eftir því af hverju hann hætti ekki bara að kenna og snéri sér að iðn sinn, þar sem hann fengi e.v.t. betra kaup, svaraði hann: „Ertu brjálaður? Og hætta í golfinu?“ Kennarar eru nefnilega á fullum launum í lengsta sumarfríi allra stétta á Íslandi og mörgum finnst það kostur, eins og ofangreint dæmi sýnir.

DEIGLAN er ekki að halda því fram að hæfir kennarar séu of sælir af launum sínum. Ef forysta þeirra hins vegar sýndi jafn mikinn metnað í endurskoðun og raunverulegri uppbyggingu skólastarfs og hún gerir í kjarabaráttu sinni, væru þessi mál eflaust í betra horfi. Það er lýsandi að kennaraforystan vill ekki einu sinni ræða hugmyndir um árangurstengingu launa eða breytt rekstrarform skóla. Hvort tveggja yrði vafalítið til þess að hækka laun hæfra kennara og gera þá að eftirsóknarverðum starfskröftum. Þess í stað er hjakkað í sama gamla taxtafarinu, hæfum kennurum og skólastarfi almennt til miska.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.