Andlit og besta auglýsing hverrar sjónvarpsstöðvar

Fréttastofa SKJÁSEINS hefur verið á milli tannanna á ýmsum undanfarnar vikur, einkum vegna brotthvarfs Sigursteins Mássonar úr starfi fréttastjóra. Ljóst er að margir telja rekstur fréttastofu of dýran fyrir Skjáinn og skila of litlu.

Fréttastofa SKJÁSEINS hefur verið á milli tannanna á ýmsum undanfarnar vikur, einkum vegna brotthvarfs Sigursteins Mássonar úr starfi fréttastjóra. Ljóst er að margir telja rekstur fréttastofu of dýran fyrir Skjáinn og skila of litlu. Þá hefur nokkuð verið rætt um að fréttastofan verði að marka sér skýra sérstöðu gagnvart risunum og taka öðruvísi á málum. Fréttastofa Stöðvar 2 tók sýndi þessu máli óvenju mikla athygli og sló því upp að Skjárinn myndi í framtíðinni einbeita sér að „gulum“ fréttaflutningi.

DEIGLUNNI þykir það skondið að fréttastofa Jóns Ólafssonar setji sig á slíkan stall, að hún telji sjálfa sig til þess sem kalla mætti æðri fréttaveitur. Fréttastofa SKJÁSEINS á ekki margar vinnustundir að baki en á margan hátt eru vinnubrögð þar á bæ faglegri en tekist hefur að innleiða á Stöð 2 þann hálfan annan áratug sem þar hefur verið starfrækt fréttastofa. Mesta sérstaðan sem fréttastofa SKJÁSEINS gæti markað sér gagnvart þessum helsta samkeppnisaðila sínum væri að segja traustar, áreiðanlegar og umfram allt málefnalegar fréttir.

Það er eflaust rétt sem forráðamenn Skjásins hafa haldið fram, að rekstur fréttastofunnar sé óhemju dýr og skili hlutfallslegu minnstu. En nauðsynlegt er hins vegar að horfa til lengri tíma og sýna þolinmæði. Fréttastofa er andlit sjónvarpsstöðvar út á við og hennar besta auglýsing ef rétt er að málum staðið. Ef fréttaflutningur dytti upp fyrir á Skjánum er hætt við að örlög hans yrðu svipuð og Stöðvar 3 hér um árið; að verða sviplaus sápustöð.

Vonandi verður áframhald á rekstri fréttastofu SKJÁSEINS. Fréttaflutningur þar á bæ hefur tekið hægum en öruggum framförum og geta forsvarsmenn fréttastofunnar mætt samkeppni stóru ljósvakafréttastofanna kinnroðalaust. Með tíma og þolinmæði mun fréttastofu Skjásins vaxa fiskur um hrygg – það vekur eðlilega ótta hjá samkeppnisaðilanum og skýrir að hluta æsifréttir hans af málefnum SKJÁSEINS að undanförnu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.