Bíllinn og breiddargráðurnar

Upp er runninn „Bíllausi dagurinn“ svokallaði og DEIGLAN ræður sér vart fyrir kæti. Í dag ætla Evrópubúar í 643 bæjum og borgum víðs vegar um álfuna að hvíla bíla sína og notast þess í stað við almenningssamgöngur, tvo jafnfljóta eða jafnvel frumlegri ferðamáta.

Upp er runninn „Bíllausi dagurinn“ svokallaði og DEIGLAN ræður sér vart fyrir kæti. Í dag ætla Evrópubúar í 643 bæjum og borgum víðs vegar um álfuna að hvíla bíla sína og notast þess í stað við almenningssamgöngur, tvo jafnfljóta eða jafnvel frumlegri ferðamáta. Árni Þór Sigurðsson, ómagi R-listans, skrifar af þessu tilefni grein í Morgunblaðið í gær undir þeirri frumlegu yfirskrift: „Bíla má hvíla – á morgun“.

Ekki er það ætlun DEIGLUNNAR að gera lítið úr þeirri viðleitni velviljaðra að vekja fólk til umhugsunar um hvort hægt sé að komast af án einkabílsins. Þessi umræða hefur ágerst mjög hérlendis á síðustu árum og er hún í sjálfu sér af því góða. Eins ætlast er til eru allir í hátíðarskapi á „Bíllausa deginum“ og fólk sprangar léttklætt um göturnar með ís og kebab. Dúnmjúkir líða almenningsvagnarnir hljóðlaust hjá og um loftið svífur söngur glaðlyndra barna. Þetta er draumsýn skipuleggjendanna og gaman væri ef nóg væri að skilja bíldrusluna eftir heima til að þessi sýn yrði að veruleika.

En því miður er þetta ekki svo einfalt. Bíllinn er þarfasti þjónninn í þessu harðbýla landi og erfitt að ímynda sér að fólk geti komist af án hans. Önnur sjónarmið eiga við í flestum af þeim 643 borgum og bæjum, þar sem íbúar munu hvíla bíla sína á morgun. Þar hefur „Bíllausi dagurinn“ kannski einhvern tilgang. Í Reykjavík er hann því miður enn eitt dæmi um gæluverkefni samfélagsskipuleggjenda. Árni boðar meira að segja íburðarmeiri „Bíllausan dag“ á næsta ári og segir að þá „kæmi til greina að loka hluta miðborgarinnar fyrir umferð einkabíla…“. En sem betur fer ætlar Árni að láta sér nægja að hvetja fólk til að ganga til vinnu sinnar á morgun. DEIGLAN hyggst svara því kalli og ganga fremst í flokki – ef veðrið verður þokkalegt…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.