Þriðji borgarstjórinn á þremur árum

Steinunn Valdís Óskarsdóttir var valinn borgarstjóri eftir enn einn darraðadansinn í samsteypustjórn vinstri flokkanna í borginni. Þetta er þriðji borgarstjórinn sem R-listinn býður Reykvíkingum upp á síðan borgarbúar kusu Ingibjörgu Sólrúnu í embættið fyrir tveimur og hálfu ári.

Nú hefur R-listinn boðið Reykvíkingum upp á þrjá borgarstjóra á einu og sama kjörtímabilinu. Verður þetta að teljast nokkuð spaugilegt í ljósi þess hversu mjög R-listamönnum hefur orðið tíðrætt um að sjálfstæðismenn hafi skipt þrisvar um oddvita á sex árum.

En R-listanum hefur ekki aðeins tekist að bjóða upp á þrjá borgarstjóra heldur hefur hann boðið upp á að minnsta kosti tíu borgarstjóraefni á þessum tíma. Reyndar fengu Reykvíkingar aðeins að kjósa um einn þeirra en á síðustu dögum hefur komið berlega í ljós að næstum því hver einasti borgarfulltrúi R-listans hefur getað talið sér trú um að einmitt hann sé rétti maðurinn til þess að setjast í stól borgarstjóra. Það hafa vissulega verið átök um forystu í borgarstjórnarhópi sjálfstæðismanna en þeir hafa þó látið sér nægja að bjóða fram einn borgarstjórakandídat í einu.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir sem á endanum var valin til að gegna stöðunni eftir brotthvarf Þórólfs Árnason varð í öðru sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Umboð hennar frá kjósendum verður að teljast nokkuð þokukennt þótt því verði ekki á móti mælt að hún hefur mikla reynslu af borgarstjórnarstörfum og ætti því að vera hnútum ágætlega kunnug – og borgarmálin eru vissulega mörg í hnút svo það ætti að koma sér vel.

Verkefni hennar við að leysa hnúta innan átta manna borgarstjórnarhóps R-listans verður þó öllu snúnara. Erfitt er að ímynda sér að aðrir borgarfulltrúar líti svo á að Steinunn Valdís hafi óskorað umboð til forystu í hópnum. Jafnvel tiltölulega sterkt umboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur dugði ekki til þess að koma í veg fyrir að til yrði flókið og óskynsamlegt smákóngakerfi innan stjórnkerfis borgarinnar. Miklir hagsmunir Reykvíkinga felast í því að Steinunn Valdís höndli starf sitt af skynsemi og festu en hvernig henni ferst það úr hendi mun tíminn fljótlega leiða í ljós.

Í þeirri stöðu sem nú er komin upp er erfitt að sjá hvernig Reykjavíkurlistinn getur gert sér vonir um að viðhalda meirihluta sínum í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki alltaf verið tilþrifamikill í minnihlutanum í borgarstjórn og gjarnan fests í þrefi um minniháttar málefni og ekki alltaf boðið upp á nægilega skýran valkost út frá málefnalegu sjónarhorni. Hins vegar er ólíklegt að nokkrum detti í hug að aðrar eins hrókeringar og óvissa í stjórnun borgarinnar væri upp á teningnum ef sjálfstæðismenn hefðu meirihluta.

Afhroð Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum þarf síður en svo að gefa til kynna að það sé ekki lengur möguleiki fyrir flokkinn að ná meirihluta í borgarstjórn. Stórsigur Davíðs Oddssonar í kosningunum 1990 dróg ekki allan mátt úr vinstrimönnum og því ætti stórtapið síðast ekki að draga máttinn úr Sjálfstæðismönnum.

Það yrði meiriháttar klúður hjá Sjálfstæðisflokknum ef honum tekst ekki að vinna meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum. Þegar menn fá boltann á markteig fyrir auðu marki er ekki hægt að kenna neinu öðru en sjálfum sér um ef ekki tekst að skora.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)