Bókastórtíðindi

sdfdÍ hámenningarlegu helgarnesti dagsins verður þeirri spurningu velt upp hvort að Íslendingar reyni í auknum mæli að synda undan jólabókaflóðinu.

Alveg stórmerkilegt hvað fólk gerir ekki fyrir imbann…

Það kættust margir þegar bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefanda var laumað í póstkassa landsmanna í nýliðinni viku. Lesendur Deiglunnar eru að sjálfsögðu vel upplýstir og fluglæsir og fylgjast því rígspenntir með útgáfu jólabókanna. Þannig eru þeir fyrir löngu búnir að fá meira en nægju sína af því að lesa um ritverk vinsælu höfundanna sem selja bækur sínar í bílförmum og þyrstir í fréttir af minni spámönnum sem selja bækur sínar sjálfir úr bílgörmum. Hér verður því gengið í það þjóðþrifaverk að gefa þeim ritverkum gaum sem fallið hafa á milli stafs og hurðar í umfjöllun annara miðla.

Eins og gengur og gerist eru titlarnir misspennandi. Og sumir þeirra eru svo fráhrindandi að það tekur ekki nokkru tali. Þannig er ómögulegt að segja til um hvaða markhóps sagan um Ólöfu eskimóa er stíluð inn á, sem segir frá ævintýrum íslensks dvergs í Vesturheimi. Því síður er auðvelt að gera sér í hugarlund að bókin Efnasamsetning matvæla rjúki upp vinsældalista — enda fullljóst að kaupendur hljóta að þurfa að vera með ólögleg efnasambönd í æðum til að fjárfesta í þeim doðrant!

Bókin Einkalíf hunda vekur vafalaust upp fleiri spurningar en hún svarar og kallast sennilega á við metsölubókina um búfjársjúkdóma og sögu þeirra sem Dýralækningafélagið gefur út. Þessar bækur tróna samt yfir bókinni um sögu Brunabótafélags Íslands sem rekur í smáatriðum aðdragandann að löggjöfinni um félagið.

Þannig missti ofangreindur algerlegu einbeitinguna þegar hann las innganginn að bókinni Betri einbeiting sem fjallar um náttúrulegar leiðir til þess að bæta árangur. Kannski var það líka einbeitingarleysinu að kenna en pistlahöfundur skildi hvorki upp né niður í bókatiltlinum Lemmatized Index to the Homily Book — og var jafnfjærri kjarna málsins eftir að hafa lesið lýsinguna á bókinni: „…hefur að geyma lemmaðan orðalista yfir texta hómólíubókarinnar!“

Halló, Hafnarfjörður — segi ég nú bara!

Auðvitað er þessum bókum ætlað að þjóna afmörkuðum hóp áhugasamra og þannig er það ekki drengilegt að snúa út úr þessum bókatitlum og gera því skóna að þeir séu gefnir út með gróðavonina eina að leiðarljósi. Enda er það aðdáunarvert hversu margir bókatitlar koma út um jólin og vonandi að sem flestir lesendur Deiglunnar gefi vinum og ættingjum bækur um jólin.

En það eru bara ekki alltaf jólin!

Ef marka má könnun Þorbjörns Broddasonar, prófessors í fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands, hefur jafnt og þétt dregið úr lestri dagblaða og nú segjast einungis fjórir af hverjum tíu lesa dagblað daglega — þannig að við getum rétt ímyndað okkur hve lítill lestur bóka er í raun og veru. Könnun hans leiddi einnig í ljós að fjöldi sjónvarpstækja á heimilum hefur stóraukist og eru þannig að jafnaði tvö sjónvörp á íslenska meðalheimilinu. Við fílum nefnilega ekkert að lesa bækur — Ísland er hvort sem er orðið Digital og svona. En eitt skil ég bara ekki í Digital sjónvarpsherferðinni:

Hver nennir eiginlega að fara upp á þak til að horfa á sjónvarpið?

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)