Skítaredding

Það var í raun Framsóknarflokkurinn sem valdi nýjan borgarstjóra og ekki getur það talist gott veganesti fyrir Steinunni V. að samstarfsflokkar sætta sig við hana þar sem hún er lítil ógnun við þá í framtíðinni.

Reykvíkingar hafa nú fengið þriðja borgarstjóran sinn á þessu kjörtímabili. Eftir stíf fundarhöld, mikin vandræðagang og klaufalega framkomu í fjölmiðlum var ákveðið að Steinunn V. Óskarsdóttir yrði borgarstjóri frá og með 1. desember og fram að næstu sveitastjórnarkosningum, þ.e.a.s. ef hið þreytta kosningabandalag heldur saman.

Lengi leit út fyrir að Dagur B. Eggertsson yrði fyrir valinu og gekk það reyndar svo langt að Fréttablaðið sló því upp á forsíða á miðvikudaginn að hann yrði borgarstjóri, enda taldi blaðið að allir borgarfulltrúar styddu slíka tillögu. Eflaust hefur tilhugsunin verið farinn að kitla drenginn þegar framsóknarkonan ein gekk úr skaftinu. Redda þurfti málunum á skömmum tíma og eftir nokkrar klukkustundir kom nafn Steinunar V. upp, öllum að óvörum. Allir voru hissa, meira að segja sjálft borgarstjóraefnið.

En hvað gerir Steinunni V. að svona góðum borgarstjóra? Framganga hennar í skipulags málum hefur ekki verið góð, enda verða skipulagsmál í Reykjavík að teljast í nokkrum ólestri. Þá er það spurning hvort félagar hennar í borgarstjórn hafi litið til framgöngu hennar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er hún tekið þátt í því með Alfreði Þorsteinssyni að neita Guðlaugi Þór Þórðarsyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ítrekað um upplýsingar varðandi fjármál dótturfélaga Orkuveitunar. Það er alveg með ólíkindum að kjörnum fulltrúa fólksins skuli ítrekað verið neitað um sjálfsagðar upplýsingar varðandi opinbert borgarfyrirtæki.

Sennilega er ástæðan fyrir þessu vali einfaldlega sú að engin annar var eftir. Framsóknarmenn höfðu gefið það út að þeir væru ekki tilbúnir að ala upp leiðtoga fyrir Samfylkinguna og því kom skipun að ofan um að hafna Degi. Þá vildi Stefán Jón Hafsteinn, en framsókn sagði aftur nei. Það var því í raun Framsóknarflokkurinn sem valdi nýjan borgarstjóra og ekki getur það talist gott veganesti fyrir Steinunni V. að samstarfsflokkar sætta sig við hana þar sem hún er lítil ógnun við þá í framtíðinni. Það má því segja að hún sé hálfgerð skítaredding, svona rétt til þess að halda R-listanum saman.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum forseti borgarstjórnar segir á heimasíðu sinni frá því hann hafi á félagsfundi Samfylkingarinnar haldið fram þeirri skoðun sinni að eðli R-listinn hefði breyst úr einni almannahreyfingu í kosningabandalag þriggja flokka, sem væri uppskriftin frá 1978-´82, þegar gekk á með sífelldum næturfundum vegna vandræða í meirihlutanum. Það má svo sannarlega segja að þetta sé raunin nú og í annað skiptið á þessu kjörtímabili.

Nýja borgarstjóranum er margur vandi á höndum. Mikill upplausn og óvissa hefur herjað á meðal helstu embættismanna Reykjavíkurborgar vegna gæluverkefna einstakra borgarfulltrúa. Það getur verið erfitt að stjórna í slíku starfsumhverfi. Hinn nýi borgarstjóri þarf líka að horfast í augu við hrikarlega skuldasöfnun borgarinnar og taka á því með öðrum hætti en síðustu tveir hafa gert – að viðurkenna vandann.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.