Friðarverðlaun Nóbels

Wangari Maathai, baráttukona frá Afríku, hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Val Nóbelsnefndarinnar var kynnt í síðustu viku og er að margra mati töluvert umdeilt. Wangari Maathai er fyrsta konan frá Afríku og fyrsta baráttumanneskjan fyrir umhverfismálum til að hljóta friðarverðlaun Nóbels.

Wangari Maathai, baráttukona frá Afríku, hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Val Nóbelsnefndarinnar var kynnt í síðustu viku og er að margra mati töluvert umdeilt. Wangari Maathai er fyrsta konan frá Afríku og fyrsta baráttumanneskja fyrir umhverfismálum til að hljóta friðarverðlaun Nóbels.

Maathai hlýtur verðlaunin fyrir framlag sitt til sjálfbærrar þróunar, lýðræðis og friðar. Í rökstuðningi sínum fyrir veitingunni sagði Nóbelsnefndin meðal annars að möguleikar okkar til að tryggja umhverfið séu forsenda friðar.

Forsætisráðherra Noregs sagði að Nóbelsnefndin hefði aukið vídd verðlaunanna með því að tengja framlag til sjálfbærs umhverfis við frið og mannréttindi. Maathai væri frumkvöðull í baráttunni gegn fátækt, fyrir lýðræði, kvennréttindum og sjálfbærri þróun. Utanríkisráðherra Noregs sagði að sjálfbær þróun væri undirstaða stöðugleika, öryggis, lýðræðis og friðar.

Maathai er 64 ára Kenýubúi og hefur um áratugaskeið beitt sér fyrir lýðræði, mannréttindum og umhverfisvernd. Maathai var fyrsta konan í Austur- og Mið-Afríku til að hljóta doktorspróf og árið 1977 stofnaði hún svokallaða Grænabeltishreyfingu (e. Green Beld Movement).

Grænabeltishreyfingin er grasrótarhreyfing sem hefur virkt konur í dreifðum byggðum til að koma í veg fyrir skógareyðingu. Á vegum Grænabeltishreyfingarinnar hafa um 30 milljón tré verið gróðursett í Afríku. Hugmynd Maathai er að gróðursetningin komi í veg fyrir skógareyðingu, varðveiti lífríkið, útvegi eldivið, byggingarefni og fæðu fyrir komandi kynslóðir og sé þannig lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt.

Maathai hefur í gegnum tíðina átt í útistöðum við yfirvöld í Kenýa, hún hefur verið handtekin og orðið fyrir barsmíðum. En frá árinu 2003 hefur hún gegnt embætti aðstoðarumhverfisráðherra Kenýa. Þá hefur hún beitt sér fyrir friði og réttlæti í gegnum ráðgjafanefnd Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um afvopnun.

Þetta er að sjálfsögðu allt saman gott og blessað. Það sem hins vegar vekur furðu margra en hefur lítið verið fjallað um í fjölmiðlum eru hugmyndir Maathai um eyðni.

Maathai heldur því fram að eyðniveran hafi verið búin til á Vesturlöndum til að þurrka út svarta kynstofninn. „Fleiri svartir deyji af völdum veirunnar en nokkur annar kynstofn í heiminum.“ Þá segir hún að smokkar geti ekki komið í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Slík ummæli hljóta að vekja furðu komandi frá nýkrýndum friðarverðlaunahafa Nóbels.

Aðspurð um hvað sé næst á dagskrá, segir Maathai; “More trees. I will grow more trees”.

Heimildir: Norway.org, time.com, Herald Sun, cnn.com, bbcnews.com, The Economist

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.