Bannaðar bækur

Saga Mikhaíls Búlgakovs

Rússneski blaðamaðurinn, leikritahöfundurinn og rithöfundurinn Mikhaíl Búlgakov fæddist árið 1891 í Kiev. Þegar hann var 29 ára gamall ákvað hann að gerast rithöfundur og þá fyrst byrjuðu vandræðin.

Saga Mikhaíls Búlgakovs

Rússneski blaðamaðurinn, leikritahöfundurinn og rithöfundurinn Mikhaíl Búlgakov fæddist árið 1891 í Kiev. Hann lærði læknisfræði á árunum 1909-1916. Á árunum 1916-1918 vann hann sem læknir á spítölum sem voru í fremstu víglínu átakanna í Rússlandi. Hann hélt síðan áfram að vinna fyrir sér sem læknir til 1920. Þá ákvað hann á 29. aldursári að skipta algjörlega um starf og gerast rithöfundur.

Árið 1921 fluttist hann til Moskvu og starfaði þar við hin ýmsu greinaskrif ásamt því að fást við skáldskap. Árið 1925 fór hann að vinna fyrir Moskvuleikhúsið og þá fyrst byrjuðu vandræði skáldsins. Hann skrifaði og setti á svið fjölmörg leikrit sem urðu mjög vinsæl. Í verkum hans var oft að finna beitta gagnrýni á stjórnkerfið í Sovétríkjunum og það samþykktu yfirvöld ekki. Ollu verk hans miklum taugatitringi og voru dæmd óprenthæf af sovéskum yfirvöldum og bönnuð, ýmist fyrir eða eftir frumsýningu. Árið 1929 fyrirskipaði Stalín að öll verk skáldsins yrðu tekin úr sýningu og á 4. áratugnum var búið að banna næstum öll leikrit og sögur skáldsins. Var nánast allt sem hann skrifaði bannað eftir það.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Búlgakov átt vísa aftöku eða farmiða í Gúlagið eins og aðrir listamenn sem voru ekki Kreml þóknanlegir. Það varð honum hins vegar til happs að af einhverjum furðulegum ástæðum þá var leikrit hans um Hvíta vörðinn (byggt á sjálfsævisögu frá 1925) eitt af uppáhaldsleikritum Stalíns þrátt fyrir andsósíalískan boðskap. Þetta olli því að skáldið var hvorki handtekið né líflátið eins og margir innan Kremlar vildu. Öll verk hans voru hins vegar áfram bönnuð.

Þar sem skáldið var í þeirri einkennilegu stöðu að fá eingöngu að draga andann en ekki gera neitt annað þá bað hann yfirvöld vinsamlegast um að vísa sér úr landi árið 1929, stuttu eftir að Stalín hafði tekið öll verk hans af fjölunum. Því erindi var ekki svarað. Hann gafst ekki upp og ári seinna sendi hann sovéskum yfirvöldum langt bréf þar sem hann bað aftur um að fá að yfirgefa landið. Því var hafnað en stuttu seinna hringdi Stalín í hann í eigin persónu og skipaði hann sem aðstoðarframleiðanda í Moskvuleikhúsinu. Hann vann síðan til dauðadags 1940 við að setja upp klassísk verk eftir aðra í hinum ýmsu leikhúsum Mosvku en hans eigin verk héldu áfram að vera bönnuð.

Hans frægasta verk er án efa Meistarinn og Margaríta sem hann skrifaði á árunum 1928-1940. Sagan var að sjálfsögðu bönnuð þar sem skáldið neitaði að gera þær breytingar á verkinu sem yfirvöld kröfðust. Skáldið laumar sterkum andsósíalískum boðskap inn í allegóríu um samspil góðs og ills. Talið er víst að skáldið hafi vitað allan tímann að sagan yrði aldrei lesin á meðan hann lifði enda var hún fyrst gefin út 26 árum eftir dauða hans. Er sagan talin vera eitt mesta bókmenntastórvirki 20. aldarinnar og hefur haft gífurleg áhrif, bæði í Sovétríkjunum sálugu og annars staðar. Má til gamans geta að bókin “Söngvar satans” eftir Salman Rushdie er undir miklum áhrifum frá verkinu. Einnig hafa meðlimir Rolling Stones fullyrt að lagið “Sympathy for the Devil” sé byggt á bókinni.

Meistarinn og Margaríta fjallar um djöfulinn sem kemur dag einn til Moskvu og gerir þar alls kyns óskunda. Það er kannski kaldhæðið að á sama hátt kom þrítugur læknir til Moskvu árið 1921 og áður en yfir lauk hafði hann náð að valda ógnarstjórninni í Moskvu ómældum ama með verkum sínum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.