Hátíska á lágu verði

Hvernig tekst Zöru að bjóða upp á fatnað samkvæmt nýjustu tísku, samtímis um allan heim á töluvert lægra verði en keppinautarnir? Skýringin er sú að Zöru búðirnar eru reknar eftir sérstakri hugmyndafræði

Það eru fáar fataverslanir sem ekki stinga verðmiðanum snyrtilega inn í flíkina. Zara setur aftur á móti verðmiða sína utan á þær, þar sem verðið er gefið upp í mörgum gjaldmiðlum, auðkenndum þjóðfána. Þessi framsetning undirstrikar stefnu fyrirtækisins sem miðar að því að reka gagnsæja lágvörustefnu. Verðmiðinn segir manni að alls staðar í heiminum er sama lága verðið.

Fyrsta Zöru verslunin opnaði 1975 á Spáni í borginni Coruña og síðan þá hefur búðunum fjölgað jafnt og þétt. Nú eru verslanirnar tæplega sjöhundruð talsins í fimmtíu löndum sem sýnir að tíska virðir fá landamæri þjóða. Zöru búðirnar eru í eigu fyrirtækisins Inditex sem einnig rekur minni keðjur, en yfir 70% sölu fyrirtækisins fer í gegn um Zöru verslanirnar. Fyrirtækið hefur vaxið hressilega á síðustu árum og var hagnaður þess á síðasta ári um 447 milljónir evra. Í ársbyrjun voru starfsmenn fyrirtækisins tæplega 40.000.

Velgengni keðjunnar vekur óneitanlega forvitni. Hvernig tekst Zöru að bjóða upp á fatnað samkvæmt nýjustu tísku, samtímis um allan heim á töluvert lægra verði en keppinautarnir? Skýringin er sú að Zöru búðirnar eru reknar eftir sérstakri hugmyndafræði sem skilað hefur eigandanum miklum tekjum og neytendum hátískufatnaði á lágu verði. Þessi hugmyndafræði er lykillinn á bak við forskot Zöru á aðra fataframleiðendur.

Í höfuðstöðvum Zöru á Spáni eru gerðar tilraunir með sýningaglugga og framsetningu fata inni í versluninni. Mikið er lagt upp úr því að gluggarnir gefi þá mynd að í búðunum fáist ferskasta tískan hverju sinni, og innanhúss arkitektúrinn miðar að því að brjóta niður allar hindranir milli viðskiptavinarins og varanna. Allt gert eins aðgengilegt og hægt er. Tilraunaútstillingar fyrirtækisins eru einstakar í heiminum og fáir sem leggja jafn mikla vinnu í þær og Zara.

Starfsfólk búðanna starfar eftir ákveðnum reglum. Bannað er að segja: „Get ég aðstoðað?“ Í staðinn er fylgst vel með viðskiptavininum og allar flíkur sem hann leggur frá sér eru teknar, brotnar saman og settar annars staðar í búðinni. Þannig fær viðskiptavinurinn það á tilfinninguna að hann sé e.t.v. búinn að missa af vörunni fyrst að hann keypti hana ekki strax. Þessi upplifun eykur löngun í hlutinn.

Staðsetning Zöru búðanna skiptir öllu. Allt kapp er lagt á að vera á besta götuhorni í hverri borg og við hlið ákjósanlegra fyrirtækja. Sem dæmi um fyrirtæki sem ekki er eftirsóknavert að vera nálægt er banki. Samkvæmt könnunum eru bankar með ljótustu og óáhugaverðustu útstillingarnar sem geririr það að verkum að fólk strunsar beint fram hjá þeim.

Margt af því sem hér hefur verið nefnt kostar þó mikinn pening. Hvar nær fyrirtækið fram hagræðingunni? Svarið við því er einstakt framleiðslukerfi sem starfar eftir einföldu samskiptaneti sem nær til hverrar einustu Zöru búðar. Um leið og vara er seld berast boð um það til höfuðstöðvanna. Þar starfa um 200 hönnuðir sem taka mið af óskum neytenda í hönnun. Því er hægt að framleiða stöðugt í samræmi við óskir neytandans og vörulager er mun minni en tíðkast hjá keppinautunum. Þetta kerfi gerir það mögulegt að fylgjast mjög náið með því hvernig tískan þróast hverju sinni og því er ávallt hægt að bjóða upp á föt samkvæmt nýjustu straumum.

Zara hefur einnig þróað öflugt dreifikerfi sem krefst stórrar dreifingarmiðstöðvar og viðbragðsflýti í dreifingu vörunnar. Svo virðist sem að það hafi tekist enda býður Zara upp á 22 árstíðir yfir árið í stað hefðbundinna tveggja líkt og tíðkast víða í fataframleiðslu.

Zara verslunarkeðjan er starfrækt þannig að hægt er að hanna og dreifa nýjustu tísku á mjög skömmum tíma. Þetta hefur veitt fyrirtækinu ótrúlegt forskot sem hefur skilað sér í miklu vöruúrvali og lágu vöruverði til viðskiptavina búðanna um allan heim.