Forysta á villigötum

kennaraverkfallÍ síðustu viku gagnrýndi pistlahöfundur aðferðir og úrelt viðhorf hjá forystusveit Kennarasambands Íslands (KÍ). Undarlegt útspil kennaraforystunnar síðustu tvo daga er síst til þess fallið að auka veg kennarastéttarinnar og vandséð að það bæti samningsaðstöðu kennara.

kennaraverkfallÍ síðustu viku gagnrýndi pistlahöfundur aðferðir og úrelt viðhorf hjá forystusveit Kennarasambands Íslands (KÍ). Undarlegt útspil kennaraforystunnar síðustu tvo daga er síst til þess fallið að auka veg kennarastéttarinnar og vandséð að það bæti samningsaðstöðu kennara.

Í kjölfar þess að Íslandsbanki og Sjóvá Almennar lýstu því yfir að fyrirtækin hygðust bjóða starfsfólki sínu upp á dagvistun fyrir börn þeirra ef til verkfalls kæmi brást KÍ við með því að saka fyrirtækin um verkfallsbrot. Að vísu ekki um verkfallsbrot samkvæmt lögum heldur ígildi verkfallsbrots. Í tilkynningu frá KÍ segir meðal annars orðrétt:

Kennarasamband Íslands lítur á það sem klárt verkfallsbrot ef fyrirtæki skipuleggja starfsemi fyrir grunnskólanemendur á þeim tímum dags sem börn hefðu annars átt að vera í skóla.

Allar slíkar hugmyndir eru til þess fallnar að auka líkur á að verkfall hefjist og það verði langvinnara en ella.

Kennarasamband Íslands áskilur sér fullan rétt til þess að bregðast við hugmyndum af þessu tagi með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru.

Formaður KÍ fylgdi svo orðum þessum eftir í viðtali á Stöð 2 síðastliðið þriðjudagskvöld. Orð hans voru ekki skilin á annan veg en að sambandið myndi beita sér fyrir því að kennarar hættu viðskiptum við Íslandsbanka ef fyrirtækið léti ekki af áformum sínum. Einnig virtist formanninum líka illa ef starfsmannafélag Íslandsbanka myndi reyna að finna lausn fyrir foreldra fyrirtækisins. Í stað þess nýta viðtalið til þess að útskýra málstað kennara og stöðu verkfallsdeilunnar tókst formanni KÍ nánast að lýsa yfir stríði við fyrirtækin í landinu og foreldra grunnskólabarna. Í kvöldfréttum í gærkvöld tókst formanninum til viðbótar að lýsa yfir stríði við knattspyrnufélagið Val.

Það er nokkuð erfitt fyrir leikmann að sjá hvernig þessar stríðsyfirlýsingar forystusveitarinnar bæta kjör kennara, nema hér sé um djúphugsaðan leik að ræða. Það hefur sjaldan talist ráðlegt að heyja mörg stríð samtímis og samanburður á dagvistun barna við kennslu í grunnskólum gerir einungis lítið úr starfi grunnskólakennara.

Það má hins vega vel færa rök fyrir því að aðgerðir Íslandsbanka og annarra fyrirtækja séu ekki til þess fallnar að styrkja stöðu kennara. En forystusveit KÍ hefur valið mjög undarlega leið til þess að koma þeim boðskap á framfæri. Það skiptir miklu máli fyrir kjarabaráttu kennara að fá foreldra í lið með sér. En nú sem áður virðist forystusveitin vera á góðri leið með að fá alla aðila upp á móti sér með klúðurslegum hætti.

Ætla mætti að kennaraforystan hefði öll tækifæri til þess að skapa samstöðu meðal almennings því aðgangur að foreldrum grunnskólabarna ætti að vera greiður og málefnið mikilvægt. Foreldrum er annt um velferð barna sinna og hafa hag af því að hæfir einstaklingar veljist til starfa og stuðli að þroska þeirra. Verkefnið virðist auðvelt en setja verður stórt spurningamerki við aðferðir forystusveitar KÍ við að ná fram markmiðum sínum.

Pistill undirritaðs í síðustu viku um yfirvofandi kennaraverkfall vakti mikil viðbrögð og bárust fjölmörg skeyti í kjölfarið frá grunnskólakennurum. Þar kom fram að fjölmargir kennarar eru orðnir þreyttir á úrræðaleysi forystunnar og vilja fara nýjar leiðir, þó eðlilega vilji menn stíga varlega til jarðar. Því miður fannst einstaka kennara sem pistlahöfundur talaði ógætilega um störf kennara, það er miður misskilningur og langt frá ætlun undirritaðs. Pistillinn, sem og þessi pistill, var fyrst og fremst gagnrýni á forystusveit kennara og áeggjan til metnaðarfullra kennara að taka upp nýjar aðferðir í kjarabaráttunni. Kennarar vinna mjög mikilvægt starf og hæfir kennara eiga skilið góð laun fyrir vinnu sína.

En kennarar hljóta að spyrja sig að því hvort forystusveit þeirra sé ekki á villigötum, þurfi í það minnsta á almannatengslafulltrúa að halda.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)