Ódæðið í Beslan

Hryðjuverkaárásin í Beslan í Rússlandi minnir okkur á hve berskjaldaður almenningur er gagnvart illvirkjum sem engu eira í sókn sinni eftir því að valda saklausu fólki hörmungum.

Skólabörn gráta við kistu Deressu Bazrova, 14 ára, sem féll í Beslan um helgina.

Hryðjuverkaárásin á grunnskólann í Beslan í Rússlandi er ef til vill ljótasta birtingarmynd alþjóðlegra hryðjuverka um langt skeið. Þegar gerðar voru árásir á New York og Washington fyrir tæpum þremur árum síðar voru skotmörkin valin út frá táknrænu gildi. Annars vegar var ráðist á miðstöð alþjóðlegra viðskipta og hins vegar helstu táknmyndir bandarískra stjórnvalda. Nú er skotamarkið hins vegar eingöngu valið til þess að valda saklausum borgurum sem mestu tjóni.

Árásin virðist gefa til kynna að hryðjuverkahópar hafi tekið upp enn ófyrirleitnari stefnu. Við þessu þarf að bregðast þótt víst sé að mun erfiðara sé að verjast árásum hryðjuverkamanna þegar markmiðin eru eingöngu að úthella blóði saklausra borgara.

Fregnir herma nú að nokkrir af illvirkjunum hafi verið arabískir málaliðar sem ekki hafi átt búsetu í Rússlandi. Líklegt er að um sé að ræða einstaklinga sem hafa hlotið þjálfun í búðum al-Kaída í Afganistan og ferðast um heiminn til að taka þátt í stríðum og skærum sem á einhvern hátt eru tengdar trúarlegri togstreitu.

Rússland hefur ítrekað orðið fyrir hryðjuverkaárásum á síðustu árum enda hafa æðstuprestar herskárra múslima talið að framganga rússneska hersins í Téténíu réttlæti aðgerðir þar. Mikill fjöldi íslamskra málaliða, sem tilheyra Salafi-hreyfingu múslima og hafa hlotið þjálfun hjá al-Kaída, hafa tekið þátt í borgarastríðinu í Téténíu.

Það er því líklegt að Rússland sé það land utan Mið-Austurlanda sem býr við hvað mesta hryðjuverkaógn nú um stundir. Við þetta bætist að svo virðist sem rússnesk yfirvöld séu fremur illa í stakk búin að mæta aðgerðum hryðjuverkamanna svo sem gagnárás öryggissveita í Beslan sýnir fram á. Rússneskir og vestrænir fjölmiðlar telja að gagnárásin hafi verið misheppnuð og hugsanlega valdið miklu tjóni. Menn skyldu þó varast að láta reiði sína beinast í ranga átt. Aðeins hryðjuverkamennirnir bera ábyrgð á þeim óhugnaði sem átti sér stað. Rússnesk yfirvöld bera þar enga sök.

Illskan sem birtist með svo viðbjóðslegum hætti í Beslan er framin og skipulögð af hópi manna sem hefur verið heilaþveginn með mjög óhefðbundinni jaðartúlkun á kenningum íslam. Ofstækishóparnir sem þar eru að verki eru ekki fjölmennir en þeir eru ákaflega ófyrirleitnir. Trúarlegri kenningu Kóransins um frið meðal manna hefur verið snúið upp í andhverfu sína. Fylgismenn Salafi-hreyfingarinnar telja að kennisetninguna sem bannar múslimum að fara með stríð á hendur öðrum sé hægt að túlka sem ákall um að múslimar eigi að myrða alla íbúa Vesturlanda við hvert færi sem þeim gefist.

Því miður virðist engin leið vera til þess að hafa hemil á íslömskum hryðjuverkahópum önnur en valdbeiting. Þeir sem gengist hafa þessum hópum á hönd eru ákaflega ólíklegir til þess að snúa af þeirri braut, enda hafa þeir verið sannfærðir um að eilíf himnavist hlotnist aðeins þeim sem drepa og deyja í nafni trúarinnar. Eina leiðin til þess að berjast við þessa hópa er með markvissum hernaðar- og lögregluaðgerðum sem beinast að því að uppræta þá hópa sem starfræktir eru víða um heim.

Langtímamarkmiðið hlýtur hins vegar að vera að koma í veg fyrir að öfgamönnum takist að vinna nýja meðlimi til fylgis við sig. Ljóst er að því markmiði verður ekki náð nema að íslamskir leiðtogar beiti sér í stórauknum mæli gegn því andrúmslofti tortryggni og haturs sem víða ríkir í garð Vesturlanda – og sérstaklega Bandaríkjanna. Þetta er hins vegar erfitt ef stjórnvöld á Vesturlöndum hella olíu á haturseldinn með því að nota hryðjuverkaógnina sem átyllu til þess að halda út í aðgerðir sem á engan hátt eru líklegar til að draga úr þeirri ógn sem heiminum stafar af íslömskum hryðjuverkahópum.

Blóðbaðið í Beslan er náköld áminning um að einstaklingar, sem eru svo truflaðir að samviska þeirra er engin, geta valdið saklausu fólki ómældum þjáningum. Það er erfitt að ímynda sér hvernig hægt er að koma algjörlega í veg fyrir þess háttar harmleiki. Eina vonin er sú að þjóðir heims sameinist um skynsamlegar og skilvirkar aðgerðir til þess að uppræta þau öfl sem fóstra og styðja hryðjuverkastarfsemi gegn saklausum borgurum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.