Er lausnarorðið endurtrygging?

Heilbrigðismál hafa verið eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum í haust. John Kerry hefur lagt fram metnaðarfullar tillögur til úrbóta í málaflokkinum. Eitt af því sem Kerry leggur til er að bandaríska ríkið bjóði upp á endurtryggingu stóráfalla.

Fáum dylst að eitthvað meira en lítið er að í heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn eyða næstum tvöfallt hærra hlutfall af landsframleiðslu sinni til heilbrigðismála en aðrar OECD þjóðir. Samt sem áður er stór hluti bandarísku þjóðarinnar án sjúkratryggingar (45 milljónir) og Bandaríkjamenn eru eftirbátar annarra OECD þjóða hvað heilsu varðar þegar litið er til mælikvarða svo sem meðalævi og barnadauða.

Það kemur því ekki á óvart að heilbrigðismál skuli vera eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum nú í haust. John Kerry, frambjóðandi Demókrata, hefur lagt mikla áherslu á það að hann stefni að því að breyta bandaríska heilbrigðiskerfinu þannig að yfir 99% þjóðarinnar búi við sjúkratrygginu. Raunar má segja að stærsti munurinn á stefnumálum frambjóðendanna tveggja í kosningunum í haust sé að Kerry ætli að hækka skatta á þá sem hafa hærri tekjur en $200.000 og nota skatttekjurnar til þess að borga fyrir úrbætur í heilbrigðiskerfinu á meðan Bush ætlar að festa í sessi þær skattalækkanir sem hann stóð fyrir á yfirstandandi kjörtímabili.

En tillögur Kerry snúa ekki einvörðungu um að sem flestir Bandaríkjamenn njóti sjúkratrygginga. Þær snúast einnig um leiðir til þess að draga úr óhagkvæmni í heilbrigðiskerfinu. Hagfræðingurinn Brad DeLong fjallaði nýlega um tillögur Kerry í grein í Financial Times.

Einungis einn af hverjum 250 sjúklingum í Bandaríkjunum sem tryggður er hjá einkageiranum veikjast þannig að þeir þarfnast heilbrigðisþjónustu sem kostar meira en $50.000 á ári. Þessi hópur veldur samt sem áður yfir 20% af heildarútgjöldum tryggingafélaga til heilbrigðismála. Þetta gerir það að verkum að bandarísk tryggingafélög hafa gríðarlega hvata til þess að komast hjá því að tryggja þá sem líklegt er að veikist alvarlega.

Annað vandamál er að þeir sem kaupa sjúkratryggingu þurfa ekki aðeins að borga fyrir sína eigin þjónustu heldur einnig fyrir þá sem ekki kaupa sjúkratryggingu. Sjúkrahús eru skylduð til þess að veita öllum bráðaþjónustu. Þeir sem ekki hafa sjúkratryggingu í Bandaríkjunum en veikjast alvarlega hljóta því slíka þjónustu á kostnað hinna sem hafa sjúkratryggingu. Þetta gerir það að verkum að ekki allir sjá hag sínum best borgið með því að kaupa sjúkratryggingu.

Hluti af vanda bandaríska heilbrigðiskerfisins er því vítahringur: Þeim mun dýrari sem sjúkratryggingar eru þeim mun færri sjá hag sínum best borgið með því að kaupa slíka tryggingu. En þeim mun færri sem kaupa sjúkratrygginu þeim mun dýrari verður að bjóða upp á slíka tryggingu.

Eitt af lykilatriðunum í stefnu Kerry í heilbrigðismálum er að bandaríska ríkið bjóði tryggingafélögum upp á endurtryggingu fyrir kostnaði sjúklinga sem er yfir $50.000 á ári. Þetta myndi minnka hvata tryggingafélaganna til þess að komast hjá því að tryggja þá sem mest þurfa á sjúkratryggingu að halda. Iðgjöld myndu lækka sem aftur myndi leiða til þess að færri sæju sér hag af því að vera án sjúkratryggingar.

Þetta virðist vera nokkuð sniðug tillaga. Með henni væru allir tryggðir Bandaríkjamenn í raun komnir með opinberar heilbrigðistrygginu þegar um stóráföll væri að ræða. En þar sem þeir fengju samt sem áður að velja sér tryggingafélag myndi þeim líklega ekki líða eins og tryggingin kæmi frá ríkinu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.