Knattspyrnan eins og lífið sjálft

Undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu hefst í dag. Íslendingar leika gegn Búlgörum á heimavelli og ætla sér að ná öðru af tveimur efstu sætum undanriðilsins. Er það raunhæft markmið, eða er um að ræða eilífa draumóra lítillar þjóðar?

Þegar íslenska knattspyrnulandsliðið gerði markalaust jafntefli gegn Þjóðverjum á Laugardalsvelli í næstsíðasta leik sínum í undankeppni EM héldu margir að nú yrði markinu náð. Loksins kæmust Íslendingar alla leið á stórmót í knattspyrnu á meðal þeirra bestu. Það takmark náðist ekki þrátt fyrir að Þjóðverjar og Skotar hafi líklega ekki átt slakari lið í lengri tíma. Því má velta því fyrir sér hvort það sé raunhæft að ná öðru af tveimur efstu sætunum í undankeppni HM í Þýskalandi sem haldið verður árið 2006.

Ísland er í erfiðum riðli. Svíar verða að teljast sigurstranglegastir eftir góða frammistöðu á EM í sumar en enginn ætti að afskrifa önnur lið. Búlgarir töpuðu aðeins einum leik í undankeppni EM og höfnuðu í efsta sæti riðilsins. Þrátt fyrir að frammistaða liðsins í lokakeppninni hafi valdið vonbrigðum gætu þeir komið á óvart. Eftir EM tók frægasti knattspyrnumaður Búlgaríu við liðinu, Hristo Stoichkov, knattspyrnumaður Evrópu 1994. Hann hefur gert veigamiklar breytingar á landsliðhópnum og blandað saman reyndari og nýrri leikmönnum.

Íslenska liðið á vissulega möguleika á heimavelli í dag. Leikurinn gegn Ítölum sýndi svo ekki verður um villst hvað hægt er að gera ef viljinn er fyrir hendi. Baráttan var til fyrirmyndar og vart veikan blett að finna. Á engan er hallað ef sérstaklega er minnst á tvo leikmenn sem stóðu sig afar vel gegn Ítölum, annars vegar Gylfa Einarsson, en hins vegar Rúnar Kristinsson.

Gylfi hefur blómstrað hjá norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström í sumar og skyndilega hefur landsliðið eignast sterkan og sókndjarfan miðjumann. Þar er um að ræða framtíðarleikmann sem gæti orðið burðarás íslenska liðsins þegar fram í sækir. Mikilvægt er að Gylfi fái tækifæri til að þroskast enn meira sem leikmaður, hvort sem það verður í Noregi eða í enn sterkari deildum.

Endurkoma Rúnars Kristinssonar í liðið vakti verðskuldaða athygli. Með honum færðist ákveðin ró yfir miðjuspilið sem gerði það að verkum að aðrir leikmenn fengu frið til að sinna sínu starfi. Eiður Smári Guðjohnsen gat til að mynda spilað sem framherji og þurfti ekki í sífellu að sækja boltann aftur á miðjan völl. Rúnar á við lítils háttar meiðsli að stríða og verður ekki með í dag, en landsliðsins vegna skulum við vona að hann verði heill fyrir næstu leiki. Enginn annar getur leyst hlutverk Rúnars innan liðsins eins og staðan er í dag.

Á miðvikudag mæta Íslendingar Ungverjum á erfiðum útivelli í Búdapest. Markmið landsliðsþjálfaranna verður fyrst og fremst að hala inn stigum á heimavelli og sjá svo til hvað útivellirnir gefa okkur. Það er skynsamlegt markmið og raunhæft miðað við getu liðsins. Auk þeirra liða sem þegar hafa verið talin upp eru í riðlinum Króatar og Möltumenn. Svíar, Búlgarir og Króatar eru á blaði með sterkari lið og því er að duga eða drepast.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvort það sé raunhæft að stefna á sæti í lokakeppni stórmóts. Þrátt fyrir að sífellt fleiri gerist atvinnumenn eru fáir um hverja stöðu í landsliðinu. Til þess að komast alla leið þurfa leikmenn því að sýna stöðugleika yfir langt tímabil, stöðugleika sem oft hefur skort. Það breytir því þó ekki að þjóðin gerir ákveðnar kröfur til þeirra sem leika í landsliðstreyju, hvort heldur sem er í knattspyrnu eða öðrum íþróttagreinum. Í gegnum tíðina hafa væntingar til liðsins verið óraunhæfar en miðað við núverandi forsendur væri rangt að stefna ekki á annað af tveimur efstu sætum riðilsins. Náist markmiðið ekki þýðir þarf það þó ekki að þýða að landsliðinu hafi mistekist.

Ef til vill er það eina raunhæfa krafan að leikmenn berjist eins og ljón í 90 mínútur. Að þeir sýni fram á að örþjóð á borð við Ísland geti staðið uppi í hárinu á milljóna þjóðum Evrópu, að Íslendingar séu þegar öllu er á botninn hvolft, sterkari og hugdjarfari en hinir. Íþróttir, og þá einkum knattspyrnan, eru nefnilega hið nýja ópíum heimsins. Þessar örfáu mínútur sem við gleymum því að við erum einstaklingar og verðum hluti af heildinni, af hópnum og íslensku þjóðinni.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)