Að hafa einfaldan smekk

Hvað er besta bókin sem þú hefur lesið? Besta myndin sem þú hefur séð? Besti geisladiskur sem þú hefur hlustað á? Út frá hvaða forsendum? Skiptir það máli? Þótt valið geti verið erfitt er áhugavert að velta slíku fyrir sér, og velja svo það besta.

Sitt sýnist hverjum …

Ég man alltaf eftir því að góður vinur minn, sem hlustaði mikið á Led Zeppelin, neitaði að segja hver af plötunum þeirra honum fannst best. Honum fannst það óviðeigandi, svona eins og að gera upp á milli barnanna sinna.

En plötur eru ekki börn og það að velja bestu plötuna er áhugaverð dægradvöl. Sumir eiga þó erfitt með það og finnst þurfa að skilgreina verkefnið betur. Er átt við bestu partíplötuna, bestu tiltektarplötuna, bestu tónlistina til að slaka á við? Er besta bíómyndin sú sem skilur mest eftir sig, sú sem fær mann helst til að hlæja, eða sú sem er mest spennandi? Er besta bókin sú sem maður les aftur og aftur veltandi fyrir sér hverju orði, eða spennusagan sem maður las á tveimur sólarhringum samfleytt?

Með því að ræða við ýmsa einstaklinga um þeirra bestu bækur, myndir eða plötur, kemst maður fljótt að því að valið á því besta er allt of einstaklingsbundið til að hægt sé að smíða flókna skilgreiningu á því. Þegar allt kemur til alls, er aðeins eitt sem það besta á sameiginlegt í huga allra:

Það er aðeins eitt „það besta“.

Hvaða forsendur menn nota til að velja það besta skiptir ekki máli. Hver fyrir sig leggur sitt mat á málið og allir komast að „réttri“ niðurstöðu. Þegar einhver hefur velt málinu fyrir sér í ró og næði og ákveðið hvað er besta bók sem hann hefur lesið, hefur hann rifjað upp allar þær bækur sem hann man eftir og hafði gaman af, hver sem ástæðan var fyrir því að hann hafði gaman af þeim.

Og þegar einhver segir manni hvað er besta bíómynd sem hann hefur séð þá lærir maður eitthvað nýtt um þann aðila, einmitt vegna þess að maður hefur ekki njörvað valið niður með einhverjum fyrirframgefnum forsendum.

En það er smáátak að velja það besta. Þess vegna er sjálfsögð kurteisi fyrir þá sem ganga á félaga sína með spurningar um „besta þetta og besta hitt“, að leggja það á sig að lesa bestu bók þess sem lagði það á sig að velja hana, að horfa á bestu myndina eða hlusta á besta geisladiskinn.

Einn vina minna (hagfræðingur að mennt), var ekki lengi að nýta sér þetta framboð á tíma mínum. Vitandi að ég myndi lesa þá bók sem hann segði besta, valdi hann blákalt bók sem hann vildi að ég læsi því hún kom á framfæri boðskap sem hann hafði áhuga á að breiða út. Eftir að ég hafði lesið bókina (sem var ágæt) ljóstraði hann upp um hversu útsmoginn hann hafði verið og ég lærði eitthvað nýtt um hann líka.


Besta bók sem ég hef lesið heitir Life of Pi og er eftir kanadíska rithöfundinn Yann Martel. Hún fjallar um strák sem verður strandaglópur á björgunarbát ásamt bengaltígrisdýri.

Besta mynd sem ég hef séð heitir The Shawshank Redemption með Tim Robbins og Morgan Freeman. Hún fjallar um mann sem lendir í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Besti geisladiskur sem ég hef hlustað á heitir The Fragile (vinstri diskurinn). Hann er með hljómsveitinni Nine Inch Nails.

Ég mæli með því, lesandi góður, að þú kynnir þér þessi verk. Ef þú lest bókina, horfir á myndina og hlustar á geisladiskinn, lofa ég að lesa bestu bókina þína, horfa á bestu myndina þína og hlusta á besta geisladiskinn þinn.

En jafnvel þótt þú gerir það ekki, þá hefði ég gaman af að því ef þú sendir þitt val á magnus@deiglan.com.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)