Klofin elíta

Flokkadrættir í bandarískum stjórnmálum eru nánast alveg hættir að orsakast af mismunandi efnahag fólks. Í dag eru það deilur milli „þekkingarelítunnar“ og „businesselítunnar“ sem móta stjórmálabaráttuna.

Fram eftir 20. öldinni einkenndust pólitískir flokkadrættir í flestum lýðræðisríkjum af stéttabaráttu. Efnafólk var líklegra til þess að kjósa hægriflokka á meðan þeir sem minna höfðu milli handanna studdu vinstriflokka. Bandarísk stjórnmál voru engin undantekning. Demókrataflokkurinn sótti þá stærstan hluta af sínum stuðningi til verkafólks. Stuðningur við Repúblikanaflokkurinn var meiri þeim mun ofar sem komið var í tekjustigann.

Á síðustu áratugum hefur þetta samband milli tekna og stuðnings við ákveðna stjórmálaflokka nánast horfið í Bandaríkjunum. Samt hefur lítið sem ekkert dregið úr hugmyndafræðilegum deilum milli Demókrata og Repúblikana. Að margra mati hafa deilur milli flokkanna jafnvel aukist á síðustu 10 árum eða svo.

David Brooks, pistlahöfundur á New York Times, skrifaði fyrr í sumar athyglisverða grein um þessa þróun. Brooks bendir á það að á undanförnum áratugum hafi menntastéttin í Bandaríkjunum í auknum mæli klofnað í tvær fylkingar sem aðhyllast mismunandi gildi og hegða sér með mismunandi hætti kjörklefanum.

Annan hópinn kallar Brooks “þekkingarelítuna”. Í þessum hópi eru lögmenn, læknar, blaðamenn, fræðimenn, verkfræðingar, kennarar, arkitektar og fleiri slíkar stéttir. Hinn hópinn kallar Brooks “businesselítuna”. Þetta er háskólamenntað fólk sem rekur fyrirtæki, stundar verslun, fjármálastarfsemi og annað í þeim dúr.

Að mati Brooks hefur baráttan milli þessara hópa sett svip sinn á bandarísk stjórnmál að undanförnu. Í stað þess að snúast um stéttabaráttu hafa stjórnmál í auknum mæli snúist um menningu, siðfræðileg gildi og mikilvægi mismunandi leiðtogahæfileika. Barátta elítunar snýst að stórum hluta um það hvers konar fólk eigi að stjórna.

Þekkingarelítan vill leiðtoga sem byggja ákvarðanir og stefnu sína á yfirgripsmikilli þekkingu og eru tilbúnir að færa nákvæm rök fyrir einstökum atriðum. Businesselítan vill á hinn bóginn sterka leiðtoga sem hafa skýra og einfalda stefnu sem þeir fylgja í gegnum þykkt og þunnt. Þekkingarelítan metur hugmyndaauðgi og sjálfstæða hugsun á meðan businesselítan metur sjálfsaga, hollustu og hæfileikann til þess að stjórna fólki.

Businesselítan gagnrýnir þekkingarelítuna fyrir stefnuleysi, fyrir að skipta um skoðun og fyrir að haga seglum eftir vindi. Þekkingarelítan gagnrýnir businesselítuna á hinn bógin fyrir kreddu og einfeldningslega stefnu.

Íslensk stjórnmál einkennist ekki jafn mikið af þessum klofningi á meðal menntaelítunnar og bandarísk stjórnmál. Samt má greina svipaðar deilur hér á landi í minna mæli. Þannig er mjög vinsælt hjá Sjálfstæðismönnum að saka Samfylkinguna um stefnuleysi og að sama skapi er algengt að vinstrimenn saki Sjálfstæðismenn um kreddukennda trú á einkavæðingu, skattalækkunum og einstaklingsfrelsi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.