Olían hækkar

Olíuverð fór yfir 45 dali tunnan á bandaríkjamarkaði í gær og hefur aldrei verið hærri síðan núverandi viðmiðunarkerfi var tekið upp árið 1980. Olían hækkar og hækkar með versnandi heimsástandi, en með nýjum úrlausnum við eldsneytisframleislu væri hugsanlega hægt að bæta ástandið.

Olíverð heldur áfram að hækka og í gær fór verð á hráolíu yfir 45 dali tunnan í fyrsta sinn í sögunni. Olíuverð hefur ekki verið hærra síðan núverandi viðmiðunarkerfi var tekið upp árið 1980. Hefur verðið nánast verið í stöðugum vexti allt þetta ár.

Er þessi hækkun rakin til ótta um aukna ólgu í Mið-Austurlöndum, hryðjuverkaógnar í Bandaríkjunum og einnig til óvissu um framtíð rússnenska olíufélagið Yukos. Olíubirgðir í Bandaríkjunum eru líka litlar sem skapar þrýsting til hækkunar og á sama tíma hefur eftirspurn eftir olíu aukist til muna í Kína og á Indlandi.

Í síðustu viku lýsti Purnomo Yusgiantoro, orkumálaráðherra Indónesíu og forseti OPEC (Samtaka olíuútflutningsríkja) að olíuverð væri orðið „hreint brjálæði”. Nú hefur OPEC ákveðið að boða ríki utan samtakanna að fundaborðinu þegar næsti fundur verður haldinn í Vín 14. september n.k. Haft hefur verið eftir forseta OPEC að framleiðsla verði hugsanlega aukin um eina og hálfa milljón tunna á dag en þvertekur fyrir það að gripið verði til aðgerða fyrr en á fundinum í Vín. Það verði ekki gert þrátt fyrir mikla ólgu á markaðnum og beiðni Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um aukna framleiðslu.

Í gær bárust þær fréttir að Sádí-Arabar væru tilbúnir til þess að auka framleislu um 1,3 milljón tunna á dag sem mundi þýða 14% aukningu á þarlendri framleiðslu. Slík aukning ein og sér færi langt með að koma jafnvægi á markaðinn en eins og áður sagði þá vilja OPEC samtökin bíða í rúman mánuð með það að taka ákvörðun um hækkun. Óvíst er þó að aukin framleiðsla muni lækka verð, en hún myndi hugsanlega koma í veg fyrir frekari hækkun.

Hækkun á heimsmarkaðsverði olíu hefur bein áhrif á rekstur fyrirtækja á Íslandi jafnt sem á heimilin. Almenningur finnur fyrir hækkun þar sem bensín á bílinn hækkar, en einnig þar sem olía er 3,9% í neysluverðsvísitölunni og þar með hækka allar verðtryggðar kuldir landsmanna jafnt sem fyrirtækja. Skv.Morgunkorni Íslandsbanka frá því í síðustu viku getur hækkun á verði beinlínis heft vöxt á innlendu efnahagslífi.

Áhrif á fyrirtæki eru eðlilega mest á hjá þeim sem nota olíuafurðir í miklu magni, svo sem sjávarútvegur og flutningar. Þessum neikvæðu áhrif hækkunar eru varla ábætandi fyrir útgerðina þar sem afurðaverð fisks hefur verið frekar lágt undanfarin misseri. Hætt er við því að flutningsfyrirtæki velti þessari hækkun út í verð, eins og t.d. sendibílastöðvar, leigubílar og svo ekki sé talað um flugfélög. Nú í vikunni rúmlega tvöfaldaði British Airways eldsneytisgjald á lengri flugleiðum og eru Flugleiðir að hugleiða að fara sömu leið.

Í ljósi þess ástands sem skapast hefur á olíumarkaðnum þá mun vonandi þróun á nýtingu annarra orkugjafa verða hraðari. Hingað til hefur sú þróun aðallega verið knúin áfram af umhverfissjónarmiðum, sem er gott og gilt. En þegar efnahagsleg rök leggjast á sveifina er ekki ólíklegt að aukinn kraftur færist í rannsóknirnar.

Íslendingar hafa staðið framarlega í vetnisframleislu og hönnun véla sem knúnar eru áfram með vetni. Ef þessi þróun gengur eftir þá mun slíkur orkugjafi verða miklu ódýrari en olía á Íslandi, auk þess sem mengun yrði hverfandi. Vetnisvélar í fiskiskipaflotann myndu því auka framlegð útgerðarinnar umtalsvert og einnig myndu heimilin finna fyrir bættum hag þar sem ódýrara yrði að knýja heimilisbílinn áfram.

Það er vonandi að þessi þróun komist á flug þar sem hún mundi ekki aðeins bæta hag okkar íslendinga umtalsvert, heldur yrði það verðugt framlag til bæði umhverfis- og öryggismála alls heimsins.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.