Vandamál vefsins: Njósnaforrit

Mikið hefur verið rætt um vandamál sem tengjast ruslpósti og margskonar vírusum á veraldarvefnum. Annað mein, ekki síður líklegt til mikils skaða og óþæginda, hefur þó skotið upp kollinum í umræðu um vandamál vefsins.

Mikið hefur verið rætt um vandamál sem tengjast ruslpósti og margskonar vírusum á veraldarvefnum. Annað mein, ekki síður líklegt til mikils skaða og óþæginda, hefur þó skotið upp kollinum í umræðu um vandamál vefsins. Svokölluð njósnaforrit (e. Spyware) eru forrit sem læðist eftir bakleiðum í tölvur, oft með ómeðvituðu samþykki notenda, fylgist með notkun á vefnum og nota þær upplýsingar til að birta viðeigandi auglýsingar. Sem dæmi má nefna að sumir tölvuframleiðendur kaupa þjónustu frá fyrirtækjum sem framleiða njósnahugbúnað til að birta auglýsingar ef notandi „villist“ inn á síðu keppinautar. Einnig eru dæmi um njósnahugbúnað sem safnar netföngum og jafnvel eru til forrit sem leita uppi lykilorð og greiðslukortaupplýsingar þó að slíkt sé óalgengara.

Samkvæmt fyrirtækjum sem framleiða slík forrit er útbreiðslan mikil en þau fullyrða að hugbúnaður sem fylgist með internetnotkun og birti auglýsingar sé í tölvum um 4% netnotenda. Engu að síður gera fæstir sér grein fyrir vandamálinu.

Ástæða þess að fæstir vita af því að tölvur þeirra innihalda slíkan búnað er sú að hugbúnaðurinn er oftar en ekki settur upp með öðrum, oftar en ekki, ókeypis hugbúnaði. Í öðrum tilfellum er nóg að heimsækja ákveðnar síður til að fá slíkan hugbúnað í tölvuna. Eftir að njósnahugbúnaðurinn hefur verið settur upp getur hann haft mikil áhrif á afkastagetu hýsiltölvunnar og þannig valdið nokkrum ama. Í flestum tilfellum er síðan ekki hlaupið að því að fjarlægja hugbúnaðinn því oft hafa höfundar lagt metnað sinn í að gera slíkt eins erfitt og kostur er.

Auk mikilla óþæginda fyrir tölvunotendur geta slík forrit haft mjög slæm áhrif á framtíð veraldarvefsins, ekki síst í viðskiptum á vefnum. Sem dæmi má nefna að ekki alls fyrir löngu tryggði einn stærsti framleiðandi njósnahugbúnaðar, Claris, að þýskir netnotendur sem heimsóttu síðu bílaleigunnar Hertz og voru með njósnahugbúnaðinn uppsettan fengu aðeins að sjá auglýsingar frá keppinautum. Slík óþægindi hafa væntanlega ekki aukið traust notenda á viðskiptum á vefnum.

Þó að það sé ekki beint mjög heillandi hugmynd að setja einhverskonar lög á veraldarvefnum hefur misnotkun á því frelsi sem þar er, svo sem framleiðsla á ruslpósti, vírusum og njósnahugbúnaði, gert það að verkum að erfiðara og erfiðara er fyrir notendur, sem eru ekki með þeim mun meiri þekkingu á tölvum, að nota vefinn. Því hafa margir þjóðir hafa farið þá leið að setja lög á notkun á vefnum. Fyrirsjáanlegt er að slíkar lagasetningar eigi ekki eftir að skila miklu gagni vegna þess hve ört vefurinn breytist og hve erfitt er að koma lögum yfir notendur hans. Önnur leið væri að líta svo á að vandamálið sé tæknilegt og opni fyrir markað fyrirtækja sem berjist gegn slíkum meinum sem á endanum leysa vandamálið. Hvor leiðin er líklegri til árangurs skal ósagt látið en víst er að meinum eins og þessum á eftir að fjölga í framtíðinni ef engin lausn finnst.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.