Ekki bara bíó

Það er víst óhætt að fullyrða að nýjasta mynd Micheal Moore, Fahrenheit 9/11, sé að gera allt vitlaust. En nær myndin að skapa eitt mesta ,áróðursmoment’ allra tíma og skila tilætluðum árangri?

Það er víst óhætt að fullyrða að nýjasta mynd Micheal Moore, Fahrenheit 9/11 sé að gera allt vitlaust, en myndin var nýlega valin besta kvikmyndin á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Það er ekki nóg með að þessi heimildamynd sé að slá öll aðsóknarmet heldur skipa áhorfendur sér mjög sterklega í fylkingar eftir því hvort boðskapur hennar á uppá pallborð þeirra.

Þau geysihörðu viðbrögð sem myndin hefur vakið, hvort sem er hjá þeim sem hliðhollir eru Bush stjórninni eða ekki, koma svo sem ekki á óvart enda er efni myndarinnar þess eðlis að hún lætur engan ósnortinn. Það dylst heldur engum sem hana sér, að heimildamyndina er ekki hægt að kalla annað en áróðursmynd. Moore hefur reyndar fús gengist við þessum ásökunum, og svarað því til að heimildamyndir eigi eðli sínu samkvæmt að hafa einhvern ákveðinn útgangspunkt, og það hafi þessi vissulega.

Án þess að kryfja einstök atriði myndarinnar til mergjar eða flokka þau sem sannleika, ýkjur eða rangfærslur, þá gæti þessi ákaflega einhliða og á köflum gríni skotna framsetning Moore´s á átakanlegum málum komið að einhverju leyti niður á trúverðugleika myndarinnar. Eða hvað? Eftir standa þó auðvitað þær bláköldu staðreyndir sem blasað hafa við í fréttum síðastliðin ár og nagandi spurningar t.d. um réttmæti innrásarinnar í Írak. Myndin er náttúrulega ekki bara bíó.

En ætli Moore nái með þessari mynd að skapa eitt mesta ,áróðursmoment’ allra tíma og skila þannig tilætluðum árangri? Mikið hefur verið rætt í fjölmiðlum og á veraldarvefnum um möguleg áhrif hennar og hugsanlega vigt þegar að því kemur að gengið verður að kjörborðum í forsetakosningunum í haust. Sumir vilja meina að þeir sem ekki eru nú þegar vissir í sinni sök muni án nokkurs vafa snúast gegn Bush stjórninni og taka afstöðu með Demókrötum. Aðrir telja að enginn komi til með að skipta um skoðun vegna myndarinnar hafi þeir haft einhverja fyrir. Ef svo, þá væru það helst þeir sem ekki hafi fylgst með fréttum undanfarið ár og séu miðað við það hvort sem er ólíklegir til að mæta á kjörstað.

Hvað sem rétt reynist er þó er líklega óhætt að fullyrða að hugarfar fólks almennt gagnvart kosningarétti sínum mun skerpast. Þannig munu sjálfsagt margir sem áður hafa ekki farið á kjörstað, og talið sitt atkvæði mega missa sín í öllum fjöldanum, gera það í haust.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.