Tækifæri til að snúa af rangri braut

Það er alvarlegt umhugsunarefni að fylgi sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks skuli vera í sögulegu lágmarki á sama tíma og frelsi til athafna og tækifæri fyrir dugmikla einstaklinga einkenna tíðarandann. Þetta ástand er sannarlega öfugsnúið en því miður er það ekki tilviljun. Skýringanna er að leita í starfi ungra sjálfstæðismanna síðustu misseri.

Næstkomandi laugardag verður kosin ný stjórn í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þegar þetta er skrifað bendir allt til þess að kosið verði milla tveggja lista, annars undir forystu Bolla Thoroddsen og hins undir forystu Helgu Árnadóttur. Kosningarnar snúast um hvort nýtt upphaf verður í starfi ungra sjálfstæðismanna eða hvort haldið verður áfram á þeirri braut sem síðustu stjórnir Heimdallar hafa markað.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjaldan þurft eins mikið á sínu unga fólki að halda og nú. Þótt margir haldi að ungliðapólitík skipti litlu máli þá sjáum við á fylgistapi Sjálfstæðisflokksins síðustu misseri að unga fólkið hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Með uppreisn frjálshyggjunnar, sem svo var kölluð, á 8. áratugnum voru skapaðar forsendur fyrir sterkri hugmyndafræðilegri stöðu Sjálfstæðisflokksins á 10. áratugnum, sem aftur hefur leitt af sér áður óþekkta velsæld fyrir íslensku þjóðina.

Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins, einkum meðal yngri kjósenda, hlýtur að vera flokksmönnum og þeim sem hlynntir eru hugmyndafræði flokksins mikið áhyggjuefni. Frá því í kosningunum 1999 hefur stöðugt dregið úr stuðning við flokkinn í yngstu aldurshópunum og í alþingiskosningunum á síðasta ári gerðist það í fyrsta sinn að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki stærstur í yngsta aldurshópnum. Flokkurinn beið algjört afhroð í síðustu borgarstjórnarkosningum, ekki síst vegna lítils fylgis í yngri aldurshópum.

Það er alvarlegt umhugsunarefni að fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks skuli vera í sögulegu lágmarki á sama tíma og frelsi til athafna og tækifæri fyrir dugmikla einstaklinga einkenna tíðarandann. Þetta ástand er sannarlega öfugsnúið en því miður er það ekki tilviljun. Skýringanna er að leita í starfi ungra sjálfstæðismanna síðustu misseri.

Undanfarin ár hafa ungir sjálfstæðismenn fylgt eindreginni einangrunarstefnu. Í stað þess að vinna hugmyndafræði sinni brautargengi með opnu og kröftugu félagstarfi, hafa þeir lokað félagsstarfinu og einbeitt sér að því að halda völdum. Þessi einangrunarstefna náði hámarki síðastliðið haust þegar þáverandi stjórn Heimdallar hindraði inngöngu 1100 ungra sjálfstæðismanna í félagið þegar fyrir dyrum var kosning á aðalfundi. Fyrirséð var að framboð undir forystu Bolla Thoroddsen myndi hafa sigur og við það gat þáverandi stjórn, sem studdi mjög mótherja Bolla, ekki unað.

Þetta kosningasvindl mun verða svartur blettur á innra starfi Sjálfstæðisflokksins um ókomna tíð og til skammar fyrir þá sem að því stóðu, þar á meðal Helgu Árnadóttur, þáverandi varaformann félagsins, sem býður sig nú fram til formennsku í Heimdalli undir merkjum sátta.

En einangrunarstefnan hefur ekki ein og sér unnið þann skaða sem orðinn er á ímynd og áhrifum ungra sjálfstæðismanna. Undirlægjuháttur við forystu flokksins hefur náð nýjum og óþekktum hæðum á undanförnum árum. Upp hafa komið ýmis mál á síðustu misserum, þar sem reynt hefur á dug og kraft ungra sjálfstæðismanna. Þar hafa þeir ítrekað brugðist sem standa áttu vörð um hugsjónirnar. Það veldur því miklum vonbrigðum nú í aðdraganda aðalfundar Heimdallar, að Helga Árnadóttir skuli telja sér til tekna að geta rakað saman jákvæðum ummælum um sig frá forystumönnum flokksins. Hér er auðvitað um að ræða stórkostlegan miskilning á hlutverki ungra sjálfstæðismanna.

Hlutverk ungra sjálfstæðismanna er að standa vörð um stefnu Sjálfstæðisflokksins og veita forystu hans alvöru aðhald. Það er ekki hægt ef forystumenn flokksins velja þá sem þeir hafa velþóknun á til starfa innan ungliðahreyfingarinnar. Ungt fólk innan Sjálfstæðisflokksins á sjálft að velja sér forystumenn. Það eru röng og mjög varhugaverð skilaboð til ungs fólks, að forystumenn flokksins þurfi að hafa á því sérstaka velþóknun til að það geti komist til áhrifa í Sjálfstæðisflokknum. Slík skilaboð gera ekkert annað en að valda flokknum miklum skaða – skaða sem þegar er orðinn að einhverju leyti.

Síðastliðið haust var tækifæri til snúa af þessari braut. Breytingar voru í aðsigi en stjórn Heimdallar kom í veg fyrir þær með aðferðum sem ekki eru lýðræðislegum og opnum stjórnmálaflokki samboðnar. En nú er aftur tækifæri til að rétta kúrsinn og blása lífi í starf ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Það unga fólk sem átti skilið að sigra kosningarnar í fyrra og taka við stjórn Heimdallar fylkir nú liði í annað sinn, undir forystu Bolla Thoroddsen, með það að markmiði að endurreisa merki Heimdallar sem málsvara sjálfstæðisstefnunnar jafnt innan flokks sem utan.

Full ástæða er til að vænta þess að ætlunarverkið takist að þessu sinni.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)