Hvað finnst fólki eiginlega um fríverslun?

Þeir sem deila þeirri skoðun að aukin fríverslun meðal ríkja heimsins sé af hinu góða, ættu að gleðjast yfir þeim niðurstöðum sem fram koma í ítarlegri könnun, sem unninn var fyrir bandarísku stofnunina The German Marshall Fund of the United States, og birt var í síðasta mánuði.

Ánægjulegur áfangi í átt til aukinnar fríverslunar náðist nú fyrir skemmstu, eins og Þórlindur Kjartansson ritaði um fyrir stuttu hér á Deiglunni. Það var þó allt annað en auðvelt að ná fram þessu samkomulagi, enda hafa nokkrir sterkir hagsmunahópar mikinn ávinning af því að viðhalda óbreyttu kerfi. Hér er auðvitað einkum verið að tala um bændur.

Hvað með almenning? Er hann sammála þeim tilteknu hagsmunahópum sem berjast hatrammlega gegn fríverslun? Tökum dæmi frá Bandaríkjunum. Í prófkjöri Demókrataflokksins fyrr á þessu ári, kepptust frambjóðendurnir hver á fætur öðrum við að stíga fram og tala neikvætt um fríverslun. Þetta gerðu þeir, í þeirri von um að afla sér aukins stuðnings. Ekkert athugavert við það myndu kannski einhverjir segja. Ef meirihluti kjósenda er á þeirri skoðun að það eigi að taka upp meiri verndarstefnu en nú er gert, þá megi halda því fram, að það sé eðlilegt að stjórnmálamenn endurspegli þann vilja að einhverju leyti.

En könnun* The German Marshall Fund, sem framkvæmd var í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, sýnir hins vegar mjög klárlega, að almenningur er mun frjálslyndari í þessum efnum heldur en oft er látið að liggja. Stuðningur við fríverslun er öflugur í öllum þessum löndum og ástæðan er sú, að fólk álítur að frjáls viðskipti örvi efnahagslífið og sé auk þess, áhrifaríkasta tækið til að berjast gegn fátækt í þróunarlöndunum. Við skulum líta á nokkrar af helstu niðurstöðunum í þessari könnun:

– Stuðningur við fríverslun er mestur í Bretlandi. Um það bil 75% Breta hafa jákvætt viðhorf gagnvart fríverslun. Í hinum löndunum eru tölurnar örlítið lægri.

– Mikill meirihluti telur að milliríkjaviðskipti auki hagvöxt í þróunarlöndunum og fjölgi einnig störfum þar.

– Langflestir svarenda voru á þeirri skoðun, að það, að berjast gegn fátækt í þróunarríkjunum, væri spurning um siðferðilega skyldu Vesturlanda. Þrátt fyrir mikinn stuðning við þróunaraðstoð, eða 79% að meðaltali, þá voru fleiri á þeirri skoðun að viðskipti við þróunarlönd væru áhrifaríkasta leiðin til að efnahagur þeirra gæti dafnað. – Um 65% valdi viðskipti fram yfir þróunaraðstoð.

– Auk þess, þá tengir fólk viðskipti milli þjóða, við aukin frið og stöðugleika í alþjóðakerfinu. – 78% voru sammála þeirri fullyrðingu.

– Hvað varðar framtíðina, þá er almennur stuðningur meðal fólks við aukið frjálsræði í viðskiptum. – 74% aðspurðra var hlynnt fleiri fríverslunarsamningum, fremur en færri. Mestur stuðningurinn – öllum að óvörum – var í Frakklandi, eða 82%. En þessi stuðingur við aukið frjálsræði í viðskiptum er þó ekki algjörlega skilyrðislaus. Fólk ætlast til þess að stjórnvöld komi einnig til hjálpar, um leið og markaðir eru opnaðir enn frekar. 92% töldu að starfsmenn ættu skilið meiri og betri menntun til að hjálpa þeim við að aðlagast í ótryggara vinnuumhverfi sem óumflýjanlega verður með auknu frjálsræði í viðskiptum. Þetta er mikilvægt. Ef ekki er aðstoðað þá sem verst verða fyrir barðinu vegna starfa sem flytjast úr landi sökum ódýrara vinnuafls, er mikil hætta á því að stuðningur við harða verndarstefnu nái fótfestu.

– Vegna komandi forsetakosninga í Bandaríkjunum í haust, voru þáttakendur spurðir hvor forsetaframbjóðandinn, – Bush eða Kerry – væri betri kostur fyrir alþjóðahagkerfið. Það kemur kannski ekki á óvart að Evrópubúar töldu Kerry mun heppilegri – 70% á móti u.þ.b. 12%. Í Bandaríkjunum skiptust tölurnar hins vegar jafnt á milli Bush og Kerry.

Þær niðurstöður sem þarna koma fram, ættu að veita stjórnmálaleiðtogum enn meiri ástæðu fyrir því að styðja við frekari fríverslunarsamninga. Og sérstaklega er mikilvægt, að einmitt leiðtogar þeirra ríkja sem könnunin nær til, geri það. Vegna alls þess efnahags, pólitíska- og hernaðarlega valds sem þessi ríki hafa yfir að ráða, er stuðningur þeirra við fríverslun algjört grundvallaratriði.

Og í samræmi við niðurstöður þessarar könnunar, ættu stjórnmálamenn því ekki að vera smeykir við að vera talsmenn fríverslunar. Öðru nær. Fólk hafnar lokuðum hagkerfum og kaupir heldur ekki þau rök, að niðurstaðan af frjálsum viðskiptum muni að lokum aðeins leiða til keppni að botninum.(e. “race to the bottom”) Frjáls viðskipti og framfarir fara nefnilega saman. Þvert á það sem sumir aðilar virðast halda.

__________

*Könnunin var framkvæmd í fjórum löndum; Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, á tímabilinu 13-25 maí 2004. Hringt var í 1000 manns í hverju landi fyrir sig.