Líkami, sál og vegabréf

Lífkenni„Áður fyrr dugði manninum að hafa líkama og sál. Nú á dögum þarf hann líka að hafa vegabréf, annars er ekki farið með hann eins og mannlega veru.“

Lífkenni„Áður fyrr dugði manninum að hafa líkama og sál. Nú á dögum þarf hann líka að hafa vegabréf, annars er ekki farið með hann eins og mannlega veru.“ Þannig komst landflótta Rússi að orði á Sovétímanum langþreyttur á eftirliti og frelsissviptingu kommúnismans.

Þessi orð komu upp í hugann er dómsmálaráðherra boðaði nýja tegund af vegabréfum með svonefndum „lífkennum“ í útvarpsviðtali á dögunum. En lífkenni er þýðing íslenskrar málstöðvar á enska orðinu „biometrics“ sem er samheiti yfir líffræðileg auðkenni einstaklinga, svo sem fingraför, rödd, andlits- og augneinkenni (e. facial and iris images).

Nýju vegabréfin eiga, auk hefðbundinna persónuupplýsinga, að innihalda tölvulesanleg gögn um líffræðileg sérkenni hvers einstaklings. Ákveðið hefur verið að fingraför og andlitseinkenni verði lífkenni í nýju vegbréfunum og íslensk stjórnvöld hyggjast taka virkan þátt í að ákveða hvaða öðrum „nauðsynlegu öryggisþáttum“ verður bætt við, eins og lesa má í fréttatilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu. En eins og þar segir taka stjórnvöld undir viðhorf um aukið öryggi og jafnframt skilvirkni í landamæravörslu svo Íslendingar geti andað léttar á ferðalögum um heiminn með lífkennin í vasanum.

Hvatinn að þessum lífkennavegabréfum sem dómsmálaráðherra er svo hrifinn af kemur frá öryggisbrjálæðingum vestanhafs sem virðast tilbúnir til þess að fórna allri friðhelgi einkalífsins til þess að vernda sjálft einkalífið. En eins og kunnugt er hafa Bandaríkin hert allt landamæraeftirlit og krefjast nú jafnvel að fá upplýsingar um mataræði flugfarþega á leið til landsins ásamt persónuupplýsingum.

Þessi þróun er hættuleg og í stað þess að taka undir síaukið persónueftirlit eiga íslensk stjórnvöld þvert á móti að berjast gegn slíkum hugmyndum. Nær væri að sýna fram á sérstöðu landsins í samningviðræðum um vegabréfsáritanir í stað þess að vinna að því að herða landamæraeftirlit og veita slíkum hugmyndum brautargengi. Hingað til hefur hert vegabréfaeftirlit verið samofið kúgun, misrétti og frelsisskerðingu eins og gyðingar stríðsáranna, sovétmenn og kínverjar eru vitni um.

Dómsmálaráðherra virðist ekkert sjá athugavert við þessar hugmyndir enda í takt við stóra bróðurs-kenndar hugmyndir hans um eftirlitsskylt einstaklingsfrelsi og hernaðarbrölt. Lífkennavegabréf munu án efa greiða götuna fyrir auknu eftirliti með einstaklingum í heiminum og skráningu persónuupplýsinga. Það þarf ekki mikinn hugmyndasmið til þess að sjá fyrir sér “hagkvæmni” slíkra vegabréfa í viðskiptalífinu. Í stað þess að láta sér nægja að skrá niður númer á vegbréfi, eins og gert er að óþörfu á mörgum hótelum í dag, gætu viðskiptavinir framvegis til dæmis opnað hóteldyr og greitt fyrir þjónustu með lífkennum sínum. Þannig væri hægt að skrá nákvæmlega hvenær einhver tiltekinn einstaklingur opnar herbergið sitt með augunum eða kvittar fyrir bjór með andlitsgrettu.

Það má hins vegar til sanns vegar færa að hert vegabréfaeftirlit getur dregið úr glæpastarfsemi og andsamfélagslegri hegðun. Því eins og alkunna er var lítið um glæpi í Sovétríkjunum sálugu og fólk lítið að flandrast um að óþörfu.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)