Þrymlabólubakterían afhjúpuð

Það er oft hvimleiður fylgifiskur hormónaróts unglingsáranna, að fram koma hinar ýmsu gerðir af þrymlabólum. Raðgreining á genamengi bakteríu nokkurrar hefur afhjúpað bæði áður óþekkta bóluvaldandi eiginleika hennar sem og möguleika á nýjum meðferðarúrræðum.

Það er oft hvimleiður fylgifiskur unglingsáranna, þegar hormónarót líkamans er hvað mest, að fram koma hinar ýmsu gerðir af bólum. Acne vulgaris eða þrymlabólur er algengur húðsjúkdómur og er talið að um 35-40% allra fái hann, þó aðeins þurfi um 15% að leita ásjár sérfræðings.

Algengi þessa sjúkdóms er a.m.k. slíkt að heil fræðigrein hefur skapast um hann og úrlausnir honum tengdar, án þess þó að hann sé hættulegur sem slíkur. Sjúkdómurinn læknast í rauninni aldrei, en meðan hann ,stendur yfir’ eru til ýmsar leiðir til að halda honum niðri eða lina hann.

Sjúkdómurinn herjar reyndar alls ekki bara á unglinga og er talið að um 1% karla og 5% kvenna um fimmtugt þjáist af honum. Þrymlabólur eru tilkomnar vegna aukinnar fituframleiðslu í húð, sem m.a. stjórnast af karlhormóninu androgen. Það sem gerist er að op fitukirtlanna í húðinni stíflast vegna offjölgunar fruma þar. Síðan safnast fyrir í kirtlunum húðbakteríur en hingað til hefur eina þekkta hlutverk þeirra verið talið það að gefa frá sér efni sem laðar að hvít blóðkorn og setja þannig af stað ónæmisviðbrögð í líkamanum með tilheyrandi bólgumyndunum.

Undanfarin misseri hafa raðgreiningar á genamengjum baktería verið ofarlega á baugi, og nú er svo komið að acnebakterían Propionibacterium acnes hefur verið raðgreind. Hingað til hefur raunverulegt hlutverk þessarar bakteríu sem fundist hefur í fitukirtlum acnesjúklinga verið óþekkt utan þess sem talað er um að ofan en nú liggja hinsvegar fyrir upplýsingar um einhverjar þúsundir gena sem gætu gefið bakteríunni getuna til þess að valda húðsjúkdómi.

Áður var talið að bakterían væri í raun bara skaðlaus partur af húðflórunni, enda valda alls ekki allar bakteríur sjúkdómum, en nú er vitað að hún framleiðir prótín sem raunverulega veldur þrymlabólum. Í ljós kom að gen hennar skrá m.a. fyrir ensímum sem annars vegar er kleift að festa sig í kirtilfrumur fitukirtla og hinsvegar að brjóta niður húðina. Þeir sem að rannsókninni stóðu fundu enn fremur út að bakterían getur framleitt marga af lykilþáttum fjölmargra mikilvægra efnaferla, sem gerir henni kleift að vaxa við mismunandi skilyrði, en bæði útbreiðsla hennar og fjölbreytileiki sjúkdómstilfella sem hún orsakar hefur löngum valdið vísindamönnum heilabrotum.

Niðurstöður raðgreiningar genamengisins gefur okkur þó ekki aðeins vitneskju um raunverulegt eðli acnebakteríunnar heldur gefur um leið vísbendingar um hvernig megi draga úr vexti hennar eða koma í veg fyrir að hún nái að festa sig við frumur fitukirtlanna. Þannig verða vonandi innan tíðar þróuð ný hnitmiðaðari meðferðarúrræði við þrymlabólum, enda eru margir stofnar acnebakteríunnar orðnir þolnir fyrir þeim hefðbundnu sýklalyfjum sem meðferðin byggist oft upp á.

Heimildir:

„>MedlinePlus

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.