Höldum EM kvenna

Íslenska kvennaknappspyrnan hefur verið á uppleið að undanförnu. Liðið er komið í umspil um sæti á öðru stórmóti í röð og framhaldið lofar góðu. Það er því spurning hvort ekki væri flott að nýta skriðþungann og halda úrslitakeppni EM kvenna á Íslandi í nálægri framtíð.

Árangur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppni EM lofar góðu fyrir komandi ár. Þegar Íslendingar eiga einn leik eftir og flest önnur lið tvo eru stelpurnar þegar komnar í umspil. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lansliðið kemst í umspil um laust sæti á stórmóti en litlu munaði að stelpurnar kæmust á HM fyrir ári síðan þegar þær töpuðu naumlega fyrir Englendingum.

Þetta er lengra en karlalandsliðið hefur nokkru sinni komist. Árangur kvennanna er þeim mun merkilegri fyrir það að kvennamótin eru almennt fámennari en karlamótin. Þannig spila aðeins 8 lið í úrslitakeppni EM og 16 á HM (sbr. 16 og 32 hjá körlunum). Ef staða Íslands í karlaboltanum væri því í einhverjum samanburði við það sem hún er í kvennaknattspyrnu væri Ísland fastagestur á stórmótum.

Það er vonandi að allt gangi upp hjá stelpunum okkar og við fáum að sjá þær spila meðal þeirra bestu á Englandi á næsta ári. En um leið má líka velta fyrir sér hvort við Íslendingar séum ekki í stakk búnir til að fylgja eftir uppgangi íslenskrar kvennaspyrnu með því að halda sjálfir úrslitakeppni EM-kvenna. Líklegast er rétti tíminn til þess einmitt núna. Áður er langt um líður mun keppnin líklega verða orðin stærri, liðin verða fleiri og sömuleiðis áhorfendurnir. Mun erfiðara verður þá fyrir litla Ísland að sækjast eftir heiðrinum.

En auðvitað er þessi heiður ekki fenginn frítt. Til að geta haldið keppni þarf knattspyrnuvelli og þeir eru ekki margir hér á landi sem eru í hæsta gæðaflokki. Ef litið er á gamlar Evrópukeppnir kemur í ljós að úrslitakeppni kvenna krefst um 5 knattspyrnuvalla. Eitthvað er á reiki um kröfur varðandi fjölda sæta á völlum á þeim völlum en þó ber að geta þess að þegar keppnin var haldin í Þýskalandi var fámennt á flestum leikjum öðrum en gestgjafanna.

Tveir þessara valla þyrftu að vera í stærri kantinum til að hægt verði að leika undanúrslitaleikina á þeim samdægurs. Stækkaður Laugardalsvöllur dugar sem einn þeirra og síðan mætti með hóflegri íþróttaheimtufrekju krefjast þess að byggður yrði annar stórvöllur á Höfuðborgarsvæðinu sem hugsaður væri til fótboltaiðkunnar eingöngu og gæti létt af Laugardalsvellinum á sumartíma. Síðan er hvort sem er þörf á að bæta knattspyrnuaðstöðu á Akureyri, Grindavíkurvöllur tekur þegar 1500 í sæti og með endurbótum á Kaplakrika, Víkinni eða ÍA-vellinum væri hægt að klára dæmið.

Það er auðvitað augljóst að slíkur atburður yrði mikil lyftistöng fyrir íslenska knattspyrnu, jafnt kvenna sem karla ef af yrði. Mannvirkin mundu nýtast mörg ár fram í tímann og ferðaþjónustan mundi auðvitað njóta góðs af einnig. Það er svo auðvitað annarra að ákveða hvað gert verður við þessa hugmynd mína. Ég tel einungis að hún sé framkvæmanleg ef til staðar verður verulegur áhugi og auðvitað verulega, verulega mikið fjármagn.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.